Áður fyrr fór drjúgur tómstundatími unglinga í lestur bóka. Með tilkomu aukinnar tækni og internetsins hefur bóklestur farið mikið niður á við. Einnig hefur aðstaða til íþróttaiðkunar batnað og fleiri valmöguleikar standa unglingum til boða og allt þetta dregur úr því að unglingar finni sér afþreyingu í lestri bóka eða blaða. En allt bóklegt nám byggir á lestri og í aðalnámskrá grunnskóla (2013, bls. 97), er það sagt vera meginmarkmið læsis að gera nemendur færa um að afla sér þekkingar og geta tjáð sig í töluðu og rituðu máli. Lestur er því afar mikilvægur og nauðsynleg forsenda þess að geta aflað sér þekkingar og verið almennur þátttakandi í þjóðfélaginu. Lestur er mjög flókið ferli og liggur misvel fyrir hverjum einstaklingi að ná valdi eða færni á honum. Til að ná almennilegum tökum á lestri þarf að æfa hann vel og reglulega. Ég er því þeirrar skoðunar að ýta ætti verulega undir áhuga og efla unglinga til að eyða meiri tíma í lestur.
Skiptir stuðningur foreldra við lestur unglinga máli? Það má leiða getum að því að foreldrar og heimilin spili lykilhlutverk í lestrarþjálfun til að auka færni og efla áhuga.
Máltækið segir ,,Það læra börnin sem fyrir þeim er haft“. Þau börn sem venjast því frá unga aldri að foreldrar skapi notalega stund við lestur, taki lestur fram yfir skjánotkun og sjónvarpsáhorf eru líklegri til að gera það einnig sjálf. Gefi foreldrar sér góðan tíma til að lesa með barninu og ræði um lesefnið, eykur það líkur á að orðaforði og málvitund barnsins aukist. Til að viðhalda þessum þætti áfram á unglingsárin gætu foreldrar jafnvel lesið þær bækur sem unglingurinn les eða kynnt sér um hvað bókin fjallar þannig að samræðugrundvöllur verði áfram til staðar. Lestur fjölbreyttra bóka ýtir undir aukinn orðaforða sérstaklega ef jafnframt lestrinum verða samtöl eða umræður. Einnig er mikilvægt að velja lesefni sem er spennandi og vekur áhuga. Foreldrar gætu líka sagt unglingum sínum hvaða bækur þeir eru að lesa eða mælt með spennandi bókum (Guðrún Björg Ragnarsdóttir og Sif Stefánsdóttir, 2009, bls. 17).
Gefnar hafa verið út fjölmargar leiðbeiningar sem allar lúta að því að það sé gott og hvetjandi að foreldrar og heimilin komi að lestri og jákvæðri upplifun af honum. Á netsíðunni Lesvefurinn er talað um hugtakið fjölskyldulæsi sem notað er í víðu samhengi um þær athafnir daglegs lífs, sem fram fara á vegum fjölskyldunnar innan og utan heimilisins og tengjast læsi á margvíslegan hátt. Það getur verið auk lesturs bóka lestur leiðbeininga, uppskrifta, minnismiða og ýmiss konar skilaboða. Ritun getur einnig tengst þessu í formi skilaboða t.d. á snjalltækjum. Þær sögur sem heimilisfólk segir hvert öðru í samræðum um það sem það hefur lesið, séð eða upplifað tengist einnig fjölskyldulæsi.
Þeir unglingar sem venjast því frá fyrstu hendi að eðlilegt og sjálfsagt er að þeir verji tíma til lesturs heima með foreldrum sínum verða öruggari með sig þegar þeir koma í skólann og þurfa að sanna sig þar (Clark og Hawkins, 2010, bls. 17–22, 27). Þeir sem eiga í erfiðleikum með lestur upplifa oft margar hindranir í skólanum og umhverfinu og færast þá erfiðleikarnir yfir á fleiri námsgreinar þar sem lesturinn kemur nánast alls staðar á einhvern hátt við sögu.
Til að draga úr þessum neikvæðu áhrifum geta foreldrar gert börnunum skiljanlegt að það er í lagi að gera mistök, unglingarnir eru ekki gagnrýndir, þeir fá að lesa á sínum forsendum og þannig eflist öryggistilfinning þeirra. Foreldrar geta hjálpað unglingum sínum að setja sér raunhæf markmið og haft einhvers konar hvetjandi umbun þegar þeim er náð.
Í ljósi framangreindra þátta orkar það ekki tvímælis hjá mér, að stuðningur foreldra við lestur auki færni til lesturs, heldur þvert á móti. Að mínu mati gegna foreldrar lykilhlutverki í því að hvetja unglinga sína til lesturs og efla áhuga þeirra. Hvers konar stuðningur foreldra í hvaða tómstundastarfi sem er eykur líkur á því að unglingurinn stundi tómstundastarfið og á það einnig við um lestur.
—
Rósa Kristín Bjarnadóttir