Mikilvægi innri áhugahvatar í tómstundum

Ég man eftir því að hafa verið ung stelpa sem elskaði mest af öllu að dansa. Ég æfði dans á fullu og hafði rosalega sterka innri áhugahvöt fyrir því, það veitti mér ánægju, gleði og vellíðan að fara á dansæfingu. Ég var full orku og lífsgleði eftir hvern tíma og dansaði í hvert skipti sem tækifæri gafst. Þegar kom að því að fara í menntaskóla valdi ég mér það að fara á Listdansbraut og reyna mitt besta að komast inn á nútímadansbraut í Listdansskóla Íslands. Ég sem hafði aldrei lært stakt ballet spor á æfinni var þá allt í einu komin inn í einn flottasta dansskóla landsins á sínum tíma. Aldrei hafði mig grunað að ég myndi missa áhugann fyrir dansinum á einhverjum tímapunkti.

Þegar leið á skólaárið þá leið mér öðruvísi. Það var allt í einu erfitt að mæta á æfingar, ég var þreytt í líkama og sál. Pressan að ná árangri var það mikil að ég hafði misst innri áhugahvötina sem var svo sterk í byrjun ársins. Ég hafði minni metnað á æfingum og stóð mig því ekki eins vel, ég var mjög dugleg að skrópa í þeim tímum sem ég komst upp með og endaði á að hætta eftir aðeins tvö ár. Ég meiddist á hné, en á þeim tíma var mér létt. Ég var ánægð að hafa afsökun til þess að hætta.

Í dag er ég mjög sorgmædd yfir þessum tíma sem ég missti úr. Ég vildi óska þess að ég hefði ekki meiðst og getað haldið áfram að dansa, enda er innri áhugahvötin mín komin til baka og líklega enn sterkari í dag en hún var þegar ég var unglingur. Ég velti fyrir mér út frá eigin reynslu hvort við setjum of mikla áherslu á að unglingar nái árangri í tómstundum sínum. Hefur þessi pressa sem er sett á unglinga jákvæð áhrif á árangur eða neikvæð? Í mínu tilfelli hafði það mjög neikvæð áhrif og ég missti dýrmætan tíma sem ég hefði annars notað í að bæta sjálfa mig sem dansara. Krakkar í dag ‏finna sig oft í ‏‏‏þeim aðstæðum að þurfa að hætta í tómstundum sínum vegna þess að æfingarnar eru orðnar alltof margar og það hentar illa með skóla og öðrum verkefnum.

Unglingsárin eru mjög viðkvæm og það er auðvelt að hafa áhrif á unglinga. Tómstundastarf hefur sérstaklega sterk áhrif, þegar við erum unglingar þá er það oft tómstundirnar okkar sem skipta okkur hvað mestu máli. Þegar við setjum of mikinn þrýsting á börn og unglinga til að ná árangri í tómstundum sínum, þá eigum við á hættu að innri áhugahvötin dofni. Innri áhugahvötin er einmitt það sem skiptir mestu máli þegar við ætlum að ná árangri í einhverju viðfangsefni. Þegar innri áhugahvötin er jafn sterk og hún var hjá mér þegar ég var ung í dansinum, þá er líklegra að við náum árangri. Það kemur hins vegar frekar í veg fyrir árangur að leggja of miklar væntingar á unglinga. Það er nauðsynlegt að leyfa unglingum að hafa gaman í tómstundum sínum og að við áttum okkur á mikilvægi þess.

Alexandra Mekkín Pálsdóttir