Unglingsárunum má líkja við víðáttumikinn sjó, sem er bæði stormasamur, kröftugur og hyldjúpur. En einnig friðsæll, lífríkur og fagur. Öll höfum við siglt þennan sjó, ferðast til ókannaðra landa þar sem við getum mótað sjálfsmynd okkar, rannsakað hver gildin okkar eru og fengið frelsi til að kanna ólíkar hliðar okkar. Það er því mikilvægt að við hindrum ekki unglinga frá því að ganga í gegnum þetta ferðalag, heldur veitum þeim stuðning. Þetta eru mikilvæg og mótandi ár og með því að veita þeim svigrúm til að kanna sjálfsmynd sína, gerum við þeim kleift að uppgötva sína styrkleika, ástríður og sjálfsvitund. Burt séð frá hömlum samfélagsins og fyrirfram mótaðra hugmynda.
Samfélagið þarf að hafa meiri trú á unglingum, þau eru færari en oft er haldið. Við þurfum að viðurkenna hvað þau hafa mikið upp á að bjóða og þeirra mikilvæga hlutverk í okkar samfélagi. Þó að þau þurfi skýr mörk, þá er mikilvægt að við sýnum þeim virðingu sem hópur og einnig sem einstaklingar. En rétt eins og hafið getur verið bæði fallegt og ógnvekjandi, fylgja miklar áskoranir leiðangri unglingsáranna. Ólagsöldur, stakar, stórar og óvæntar sem foreldrar óttast að börnin sín lendi í og drukkni. Unglingar geta farið í brimmikinn sjó þegar þau takast á við óraunhæfar kröfur frá samfélaginu, hópþrýsting frá jafnöldrum og innri baráttu. En með stuðningi og seiglu geta þau stigið þurrum fótum í land. Líkt og sjómenn sem sigla um stormsaman sjó, geta þau breytt stefnunni. Samt sem áður, í ákafa okkar við að leiðbeina þeim og vernda, gleymum við oft að þetta er þeirra ferðalag. Við þröngvum oft eigin vonum og ótta upp á þau, við setjum þau í björgunarbátinn og siglum heim.
En rauði þráðurinn í þessu öllu er þeirra frelsisþrá. Að fá að feta sig sjálf áfram, að það sé borin virðing fyrir þeim. Þau eru klædd í björgunarvesti barnæskunnar, nú taka þau við sem stýrimenn og undirbúa sig fyrir hlutverkið að vera einn daginn skipstjóri yfir sínu lífi. Við skulum því standa sem sterkt stuðningsnet og muna að það krefst þolinmæði, virðingar, trausts og skilnings til að skapa góðan grundvöll þar sem unglingar geta þroskast og dafnað. Með því að gefa þeim þetta frelsi til að móta eigin sjálfsmynd erum við að færa þeim áhrifamikla gjöf.
Gjöf sjálfsuppgötvunar.
—
Elísa Sirrý Elíasdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði