Taka unglingar kynjajafnrétti alvarlega?

Í námi mínu við tómstunda – og félagsmálafræði við Háskóla Íslands las ég nýlega grein sem fjallar um kynjajafnrétti. Og heitir hún „Er áhugi á kynjajafnrétti sprottinn af áhyggjum af slakri stöðu drengja?“ Þessi grein vekur mann svolítið til umhugsunar og titillinn er frekar grípandi því maður tekur meira og meira eftir því í samfélaginu að drengir eru svolítið útundan í „kynjajafnréttis“ fræðslunni sem nú á sér stað.

En greinin sem ég las fjallar um kynjajafnréttisfræðslu og það að fræðslan hafi, einhvern tímann, verið kennd í grunnskólum landsins. En sú jafnréttisfræðsla sem hefur verið, hefur aðeins verið byggð á frumkvæði einstaklinga sem bera enga ábyrgð á skólastofnuninni, frumkvæðisverkefnin sem eru í gangi tengd fræðslunni hafa reynst skammvinn og oft er áhugi á kynjajafnrétti sprottinn af áhyggjum af drengjum í skóla og slakri frammistöðu tengdu námi. Í greininni kemur fram að í aðalnámskrám menntastofnana á Íslandi eru ákvæði um fræðslu sem varðar kynjajafnrétti, þar er sagt frá sögu kynjajafnréttisfræðslu og hvernig sagan hefur þróast þangað sem hún er nú komin og hvar skólakerfi Íslands fléttast inn í þetta allt saman.

Þar er einnig fjallað um að kynjajafnréttisfræðsla né nokkur önnur fræðsla um svipað viðfangsefni, fyrir utan kynjafræði, hafa verið kennd í grunn – og menntaskólum landsins. En jafnréttisfræðsla í skólakerfinu á Íslandi er veik, þrátt fyrir ákvæði jafnréttislaga sem er áratuga gamalt, um jafnréttisfræðslu á öllum stigum skólans. Því er haldið fram að margir þættir séu að hindra jafnréttisfræðslu. Þeir þættir eru m.a óskýr markmið, veikburða aðalnámskrár, sterk námsgreinaskipting og áhugaleysi.

Í grunnskólalögum frá árinu 2008 og í nýjum aðalnámskrám fyrir leik-, grunn – og framhaldsskóla er kveðið á um að lögð sé áhersla á að það þurfi að skoða alla þætti mismununar út frá kynjunum og út frá jafnrétti í víðum skilningi. Samkvæmt aðalnámskrám er frekar snúið að hafa fræðslu um jafnrétti kynjanna vegna þeirrar námsgreinaskiptingar sem fyrirfinnst í menntastofnunum landsins, sem er að skemma svolítið fyrir því þessi fræðsla á heima innan skólanna.

Eru unglingar í dag verr settir heldur en fyrir tæplega tíu árum? Er það skólakerfinu á Íslandi að kenna að samfélagið er ennþá svona kynjaskipt því unglingar virðast snúa því sem skiptir máli, varðandi kynjajafnrétti, upp í grín.

„Saga kynjajafnréttis á Íslandi á sér skrautlega sögu því þrátt fyrir að Ísland sé efst á lista með minnsta kynjabilið af 134 löndum víðsvegar um heiminn er margt og mikið sem þarf að breytast og sér í lagi viðhorf Íslendinga. Þörfin fyrir fræðslu og vitundarvakningu er nú mun meiri heldur en oft áður.“

Því samkvæmt niðurstöðum íslenskrar rannsóknar sem Andrea Sigrún Hjálmsdóttir, lektor í félagsfræði við HA, sýnir að íslensk ungmenni eru íhaldssamari í viðhorfum til verkaskiptingar kynjanna en jafnaldrar þeirra voru fyrir 20 árum. Það er mikið áhyggjuefni og þörf er á átaki í öllu skólakerfinu á Íslandi.

Ástæða þess að ég spyr hvort að þetta sé skólakerfinu að kenna er vegna þess að krakkarnir sem mæta í skólann sjá greinilega kynjaskiptingu í starfi. Sem dæmi þá eru konur oftar í kennslustörfum heldur en karlmenn. Því ef karlmenn eru yfir höfuð við störf í skólanum þá eru þeir yfirleitt verklegir kennarar, en sums staðar eru fáir eða engir karlkyns kennarar. Sem er mikil synd.

Fyrir 10-20 árum síðan var þetta mun jafnara heldur en í dag. Þá voru kvenna – og karlastörf aðskilin og það talaði enginn um það, en í dag eru kvenna – og karlastörf ekki eins aðskilin, það er ekki „skrítið“ að karlar séu í þessum svokölluðu kvennastörfum og öfugt. Við erum að reyna að brjótast út úr þessum skilgreiningum. En á sama tíma eru unglingar nútímans að færast aftur úr. Mín reynsla af því efni sem unglingar eru að horfa á að þá virðist reynt að koma þeim hugmyndum og ímyndum til þeirra að konan eigi að hlýða, vera til taks þegar vantar og kvenkyns ímyndin er brengluð. Þær eru minni og nettari heldur en karlmenn, en á sama tíma með risa rass og brjóst. Og karlkyns ímyndin er þannig að drengir eru stórir og sterkir, yfirleitt hetja sögunnar.

Unglingar eru með frekar rangar hugmyndir þegar það kemur að jafnrétti kynjanna þar sem þau geta nálgast alls kyns efni auðveldlega, klámsíður, síður sem eiga að vera bannaðar innan ákveðins aldur og þá er google besti vinur mannsins. Klámvæðingin hefur farið illa með unglinga og sér í lagi unglinga sem lesa og horfir á teiknimyndir/grafískar myndir sem innihalda hinn staðlaða kvenkyns – og karlkyns líkama.

En hvað væri hægt að gera til þess að sporna við þessu? Að mínu mati væri fræðsla einn sterkur leikur til þess að sporna við þessari þróun. Þá er ég að tala um fræðslu innan grunnskóla, menntaskóla, jafnvel háskóla, íþróttafélaga, frístundaheimila og félagsmiðstöðva. Fræðsla sem sýnir muninn á þessum staðlaða líkama og á venjulegum líkama. Fræðsla sem sýnir það sem er brenglað og passar ekki inn í samfélagið og líka hvernig rétt aðkoma að alls kyns efni sé. Þótt það sé aðeins fræðsla, þá þurfa börn og unglingar að fá fræðslu strax, og þá þyrfti að aðlaga fræðslu eftir skilningi og aldri barna.

Staðalímyndir er eitt hugtak sem þarf að fjalla um. Það þarf að vekja athygli á þessum staðalímyndum svo að unglingar séu ekki alltaf að reyna að troða sér í ramma sem þau halda að þau „eigi“ að passa í. Þó það séu staðalímyndir í gangi, virðast unglingar vera nokkuð meðvitaðir um hversu brenglaðar birtingarmyndir kynjanna eru oft á tíðum í auglýsingum og samfélagsmiðlarnir hafa mikil áhrif á unglingana og hvernig þeir sjá sig.

Einnig þarf að passa það að tala ekki niður til ungmenna þar sem þau virðast vera nokkuð meðvituð um misrétti kynjanna á hinum ýmsu sviðum samfélagsins. En það vantar að virkja þessa þekkingu því ungmenni virðast oft á tíðum líta á þetta vandamál sem efni í brandara og grín og draga þar af leiðandi úr alvarleika málsins. Þegar talað er um grín, þá virðast unglingar vera alveg eins og fullorðnir að því leyti að segja kynjabrandara eins og „fyrst það varð árekstur þá var þetta ábyggilega kona að keyra, þær kunna það ekki“ og „ertu að lyfta, verðuru þá ekki eins og strákur í laginu“ ásamt alls kyns athugasemdir um hitt kynið sem er alls ekki í lagi og þarf vitundarvakningu um í samfélagið.

Þetta er ekki í lagi og það þarf að jafna út stöðu kynjanna og gera það þannig að það komist jafnrétti og jafnvægi á samfélagið til að vinna gegn því.

Sóley Jóhannesdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands

 

Heimildir

Þóroddur Bjarnason og Andrea Hjálmsdóttir.  (2008). Egalitarian attitudes towards the division of household labor among adolescents in Iceland. Sex Roles, 59, 1-2.