„Mig langaði í raun að leggjast í dvala og sofna þangað til þetta væri allt búið“

ÞórunnÞórunn Þórsdóttir 22 ára nemi í félagsráðgjöf var lögð í einelti í rúmt ár á unglingsárunum sínum. Eineltið átti sér stað á netinu, í skólanum og á heimili gerandanna sem voru þáverandi þrjár bestu vinkonur hennar. Eineltið byrjaði þegar hún var 13 ára gömul. Þórunn var hlédræg og viðkvæm á þessum árum og þar af leiðandi auðvelt skotmark fyrir einelti eins og hún orðar það sjálf. ” Hún talar um að þetta sé eins og með rándýrin, þau velja auðveldustu bráðina til að ráðast á.” Vanlíðanina faldi hún í tæpt ár þar til móðir hennar áttaði sig á hvað væri í gangi. Skólinn brást ótrúlega vel við og félagsmiðstöðin bjargaði lífi hennar.

Hvenær byrjaði eineltið og hvernig lýsti það sér?

Eineltið byrjaði um fermingaaldurinn, ég var þrettán ára. Eineltið átti sér stað á netinu, í skólanum og heima hjá “vinkonum” mínum. Ég man sérstaklega eftir löngum texta sem mátti finna í nafnlausu kommenti á síðunni minni, þar stóð sem dæmi: þú ert ógeðsleg, hóra, aumingi, viðbjóðsleg manneskja. Enginn vill þig, enginn vill eiga þig sem vin, þú átt aldrei eftir að eignast kærasta. Ég væri ógeðsleg, ég ætti ekkert gott skilið, að ég væri spikfeit (þegar ég var alltof grönn), tussa, lessa og margt fleira.
Gerendurnir voru þáverandi þrjár bestu vinkonur mínar, það var ótrúlega sárt. Þetta var ekki bara einhver í skólanum, þetta voru þrjár bestu vinkonur mínar. Þær voru ótrúlega lúmskar og þar af leiðandi tók enginn eftir eineltinu. Þær létu mig trúa því að ég væri einskis verð.
Eineltið hafði mikil áhrif á mig, ég horaðist niður og oft missti ég matarlystina. Þegar ég fór heim úr skólanum sem kom oft fyrir, fór ég inn í herbergi og ég grét lengi. Ég laug alltaf til um að ég væri með mikinn hausverk. T.d. var ein virkilega leiðinleg við mig einn daginn, hún var búin að vera að atast í mér og stríða mér allann daginn í frímínútum og svo hélt hún áfram þegar við komum inn í tíma. Ég lét mig hafa það en svo gat ég ekki meir. Ég fór til kennarans og sagði að ég þyrfti að fara heim vegna þess að ég væri með svo mikinn hausverk, það var ekkert mál. Ég labbaði út og fór að skápnum mínum. Þá kom ein “vinkona” mín sem var búin að vera leiðinleg við mig allan daginn og sagði er ekki allt í lagi elsku Þórunn og knúsaði mig, hún var svo fölsk. Einu sinni hengdu þær upp mynd af mér hér og þar í skólanum þar sem ég var grátandi og á myndinni stóð “Þórunn grenjuskjóða”.
Þær létu mér líða það illa að ég sagði einu sinni við mömmu að mig langaði í raun að leggjast í dvala og sofna þangað til þetta væri allt búið, mér fannst allt svo vonlaust, eins og ekkert myndi lagast og verða betra. Ég hélt að líf mitt yrði alltaf ömurlegt og að mér myndi aldrei líða vel aftur.

Hvað viðgegst eineltið lengi?
Eineltið stóð yfir í 1 ár, eitthvað um það. Ég faldi eineltið fyrir öðrum allan þennan tíma. Þetta er stundum svona blörrað fyrir mér. Ég var rosa góð í að fela þetta og þær líka, gerendurnir. Svo kom sá dagur að móðir mín uppgötvaði eineltið og þá gat ég ekki falið það lengur.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að segja frá eineltinu?
Mamma hafði oft haft áhyggjur af því að ég yrði lögð í einelti af því ég var svo viðkvæm og átti svo erfitt með að svara fyrir mig. Ég var með mígreni á þessum tíma og ég notaði það mikið sem afsökun til að sleppa heim úr skólanum. Á tímabili fór ég allavegana þrisvar til fjóru sinnum heim úr skólanum á viku. Mamma spurði mig oft hvort að það væri ekki allt í lagi í skólanum og ég svaraði því alltaf játandi að það væri allt í lagi. Ég setti upp grímu, var alltaf hress í skólanum, hló og var brosandi þótt að ég gréti inn í mér. Mamma mín fór einn daginn á foreldrafund með litla bróður minn og fékk bækling um einelti. Hún las bæklinginn og áttaði sig þá á að það var eitthvað mikið að. Sama kvöld kom hún til mín áður en ég fór að sofa. Hún marg spurði mig hvort það væri ekki allt í lagi og hvort það væri einhver vondur við mig og að lokum brotnaði ég saman, missti mig og sagði mömmu allt. Ég marg bað hana um að segja ekki neinum frá þessu vegna þess að ég óttaðist að eineltið yrði þá enþá verra en hún tók það ekki í mál.

Hvernig var brugðist við?
Strax daginn eftir hringdi mamma í umsjónakennarann minn og sagði honum frá þessu. Þetta kom honum rosa mikið á óvart. Hann talaði við námsráðgjafann og ræddu þau hvernig best væri að taka á þessu máli. Þetta gerði mamma að mér óafvitandi. Mamma talaði einnig við skólastjórann og hann benti henni á að fara til lögreglunnar. Þetta var orðið það alvarlegt og ljótt, sérstaklega eineltið sem fram fór á netinu. Mér þótti vænt um hversu vel lögreglan tók í þetta. Þeir lögðu sig virkilega fram við að rekja IP tölurnar og komast að því hverjir stæðu á bakvið þessi nafnlausu skilaboð á heimasíðunni minni.

Í skólanum voru 10. bekkingar sem fylgdust með í frímínútum á vegum skólans. Skólastjórnendur töluðu við þá nemendur og gangaverðina og hvöttu þau til að fylgjast extra vel með mér og gerendunum í frímínútum. Það tók þau hálfan mánuð að sjá eineltið þrátt fyrir að það ætti sér stað á hverjum degi. Námsráðgjafinn hafði líka samband við þá sem sáu um unglingavinnuna og það var passsað uppá að ég lenti ekki með þessum “vinkonum” mínum í hóp og eins sá skólinn um að ég var ekki með þeim í bekk þegar ég byrjaði í 9. bekk.

Hvernig greip félagsmiðstöðin inn í?

Námsráðgjafinn talaði við félagsmiðstöðina og lét þau vita af mér og upplýsti þau um það einelti sem hafði átt sér stað.  Námsráðgjafinn talaði einnig við mömmu um að það væri tilvalið fyrir mig að sækjast eftir að fá að taka þátt í félagsmiðstöðvastarfinu í  9. bekk. Um haustið fór ég því að sækja félagsmiðstöðina ásamt einni vinkonu minni sem hafði ekki tekið þátt í eineltinu. Það var rosa mikil aðsókn í félagsmiðstöðina og ég varð ótrúlega ánægð og stolt þegar ég fékk að vera með í nefnd.
Ég kveið oft gífurlega fyrir því að fara í frímínútur og hádegishlé þegar ég var í 8. bekk en eftir að ég fór að taka virkan þátt í félagsmiðstöðinni fór ég alltaf þangað í frímínútum og oft í hádegishléunum og hitti krakkana þar. Mér fannst frábært að félagsmiðstöðin var alltaf opin og maður var alltaf velkominn, maður gat komið þangað hvenær sem var, það voru alltaf einhverjir þarna.
Ég var alltaf pínu smeyk við þessa konu sem var yfir félagsmiðstöðinni. Hún var alltaf svo ákveðin við mig og ég svo viðkvæm. Eftirá að hyggja var hún náttúrulega bara að stappa í mig stálinu og láta mig vera sterka og sjálfstæða. Í félagsmiðstöðinni var ég látin hringja og bóka skemmtikrafta, ég var kynnir á einni skemmtun. Ég var alltaf hvött áfram. Það hjálpaði mér alveg rosalega mikið. Í félagsmiðstöðinni fékk maður líka að heyra: þú ert frábær og stendur þig vel. Þarna fór ég líka að kynnast fleiri krökkum. Þar kynntist ég einni stelpu mjög vel og varð þar af leiðandi hluti að tíu manna vinkonuhópi og við erum allar góðar vinkonur í dag.

Ég vissi það ekki fyrr en eftir að ég útskrifaðist að ég hafði verið hvött til að fara í félagsmiðstöðina útaf eineltinu og að félagsmiðstöðin vissi af eineltinu.
Skólinn og félagsmiðstöðin tóku svo ótrúlega vel á þessu. Ég væri klárlega ekki sú mannsekja sem ég er í dag hefði ég ekki farið að sækja félagsmiðstöðina.  Þar lærði ég að vera opin og ákveðin. Ég get bara sagt það að félagsmiðstöðin bjargaði lífi mínu, það er bara þannig.

Hefur eineltið haft mikil áhrif á þig?
Ég hef rosa mikið blokkað út fá þessum tíma þegar eineltið átti sér stað.  Ég er enþá að vinna úr þessari lífsreynslu en með yndislegri fjölskyldu sem stóð við bak mitt eins og klettur og með mikilli hjálp komst ég í gegnum þetta. Einnig verð ég að nefna hvað ég er feginn að móðir mín lét vita af þessu því ef hún hefði ekki gert það veit ég ekki hvar ég væri í dag. Ég fæ stundum hnút í maga
nn og verð reið þegar ég hugsa um þetta og þá vonsku sem var til í þeim, þessum þremur sem voru bestu vinkonur mína. Fyrst tókst þeim að brjóta mig niður, en síðan ákvað ég að gera þeim það ekki til geðs. Ég komst í gegnum eineltið og það sýnir sig og hefur sannað að með því að hafa trú á sjálfan sig getur maður allt. Ég fékk mér tattoo seinasta sumar til þess að minna mig á að ég er sterk og komst í gegnum þessa lífreynslu. Ef ég verð leið eða mér líður illa horfi ég á tattoo-ið og minni sjálfa mig á að fyrst ég komst í gegnum þetta kemst ég í gegnum allt. Tattoo-ið er orðið Styrkur. Ég er ótrúlega opin í dag og á félagsmiðstöðin stóran þátt í því. Í dag er ég hamingjusöm, jákvæð, ákveðin og sterk og leyfi engum að komast upp með að gera lítið úr mér eða tala niður til mín. Ég á yndislegann kærasta, yndislega fjölskyldu og frábæra vini bæði í Garðabæ og HÍ. Aldrei í lífinu bjóst ég við að eiga þetta allt saman.

Skipulagt tómstundastarf gegn brottfalli úr framhaldsskólum

Ég rakst á þetta skemmtilega myndband um daginn og ég hvet ykkur í raun til að skoða myndbandið hér að neðan áður en þið lesið lengra.

Ég tengi sjálfur svo ótrúlega sterkt við þetta myndband og gæti það allt eins verið útbúið eftir minni leið í gegnum skólakerfið. Í grunnskóla var ég alltaf „til vandræða”, ég hafði engan áhuga á náminu og kennurum og starfsfólki skólans tókst engan veginn að kynda undir áhuga mínum á námsefninu. Þegar ég byrjaði í menntaskóla var ég nú lítið upp á kant við kennarana en ég píndi mig í gegnum tímana því innri áhuginn var enginn. Ég prófaði nokkra skóla, nokkrar námsbrautir en allt kom fyrir ekki og var ég farinn að halda að mér mundi aldrei takast að ljúka við nokkurt nám.

Það var svo fyrir tilviljun að ég byrjaði að starfa í félagsmiðstöðinni Selinu á Seltjarnarnesi í metnaðarfullu æskulýðsstarfi að ég fann eitthvað sem kveikti innri áhuga hjá mér. Mig langaði til að verða besti starfsmaður í félagsmiðstöð sem ég gæti orðið og fór ég að fylgjast með öllu sem reyndara starfsfólkið gerði. Ég fór að stúdera mannleg samskipti út í hið óendanlega og lesa bækur um æskulýðsstarf. Þetta varð til þess að ég sótti um í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands og lýk ég námi mínu þar núna 22. júní með fyrstu einkunn.

Ég veit ekki hversu oft ég hef sagt þessa sögu enda tengja svo margir við hana. Það er nefnilega alveg magnað hvað menningin hér á landi er sú að allir eiga að keyra í gegnum skólakerfið án þess að vita hvert þeir stefna. Klára bóklegt nám fyrst og finna svo útúr því hvað maður vill gera við líf sitt. Þrátt fyrir að kennarar og þeir sem standa að skólakerfinu viti að kerfið er að mörgu leiti úrelt þá virðist samt sem lítið breytist. Þessi vanhæfni skólanna til að mæta þörfum nemenda sinna hefur orðið til þess að aðeins 45% nemenda í framhaldsskóla ljúka stúdentsprófi á 4 árum (Hagstofa Íslands, 2011).

Munurinn á „lélegum” nemendum og „góðum” er oftar en ekki skortur á innri hvatningu.Hér kemur skipulagt tómstundastarf sterkt inn. Ég er ekki að halda því fram að allir sem hætta í framhaldsskóla eiga að byrja að vinna í félagsmiðstöðvum (þó það væri nú ekki svo vitlaust). Það sem við þurfum hins vegar að gera er að mæta aldurshópnum 16-20 ára með skipulögðu tómstundastarfi og með stað í samfélaginu þar sem þau eru velkomin, geta prófað sig áfram og fundið sinn innri hvata. Ungmennahús eru frábær dæmi um skipulagt tómstundastarf fyrir aldurshópinn 16 ára og eldri. Í vel starfandi ungmennahúsi hafa ungmenni samkomustað, tækifæri til að taka þátt í spennandi verkefnum og að læra nýja hluti. Þau geta sjálf haft frumkvæði af verkefnum og valið þau út frá eigin áhugasviði. Það er einmitt við slíkar aðstæður þar sem einstaklingurinn fær að sýna sjálfstæði, tilheyra hópi og auka hæfni sína að innri hvati kviknar (Reeve, 2009). Ungmennið sem sá um bókhaldið á styrktartónleikunum finnur tilganginn með stærðfræðinni á meðan tæknimaðurinn fer í rafvirkjann, ungmennið sem tók þátt í norræna ungmennaskiptaverkefninu velur sér aukaáfangann í dönsku því hann veit hvað erlend tungumál eru mikilvæg og ungmennið sem gerðist sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum sperrir eyrun í félagsfræðinni og sálfræðinni með þá von að geta einn daginn hjálpað bágt stöddum einstaklingum í framtíðinni.

 

Heimildir:

Hagstofa Íslands. (2011, 3. maí). Brautskráningarhlutfall og brottfall á framhaldsskólastigi. Sótt 9. júní 2013 af http://www.hagstofa.is/?PageID=95&NewsID=5981.

Reeve, J. (2009). Understanding motivation and emotion. Hoboken, NJ: John Wiley & Sons.

Félagsmálafræðikennsla í grunnskólum

félagsmálafræðiÍ þessari grein ætla ég að fjalla um valáfanga í félagsmálafræði sem ég kenni í Grunnskóla Seltjarnarness fyrir 8., 9. og 10. bekk. Það ber að nefna að við vorum ekki þau fyrstu sem byrjuðu með félagsmálafræðikennslu en hún er kennd víða með mismunandi sniði. Markmiðið með greininni er aðeins að fjalla um hvernig við byggjum upp áfangann hérna úti á Seltjarnarnesi.  

Umgjörð:

Í Grunnskóla Seltjarnarness eru 167 nemendur í 8., 9. og 10. bekk og er félagsmálafræðin valáfangi sem allir þessir nemendur geta valið. Síðastliðin ár hafa 45-60 nemendur valið félagsmálafræðina og er hún því kennd í tveimur hópum. Einn hópur er fyrir 10. bekk og annar hópur fyrir 8. og 9. bekk. Kennslufyrirkomulagið eru tvær samliggjandi kennslustundir á viku á hvorn hóp. Áfanginn er kenndur af starfsmanni félagsmiðstöðvarinnar Selið á Seltjarnarnesi en hún sér um allt félagslíf skólans í góðu samstarfi við skólastjórnendur.

Markmið og hlutverk:

Markmið með félagsmálafræðikennslu er m.a. að efla félagslegan þroska nemenda, styrkja þá á félagslegum vettvangi og þar með að styrkja sjálfsmynd og viðhorf þeirra til sín og annarra. Félagsmál eru mikilvægur þáttur í mótun unglinga og heilbrigð félagsleg virkni hefur einungis jákvæð áhrif á líf unglinga. Í félagsmálafræðitímum er farið yfir þætti er tengjast ýmiss konar félagsmálum. Kennd er m.a. framsögn, framkoma og tjáning, fundarsköp og skipulagning á viðburðum og uppákomum. Lögð er áhersla á að nemendur geti þroskað og styrkt sjálfsmynd sína en einnig að þeir læri samvinnu, hópavinnu og að bera virðingu fyrir öðrum. Einnig er farið í þætti eins og ábyrgð, siðferði og gagnrýna hugsun.

Félagsmálafræðin, í samstarfi við nemendaráð skólans, sér um framkvæmd og skipulag á öllu félagslífi skólans og félagsmiðstöðvarinnar. Kennslan fer því mikið fram í formi verklegra æfinga við að skipuleggja félagslífið. Markmiðið er því að virkja sem flesta til að taka þátt og hafa áhrif á félagslífið. Félagsmálafræðin skipuleggur og heldur utan um kosningar í nemendaráð skólans og er mælt með því að meðlimir nemendaráðs séu nemendur félagsmálafræðinnar.

Hlutverk nemendaráðs:

Nemendaráðið er skipað af átta fulltrúm úr 8., 9. og 10. bekk og eru þau kosin í lýðræðislegri kosningu á haustin. Hver árgangur á að lágmarki tvo fulltrúa í nemendaráði. Nemendaráðið starfar í nánu samstarfi við starfsmenn Selsins. Hlutverk þess er að vera fyrirmyndir samnemenda sinna og í forsvari fyrir nemendur á skólaráðsfundum og öðrum fundum sem óskað er eftir að nemendur sæki. Nemendaráðið ber einnig ábyrgð á fjármunum nemendafélagsins og á ákveðnum viðburðum en þó alltaf í samstarfi við félagsmálafræðina.

Kennslufyrirkomulag:

Kennslufyrirkomulag félagsmálafræðinnar skiptist í tvo hluta. Annars vegar er tvöföld kennslustund einu sinni í viku sem fer fram í skólanum. Þar er ég með innlegg, æfingar og verkefni ásamt því að nemendur skipuleggja og skipta með sér verkum við framkvæmd á viðburðum. Hinn hlutinn fer svo fram í félagsmiðstöðinni þar sem nemendurnir framkvæma þá viðburði og þau verkefni sem skipulögð voru í skólanum.

Námsefni:

Námsefnið sem notast er við í kennslunni kemur héðan og þaðan og er mikið af því unnið úr kennslubókum sem kenndar eru í tómstunda- og félagsmálafræði í HÍ. Það námsefni hef ég svo einfaldað og sett upp svo það eigi við 13-15 ára unglinga.

Kompás – Handbók um mannréttindafræðslu fyrir ungt fólk er mjög góð bók til að styðjast við í kennslunni. Í Kompás eru góð verkefni í mannréttindafræðslu sem ég hef notast við ásamt því að ég hef tekið aðferðirnar sem kenndar eru í Kompás og breytt umræðuefninu. Aðferðirnar sem kenndar eru við kennslu á Kompás eru mjög líflegar og skemmtilegar og hægt að heimfæra þær á hin ýmsu umræðuefni. Dæmi um umræðuefni sem ég hef notast við til að fjalla um er kynfræðsla, sjálfsmynd, reglur um klæðaburð á Samfestingnum og svo mætti lengi telja.

Dýnamík – Handbók um hópefli og hópeflisleiki fyrir starfsfólk í æskulýðsstarfi er bók sem ég notast mikið við. Í bókinni eru kenndir hinir ýmsu leikir sem þjóna margvíslegum markmiðum. Félagsmálafræðin er kennd seinnipart dags og þá getur góður leikur gjörbreytt stemningunni í hópnum.

Verum virk – Félagsstörf, fundir og framkoma er ný bók sem kom út árið 2012. Í henni er fjallað um félagsmál, lýðræði, samskipti, sjálfsmynd og sjálfsvirðingu, tjáningu og framsögn, fundarsköp, nefndarstörf, rökræður og málamiðlanir. Í þessari bók enda allir kaflar á æfingum sem eiga vel heima í félagsmálafræðikennslu.

Verkefni og æfingar:

Líkt og áður hefur komið fram er stór hluti verklegra æfinga í formi þess að skipuleggja og framkvæma raunveruleg verkefni og sjá um félagslífið fyrir allan skólann. Einnig eru þó ýmsar verklegar æfingar framkvæmdar í tímum og má þar nefna sem dæmi:

  • Æfingar í tjáningu til að styrkja nemendur í að tala fyrir framan fólk.
  • Ræðuflutningur og rökræðukeppnir um hin ýmsu málefni.
  • Kosningar þar sem nemendur eru í framboði fyrir sveitarstjórnarkosningar í bæjarfélaginu. Nemendur eiga að útbúa stefnuskrá, sjónvarpsauglýsingu (sem er leikin í tímanum) og flytja framboðsræður. Að lokum er svo kosið.
  • Æfingar í markmiðssetningu.
  • Umræðuþing um skólamál, hvað sé gott og hvað mætti betur fara í skólanum.
  • Viðburðarstjórnunarverkefni þar sem minni hópar taka að sér skipulag og framkvæmd á minni viðburðum frá A-Ö.

Námsmat:

Námsmatið í félagsmálafræðinni fer alfarið í gegnum Félagströllið (www.felagstrollid.is). Í stuttu máli er Félagströllið leikur þar sem allt það sem nemendurnir taka sér fyrir hendur er metið til stiga, hvort sem þau mæta í félagsmálafræðina, í  félagsmiðstöðina eða á viðburði. Einnig fá nemendur sérstaklega stig ef þeir sækja klúbba eða ef þeir taka þátt í framkvæmd á viðburðum. Félagströllið sér svo um að meta mismunandi verknað til stiga. Sem dæmi má nefna að það að mæta í félagsmiðstöðina gefur 5 stig en það að skipuleggja viðburð gefur 20 stig. 15 stig fá þau fyrir að mæta á viðburðinn og 10 stig fyrir hverja sjoppu eða miðasöluvakt sem nemandinn tekur sér fyrir hendur.  Þannig metur Félagströllið ekki bara mætingu einstaklinga í félagsstarfið heldur einnig virkni þeirra. Fyrir þá sem vilja kynna sér Félagströllið frekar má lesa um það hér.

Að lokum:

Félagsmálafræðin er frábær leið til að fá sem flesta til að taka virkan þátt í skipulagi og framkvæmd á viðburðum og verkefnum á vegum félagsmiðstöðvarinnar. Það að fá sem flesta að borðinu verður svo til þess að krakkarnir upplifa félagslífið alfarið sem sýna eign og sinna því þeim mun betur. Það skemmtilegasta við félagsmálafræðina er þó að sjá þann mun sem verður á félagslegum þroska einstaklinga frá því að þeir byrja í áfanganum og þegar skólaárinu lýkur.

Neyddur til skólagögnu

Grein sem birtist í Krítinni, http://www.kritin.is.

Skólasamfélagið er að mörgu leiti mjög merkilegur staður. Í skólasamfélaginu ertu metinn að verðleikum en þó ekkert endilega þeim sem þú setur sjálfur á oddinn. Í skólasamfélaginu er þeim einstaklingum sem uppfylla kröfur kerfisins og kennaranna hampað á meðan aðrir eiga að taka sér þá til fyrirmyndar. Afreksnemendum eru afhent verðlaun í lok hvers skólaárs ef þeir ná hæstu einkunn í skólanum á meðan hinir nemendurnir eiga að klappa þeim lof í lófa.

Á Íslandi er 10 ára skólaskylda, í skólanum er nemendinnur sífellt metinnir og gagnrýndurir af kennurum. Margir þessara nemenda eru í skólanum af illri nauðsyn. Skólinn er því ekkert endilega sá staður sem þeir vilja eyða tíma sínum í né er sú menntun sem þar er boðið upp á sú færni sem þeir vilja öðlast.

Þegar ég var í gagnfræðiskóla þá var skólinn síðasti staðurinn í veröldinni sem mig langaði að vera á. Áhugamál mín þá voru íþróttir og tölvuleikir og við þá iðju leið mér mjög vel. Þar var ég að læra nýja hluti, rækta hæfileika mína, ég tilheyrði hópi, tileinkaði mér ákveðin gildi og hafði skýr markmið. En á hverjum degi þurfti ég að fara snemma að sofa til að vakna eldsnemma og fara á stað sem náði engan veginn til mín og á hverjum degi dundi á mér áreiti frá kennurum, skólastjórum og svo foreldrum um að ég þyrfti að standa mig betur því að ég væri ekki að uppfylla kröfur skólasamfélagsins.

Kennararnir skildu ekki afhverju ég hlýddi ekki fyrirmælum, skólastjórnendur fussuðu og sveiuðu yfir mér við mömmu mína og pabba sem skömmuðu mig svo líka þegar ég kom heim og allir þessir neikvæðu hlutir tengdust skólanum.

Þetta var minn raunveruleiki.

Í dag starfa ég í félagsmiðstöð og kenni félagsmálafræði í sama grunnskóla og ég var í sem unglingur. Þar starfar enn stór hópur kennara sem var einnig starfandi í skólanum þegar ég var nemandi. Þau hafa reglulega orð á því hvað það rættist vel úr mér og hvað ég hef þroskast mikið.

Að mínu mati er það þó ekki þroskinn sem að breytti mér heldur markmið mín. Ég var alveg jafn útsjónasamur, hugmyndaríkur, úrræðagóður og duglegur þegar ég var 15 ára og ég er nú. Ég hafði bara engan áhuga á því að beita þeim hæfileikum í skólanum. Það var ekki fyrr en ég hafði verið á vinnumarkaðnum og fundið það starf sem mig langaði að starfa við að ég fann raunverulegan hvata til þess að skrá mig í nám. Ég skráði mig í Tómstunda- og félagsmálafræði í Háskóla Íslands og þar er ég viss um að kennararnir hafa aðra sögu um mig að segja en grunnskólakennararnir mínir.

En þarf þetta virkilega að vera svona? Er það bara eðlilegt að sumir nemendur rúlla í gegnum kerfið og finna sig aldrei í grunnskólanum? Því trúi ég allavega ekki og tel eitt mikilvægasta hlutverk kennara vera að mæta nemendum þar sem þeir eru staddir og finna styrkleika þeirra. Útfrá þessum styrkleikum er hægt að finna hlutverk fyrir nemandann og kennarinn og nemandinn geta sett sér markmið sem báðir aðilar eru sáttir við. Það versta sem kennarar geta gert er að afskrifa nemendur sem erfiða nemendur og standa í stanslausu stappi við þá. Þá festist nemandinn í því hlutverki og markmið hans byrjar að snúast um það að finna höggstað á kennaranum.

Ég biðla því til allra kennara að hafa þetta bakvið eyrað næst þegar þið skiljið hreinlega ekki afhverju nemandi ykkar er svona erfiður. Leitið uppi mismunandi styrkleika nemenda ykkar í stað þess að einblína á þröngt svið styrkleika og líta á allt annað sem truflun. Allir nemendur ykkar eru manneskjur og öllum manneskjum líður best þegar þær takast á við krefjandi verkefni sem falla undir áhugasvið þeirra. Allar manneskjur koðna niður ef þær upplifa sig á röngum stað, undir stanslausu áreiti og úrræðalaus gagnvart eigin aðstæðum. Það er ykkar hlutverk að vekja áhuga nemandans út frá þörfum hans og hjálpa honum að finna gleðina í skólanum.