Þetta er ekki þolendum að kenna!

Einelti er eitthvað sem við öll þekkjum, það er búið að festa rætur sínar í samfélaginu og það er næstum ómögulegt að losna við það. 1 af hverjum 5 unglingum á aldrinum 12-18 ára verður fyrir einelti, hvort sem það sé líkamlegt, andlegt, beint eða óbeint. Ef þú hugsar til baka, hefur þú verið fórnarlamb eineltis? Þekkir þú einhvern sem var fórnarlamb eineltis? Varst þú einhvern tímann gerandi eineltis?

Það eru fáir sem viðurkenna að þeir hafi lagt einhvern í einelti en upp á síðkastið verð ég varari við það að fólk deili sinni reynslu sem þolendur af einelti. Ég sjálf hef verið lögð í einelti sem stóð yfir í nokkur ár og ég hélt alltaf að það væri mér að kenna vegna einhvers sem ég gerði en í dag veit ég betur, þetta var ekki mér að kenna.

Skilgreining flestra fræðimanna um hvað einelti sé er að þetta sé endurtekin neikvæð, særandi og niðrandi hegðun sem hefur slæmar afleiðingar fyrir þá sem verða fyrir því. En birtingarmyndir eineltis geta bæði verið beint og óbeint. Beint einelti getur verið líkamlegt og særandi og niðurlægjandi orðræða sem beint er gegn þolanda. Ólíkar birtingarmyndir óbeins eineltis getur verið rafrænt eða félagslegt. Þegar talað er um félagslegt einelti er átt við t.d. útilokun, baktal og/eða höfnun. Þegar talað er um einelti er það fyrsta sem kemur upp í hugann gerandi og þolandi en það er mun flóknara en það. Þegar kemur að einelti koma fjórir hópar við sögu, þolendur, gerendur, þolendur/gerendur og áhorfendur.

Þolendur geta verið ýmis konar, þau geta verið hlédræg, feimin og kvíðin eða ögrandi og þau geta líka tilheyrt minnihluta- og/eða jaðarsettum hópum. Það er mikilvægt að muna að það er ekki þolendum að kenna að þeir verði fyrir ofbeldi, það er alfarið gerendum að kenna. Gerendurnir eru þeir sem meiða, særa og niðurlægja aðra endurtekið og oft er það viljandi, oft til þess að bæta eigin stöðu. Ef að gerendum er ekki veitt aðstoð á viðeigandi tíma getur þetta vandamál fylgt þeim á fullorðinsárum. Þriðji hópurinn sem ekki er rætt nógu mikið um hér á landi eru þolendur/gerendur. Þau eru líklegri til þess að vera með slaka félagsfærni og eru líklegri til þess að brjóta hegðunarreglur hópsins. Samkvæmt rannsóknum eru þetta einstaklingar sem verða fyrir mestum skaða eineltis, vegna þess þau eru bæði þolendur og gerendur. Þegar einstaklingur verður fyrir einelti eru alltaf aðrir sem fylgjast með því gerast, það eru áhorfendurnir. Staða þeirra getur verið þrenns konar, þau grípa inn í, hvetja gerendur áfram eða fylgjast hlutlaust með. Þessi hópur er líklegastur til þess að geta komið í veg fyrir og stöðvað einelti en hann getur líka hvatt eineltið áfram. Líkt og með aðra hópa sem tengjast einelti, þá getur þetta haft neikvæð áhrif á áhorfendur þó svo að þeir tengist þessu ekki með beinum hætti. Það er mikilvægt að taka fram að í mörgum tilfellum geta verið vandamál til staðar sem gerandi vill ekki tjá sig um.

Eftir að hafa lesið grein eftir Vöndu og Ársæl, Viðhorf íslenskra grunnskólanema til eineltis og inngripa í eineltismál út frá reynslu þeirra af einelti, þá þótti mér áhugaverðast að tala um þessa tilteknu hópa. Þeir eru mjög mikilvægir þegar kemur að því að skilja einelti í heild sinni. Ég er fórnarlamb eineltis og það tók mig mörg ár að skilja að þetta var ekki mér að kenna, heldur var þetta gerendum að kenna. Kannski leið þeim illa eða kannski gerðist þetta vegna þess að þeim leið illa.

Einelti í grunnskólum er stækkandi vandamál sem að við getum ekki útrýmt alveg, en ef skólar taka sig saman og eru með inngripaáætlun er stór möguleiki á að hægt sé að koma í veg fyrir það.

Rebekka Eva Valsdóttir

 

 

 

Heimild

Vanda Sigurgeirsdóttir og Ársæll Már Arnarsson. (2018). Viðhorf íslenskra grunnskólanema til eineltis og inngripa í eineltismál út frá reynslu þeirra af einelti. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sótt af https://netla.hi.is/greinar/2018/ryn/14.pdf