Lengi hefur tíðkast í tómstundastarfi með börnum og unglingum að styðjast við kynjaskiptingu þegar kemur að hópstarfi. Þessi skipting einkennist oft af gömlum hugmyndum um hlutverk kynjanna og gerir hún í flestum tilfellum aðeins ráð fyrir tveimur kynjum. Með það í huga er mikilvægt að skoða hver raunveruleg markmið eru í kynjaskiptingu í hópstarfi og hvaða áhrif tómstundastarf hefur á staðalímyndir samfélagsins.
Öll höfum við ákveðna hugmynd um hvernig við eigum að haga okkur og líta út. Við erum föst í að setja fólk í flokka og box eftir hentisemi samfélagsins. En hvað ef að einhver passar ekki í þessi box sem að samfélagið gefur okkur? Í gegnum árin hefur orðið mikil vitundarvakning hvað varðar kynjatvíhyggju en tvíhyggja er hugtak sem er notað yfir birtingarmynd á orðræðu og staðalmyndum í samfélaginu. Tvíhyggja gerir aðeins grein fyrir tveimur kynjum, karlkyni og kvenkyni, og gerir því ekki ráð fyrir því að hægt sé að upplifa sig utan þessara kynja eða að það séu önnur kyn yfir höfuð. Tvíhyggja sýnir ekki aðeins fram á líffræðilegan mismun heldur ýtir hún undir hugmyndir um karlmennsku og kvenleika (Whitehead, 2002). Þegar talað er um karlmennsku og kvenleika er átt við meðvitaðar og ómeðvitaðar hugmyndum um þau kyn (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2004).
Við búum enn þá við félagslegan veruleika sem viðheldur staðalmyndum og því skiptir máli að bregðast við því. Það gæti því verið varasamt að skipta kynjum upp aðeins eftir áhugamálum, en það getur ýtt undir kynjatvíhyggju. Sem dæmi um óþarfa kynjaskiptingu eftir áhugamálum eru stelpukvöld sem mörgum er kunnugt um. En enn í dag tíðkast að halda slík kvöld í félagsmiðstöðum þar sem að förðun, hár og tíska ræður ríkjum. Ef að þetta er skoðað út frá hugmyndum tvíhyggju er greinilegt að þetta sendir skýr skilaboð til ungmenna um hlutverk kynjanna. Að stelpur eiga að hafa áhuga á förðun, hári og tísku.
Kynjaskipting er ekki alfarið slæm en hugmyndafræði bell hooks* um öruggt rými (e. safe space) er dæmi um jákvæð áhrif kynjaskiptingar (hooks, 1994). Þörf einstaklinga til að mynda minnihlutahópa sem upplifa svipaða hluti og gefur þeim tækifæri til að koma saman og deila reynslu og hugmyndum án gagnrýni (hooks,1994). Sem dæmi sækja stúlkur oft í öruggt rými og hópa sig saman. Þessa hugmyndafræði er gott að hafa hugfasta og hvernig hægt er að vinna með hana í tómstundastarfi. Mikilvægt er að hafa raunveruleg markmið sem að endurspegla jafnrétti ef að skipta á eftir kynjum. Jafnrétti í kynjaskiptu hópstarfi þarf því að gera ráð fyrir öllum kynjum en ekki bara kvenkyni og karlkyni.
Fólk er jafn misjafnt og það er margt. Með það í huga er starf leiðbeinanda á vettvangi tómstunda ábyrgðarfullt og mikilvægt. Með því að vera meðvitaður og gagnrýninn á samfélagið er auðveldara að stuðla að breytingum og gera þannig ráð fyrir öllum. Forðumst óþarfa kynjaskiptingu og stuðlum að fjölbreyttu tómstundastarfi fyrir alla.
—
Sædís Harpa Stefánsdóttir