Yndislestur á undanhaldi?

Ég hef alltaf haft gaman af bókum, alveg síðan ég lærði að lesa. Það er fátt sem gleður mig jafn mikið og ný bók. Það voru ófáir klukkutímarnir sem fóru í að lesa fleiri, fleiri bækur um alls konar fólk, staði og ævintýri. Við bókalestur fær maður innsýn í annan heim og lærir að sjá og skilja heiminn á annan hátt. Ég tel af persónulegri reynslu bækur vera þroskandi og góða afþreyingu sem hægt er að gleyma sér við í marga klukkutíma.

„The more that you read, the more things you will know.

The more that you learn, the more places you‘ll go.“

–Dr. Seuss

Yndislestur er orð sem er yfirleitt notað yfir lestur sem fer fram í frítíma og algjörlega á eigin forsendum. Lesandinn velur sjálfur hvað hann vill lesa og hvenær lesturinn fer fram.

Mín tilfinning er sú að unglingar lesi sér minna til gamans en áður, meðal annars með tilkomu internetsins og þeirri þróun að snjalltæki eru nú í vasa hvers manns. Flestir velja frekar að horfa á sjónvarpsþætti eða hanga í símanum en að setjast niður og lesa bækur aðrar en skólabækur. Oft finnst fólki auðveldara eða minna vesen að setjast fyrir framan sjónvarpið og horfa á eitthvað sem krefst ekki mikillar hugsunar og einbeitingar en að setjast með bók. En skiptir það einhverju máli hvort unglingar lesi bækur eða ekki?

Sumir vilja meina að form yndislesturs hafi einfaldlega breyst með tilkomu tækninnar. Það mætti þá segja að allt sem fólk les á netinu sé yndislestur. Eru þá fréttir og greinar, pistlar á Facebook, titlar við Instagram myndir og greinar á Wikipedia yndislestur? Það má eflaust deila um það en ég tel að þessir hlutir muni aldrei koma í staðinn fyrir bækur því það er svo margt sem lesandi fær úr bókum sem hann fær ekki annars staðar.

Það er því óhætt að fullyrða að já, það skiptir máli hvort unglingar lesi bækur sér til gamans eða ekki. Lestur bóka eykur meðal annars lesskilning, orðaforða og getuna til að setja sig í spor annarra og sjá heiminn út frá öðrum persónum, annarri menningu og nýjum hugmyndum. Mismunandi tegundir bóka gefa ólíkar upplifanir, til dæmis er mikill munur á skáldsögum, fantasíum og ævisögum. Sumar þeirra gætu gerst í raunveruleikanum en aðrar ekki. En allar tel ég gefa lesandanum færi á að sjá inn í hugarheim annarra. Það er því gríðarlega mikilvægt að hvetja börn til lesturs og gæta þess að þau hætti því ekki þegar þau komast á unglingsárin.

Áhugi á lestri byrjar fyrst og fremst heima. Ef foreldrar eru duglegir að lesa með börnunum sínum, sýna lestri barnanna sinna áhuga og lesa sjálf í eigin frítíma eru meiri líkur á að börn þeirra hafi áhuga á bókalestri. Auðvitað eru fleiri þættir sem spila þarna inn í eins og mismunandi persónugerðir og áhugamál en ég tel að það sé mikilvægt að allir geti lesið sér bæði til gagns og gamans.

 

„A reader lives a thousand lives before he dies, said Jojen. The man who never reads lives only one.“

–George R. R. Martin (A Dance With Dragons)

 — 

Gunnhildur Einarsdóttir