Netnotkun og snjallsímanotkun ungmenna er málefni sem alltaf er mikilvægt að ræða um, bæði góðu hliðarnar og slæmu hliðarnar. Þau eru ekki mörg ungmennin hér á landi sem eiga ekki snjallsíma eða snjalltæki og alltaf eru þau að verða yngri og yngri þegar þau eignast þessi tæki. Eins og ég nefni hér að ofan eru bæði slæmar og góðar hliðar á netnotkun. Annarsvegar gerir netið þér kleift að hafa stöðug samskipti við vini og ættingja sem búa til dæmis út á landi eða erlendis sem er góður ávinningur, hinsvegar getur netið stuðlað að neteinelti því netið er auðveldur vettvangur fyrir ungmenni að koma fram nafnlaust. Það eru til margar síður í dag fyrir unglinga sem snúast um það að fá spurningar og spyrja aðra að öllu á milli himins og jarðar og allt þetta er hægt að gera nafnalaust. Mörg ungmenni hafa fengið á sig skítkast inni á þessum síðum og þá spyr maður sig afhverju eru þau þá þar? Svarið við því er einfalt, þau eru alltaf að bíða eftir þessu jákvæða, að einhver einn segir eitthvað jákvætt. Þegar þau fá jákvæðar spurningar eða staðreyndir þá eru þau að fá samþykki inn í unglingasamfélagið og það er eitthvað sem flestir unglingar eru að sækjast eftir, að vera samþykkur. Hægt væri að koma í veg fyrir þetta ef foreldrar og forráðamenn væru að skipta sér meira af netnotkun barna sinna. Einnig væri hægt að koma í veg fyrir þetta með fræðslu fyrir unglinga og foreldra þeirra.
Netnotkun og snjallsímanotkun ungmenna er á ábyrgð samfélagsins, foreldra og forráðamanna. Í rannsókn sem gerð var á Íslandi árin 2011-2012 um netnotkun ungmenna kemur fram að þau ungmenni sem hafa gott bakland og eiga foreldra sem gefa sér tíma í að skipta sér af netnotkun barna sinna eyða minna tíma á netinu. Samkvæmt rannsókninni eru nokkur börn og ungmenni sem eru haldin netfíkn og öll eiga þau það sameiginlegt að foreldrar eða forráðamenn þeirra eru ekki afskiptasöm um netnotkun þeirra. Sum þeirra sem tóku þátt í rannsókninni sögðu að foreldrar þeirra vissu ekki hvað þau væru að gera á netinu sem er einmitt ástæða þess að unglingar leyfa sér að segja ljóta hluti við aðra á netinu. Ég tel að skólinn beri einnig ábyrgð á snjallsímanotkun nemenda sinna. Skólinn getur komið í veg fyrir einelti sem á rætur sínar að rekja til snjallsíma með því að banna snjallsímanotkun í skólanum og auka fræðslu fyrir nemendur sína.
Samfélagið í dag er mjög tæknivætt og erfitt er að koma í veg allt það slæma sem gerist á netinu en samfélagið getur gert margt til þess að minnka netnotkun unglinga og þar að leiðandi minnka neteinelti. Allir verða að taka virkan þátt í því að minnka netnotkun ungmenna – skólinn, foreldrar og samfélagið í heild sinni. Það þarf að vinna markvisst að hlutunum með markmiðssetningu því netið er og mun alltaf vera stór þáttur í samfélaginu.
—
Sigrún Ása Ásgrímsdóttir, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði