Pýramídi væntinganna

Þegar strákar gera það sem er ætlast til af þeim þá fagnar fólk þeim og hrósar. Þegar stelpur gera það sem ætlast er til af þeim eru engin viðbrögð. Það er einfaldlega vegna þess að þær fara oftast eftir fyrirmælum og gera það sem á að gera. „Strákagaurar“ fá mesta „praisið“, vegna þess að það er búist við minnstu frá þeim. Ef að við myndum búa til pýramída þessu tengdu þá yrðu stelpur efstar, þar sem ætlast er til mikils af þeim, strákar sem teljast vera „lúðar” eða „nördar” yrðu næst efst, vegna þess að þeir eru oftast klárir og góðir.„Venjulegir” strákar yrðu þar á eftir og „gaura” strákar væru neðst í pýramídanum. Það er vegna þess að við búumst ekki við því að „gaura” strákar séu kurteisir, góðir með börnum, klárir, hlýir eða sýni samkennd. Í staðinn er gert ráð fyrir að þeir séu truflandi, aggresívir, tillitslausir og áhugalausir. Þegar þeir sýna aðra hegðun er þeim fagnað og hrósað í hástert. Frá stelpum býst maður við samkennd, hjartahlýju, áhuga og hlustun. Þegar þær sýna á aðra hegðun, eins og reiði eða tillitsleysi, er sú hegðun fordæmd.

Sjálf vinn ég í grunnskóla með 6 ára börnum þar sem ég stend sjálfa mig oft að því að hugsa á þennan hátt. Þegar fótboltastrákarnir í bekknum eru truflandi, að skemma, beita ofbeldi eða vera dónalegir í kennslustofunni þá er það hversdagslegt og bara eitt af því sem ég þarf að díla við á mínum vinnudegi. Ég tók eftir því í vikunni að þegar stelpa í bekknum var truflandi þá varð ég hissa og síðar, þegar hún var dónaleg við mig, var ég fljót að bregðast við, bað hana um að hætta og var í rauninni hálf móðguð. Í stuðningsfulltrúa hópnum í skólanum er einn fótboltastrákur og eitt svokallað goon (gaur). Svo eru D&D nördar og restin eru stelpur. Það er skýrt að yfirmenn okkar halda mikið upp á þá stráka sem fyrst voru nefndir, þeir fá hrós fyrir að gera það sem er lágmarks krafa í starfinu okkar á meðan framlag okkar stelpnanna er sjálfsagt. Þannig er framlag þeirra upphafið, það sem þeir gera hefur meira vægi en en við hin. Það er vegna þess að við búumst ekki við því að þeir séu góðir með börnum, sýni samkennd eða áhuga á starfinu.

Svona gengur það, strákarnir halda áfram að koma okkur á óvart. Strákar eru duglegir þegar þeir beita ekki ofbeldi í grunnskóla, þeir eru duglegir þegar þeir fara í háskóla, þegar þeir vinna með börnum og seinna meir eru þeir duglegir þegar þeir „passa” sín eigin börn. Á meðan erum við hissa þegar stelpur slá til baka í grunnskóla, þegar þær vinna ekki með börnum, eiga ekki börn, segja sína skoðun, eru sterkar og brosa ekki allan liðlangan daginn. Er þetta það sem við viljum rækta í fólki? Að væntingar okkar séu í rauninni svona ólíkar til kynjanna? Að mínu mati eru þessar væntingar okkar ekki meðvitaðar heldur ómeðvitaðar.

Þess vegna er nauðsynlegt að hvert og eitt okkar spyrji sjálft sig hvort væntingar sínar séu ólíkar til kynjanna og ef svo, hvernig sé hægt að breyta því?

— 

Ugla Helgadóttir, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði