Þegar ég horfi í kringum mig hugsa ég: Vá! Þetta poolborð er svo flott, ég er spennt að taka leik! NÆS! Ég get spilað borðtennis! Halló! Hver kemur í FIFA leik í tölvunni? Ég ætla að rústa ykkur og ef ekki þar, þá tökum við leik í foosball! Þetta er geggjað! Það er svo fjölbreytt dagskrá og það er skíðaferð í þessum mánuði! Þetta er allt svo skemmtilegt! Ég veit ekki hvernig ég varð svona heppin fá að taka þátt í þessu öllu!
Þegar ég horfi í kringum mig hugsa ég: Vá poolborð! En það er alltof hátt uppi fyrir hjólastólinn minn. Ég finn mér bara eitthvað annað að gera. Þarna er borðtennisborð. Æj ég get ekki farið á eftir boltanum svo glatt, ég vil ekki vera fyrir. Ég get spilað FIFA leik í tölvunni. En ég verð að komast inn í tölvuherbergið. Ég þarf að fara aðra leið þangað og ég þarf aðstoð. Æj, ég vil ekki trufla. Ég get ekki spilað foosball í staðinn því ég sé ekki ofan í borðið til þess að geta spilað. Best að skoða dagskránna: Felu – eltingaleikur, körfubolti, ratleikur, skíðaferð… LOKSINS! Ég get mætt á fimmtudaginn í næstu viku og tekið þátt því það er listakvöld! Mér finnst ekki mjög gaman að mála en vá hvað ég er heppin að fá að taka þátt í einhverju.
Þegar ég horfi í kringum mig hugsa ég: Vá! Þetta poolborð er svo flott ég er spennt að taka leik! NÆS! Ég get spilað borðtennis! Ég kann samt ekki að spyrja einhvern til að vera með. Þetta eru leikir sem það þurfa að vera tveir eða fleiri í. Kannski er tölvan laus? Hvernig spyr ég aftur hvort ég megi spila með? Þessir krakkar eru með mér í bekk en ég er samt aldrei með þeim í tíma. Ég þarf að verða betri í íslensku til þess og ég þekki þau ekki mikið. Hvað ætli sé að gerast í kvöld? Hvar eru allir hinir krakkarnir sem voru hérna áðan? Ó… starfsfólkið gleymdi að þýða dagskránna… hey, þau eru öll að koma til baka! Þau eru öll með brjóstsykur… ætli ég hafi misst af einhverju mikilvægu?
Þegar ég horfi í kringum mig hugsa ég: Vá! Þetta poolborð er svo flott, ég er spennt að taka leik! NÆS! Ég get spilað borðtennis! Halló! Hver kemur í FIFA leik í tölvunni? Ég ætla að rústa ykkur og ef ekki þar, þá tökum við leik í foosball! Ég þarf samt að passa mig að fara vel með hlutina. Þeir mega ekki eyðileggjast, þeir kosta peninga. Hvað er á dagskrá í kvöld? Brjóstsykursgerð. Ætli það kosti eitthvað að vera með? Hvað er fram undan í félagsmiðstöðinni? Það er pizzakvöld sem kostar 500 kr, ball kostar 2000 kr, skíðaferð kostar 7000 kr. Ú! Tie- Dye… Ó, það á að koma með sinn eigin bol. Mér finnst þetta hvort sem er ekkert skemmtilegt. Ég mæti bara á opið hús.
Í nýrri stefnu um tómstunda- og frístundastarf til ársins 2030 segir:
Með stefnunni byggir tómstunda- og félagsstarf á gagnreyndri þekkingu og traustum rekstrargrunni, er faglegt, öruggt og aðgengilegt fyrir alla og lögð er áhersla á að ná til jaðarsettra hópa og auka þátttöku þeirra.
Ég set mig í stöðu jaðarsettra einstaklinga innan félagsmiðstöðvar sem ég þekki vel og finnst mér starfið frábært en með inngildandi sjónarmiði sjást margir gallar. Með komandi nýrri lagasetningu æskulýðsstarfs þar sem öll börn eiga skilið að njóta sömu réttinda spyr ég ykkur: Hvað hugsið þið þegar þið horfið í kringum ykkur?
—
Dagný Kára Magnúsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði