Þekkja unglingar mikilvægi tómstunda?

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort unglingar viti afhverju þeir stunda tómstundir. Hvað er það sem er svona mikilvægt við þær? Ég nýti mér oft tækifærið og spyr þá unglinga sem ég þekki til hvers þau stundi tómstundir og hvað þær gefi þeim. Oftar en ekki vita unglingarnir ekkert hverju þeir eiga að svara. Þó svo það séu til ótal margar skilgreiningar á því hvað tómstundir eru og ekki séu allir fræðimenn sammála hvernig best sé að skilgreina það, þá ættu allir að þekkja orðið og geta útskýrt í stuttu máli um hvað það nokkurn veginn snýst.

Það er löngu orðið tímabært að innleiða tómstundamenntun í skólakerfi landsins. Tómstundamenntun er vitundavakning á því hversu mikilvægar tómstundir og frítíminn eru.

Með því að koma tómstundamenntun inn í skólakerfið eykur það skilning unglinga á tómstundum og mikilvægi þeirra sem þau geta tekið mér sér út í lífið. Það er mikilvægt fyrir unglinga að vera meðvitaðir um hvaða áhrif tómstundir geta haft á líf þeirra, hvort þeirra tómstundir hafi neikvæð eða jákvæð áhrif á þeirra vellíðan, hamingju og lífsgæði. Neikvæðar tómstundir eru þær sem geta verið skaðlegar fyrir velferð einstaklinga eins og misnotkun áfengis eða eiturlyfja. Jákvæðar tómstundir eru síðan þær sem auka vellíðan, eru uppbyggjandi og eru nýttar til að bæta lífsgæði, þær tómstundir sem fela í sér líkamlega, félagslega, vitsmunalega eða tilfinningalega þætti.

Unglingsárin eru tími sem einstaklingar eiga það til að leiðast út í áhættuhegðun og finnst mér því unglingsárin kjörinn tími til þess að kynna þeim fyrir tómstundamenntun og geta þá t.d. leitt unglinga að réttri braut áður en þau komast útaf sporinu eða að koma í veg fyrir önnur frítímatengd vandamál og leiða.

Tómstundamenntun hefur þann tilgang að þjálfa og mennta einstaklinga í að iðka tómstundir í frítíma sínum og fá sem flesta til þess að stunda jákvæðar tómstundir sem hafa jákvæð áhrif á frítíma þeirra. Tómstundamenntun fyrir unglinga aðstoðar þau við það að auka eigin lífsgæði með þátttöku í tómstundum. Með tómstundamenntun kynnast unglingar þeirri færni og fá þá þekkingu og tæki til þess að geta nýtt sinn frítíma á uppbyggilegan hátt.

Nú er ég utan af landi, frá litlum bæ á Vestfjörðum og heyri oft talað um það hvað það sé ekkert að gera þar. Í öllum tilfellum kemur það frá unglingum eða ungmennum. Það kemur mér alls ekki á óvart að það sé byrjað að kvarta um þetta á unglingsárunum þar sem unglingar eru ef til vill að vaxa upp úr áhugamálum sem þau voru vön að eiga og enda þau því síðan oft á því að hanga og gera ekki neitt.

Ef til vill getur það verið erfitt að finna sér ný áhugamál eða einfaldlega eitthvað til þess að gera í frítíma sínum. Væri það jafn erfitt ef unglingar myndu læra um tómstundir og frítímann í skólanum? Gæti það komið í veg fyrir áhættuhegðun, frítímatengd vandamál eða leiða? Jafnvel minnkað síma og tölvunotkun?

Elín Ólöf Sveinsdóttir

 

Heimildir

Vanda Sigurgeirsdóttir. (2014). Tómstundamenntun. Uppeldi og menntun, 23(1). 91-97. Sótt

af https://timarit.is/page/6009537#page/n89/mode/2up