FFF – Félag fagfólks í frítímaþjónustu

fagfélag

FFF eða Félag fagfólks í frítímaþjónustu starfar á vettvangi frítímans á vegum sveitarfélaga, s.s. í félagsmiðstöðvum, frístundaheimilum, frístundamiðstöðvum, ungmennahúsum og skrifstofum æskulýðsmála og hefur það markmið að stuðla að aukinni fagmennsku á vettvangnum. Félagið var stofnað árið 2005 af hópi fólks sem allt starfaði við frítímaþjónustu. Markmið félagsins er meðal annars að leggja áherslu á mikilvægi frítímaþjónustu sveitarfélaganna fyrir ungt fólk og efla fagvitund og samheldni fagfólks í frítímaþjónustu með því að skapa félögum vettvang til umræðna og skoðanaskipta. Til að geta gengið í félagið þurfa einstaklingar að hafa lokið háskólanámi í tómstunda- og félagsmálafræðum eða hafa starfað í fimm ár á vettvangi frítímans. Einnig er hægt að sækja um aðild ef einstaklingur sem starfar á vettvangi frítímans hefur lokið háskólanámi á sviði uppeldis- og félagsvísinda. Aukaaðild geta þeir sótt um sem stunda nám á sviði félagsvísinda, uppeldis- og tómstundafræða ef þeir starfa á vettvangi frítímans. Þeir hafa þó einungis áheyrnar-og tillögurétt á aðalfundi og greiða helming félagsgjalds.

Fagfélagið, eins og félagið er jafnan kallað manna á milli, stendur fyrir ýmis konar fundum og fræðslu fyrir fagfólk í frítímaþjónustu. Sem dæmi má nefna Kompás námskeið í lýðræðis- og mannréttindafræðslu sem Fagfélagið hefur staðið fyrir á síðastliðnum mánuðum. Ásamt því að stuðla að aukinni þekkingu á vettvangi frítímans stuðlar Fagfélagið að miklu samstarfi milli stjórnvalda, starfsfólks á vettvangnum og háskólasamfélagsins. Fagfélagið er því mikilvægur liður í því að dýpka þekkingu og auka fagmennsku starfsfólks ásamt því að standa vörð um hagsmuni vettvangsins.

Á nýafstöðnum aðalfundi félagsins var kosin ný stjórn Fagfélagsins en hana skipa:

Hulda Valdís Valdimarsdóttir – Formaður
Guðrún Björk Freysteinsdóttir
Helgi Jónsson
Elísabet Pétursdóttir
Bjarki Sigurjónsson

Guðmundur Ari Sigurjónsson – Varamaður
Nilsína Larsen Einarsdóttir – Varamaður

Við hér á Frítímanum hvetjum alla sem starfa á vettvangi frítímans til að sækja um aðild í Fagfélagið og gerast þannig virkir þátttakendur í að móta og þróa starfsvettvanginn.

Hér er hægt að skrá sig í Fagfélagið.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *