Hvers virði er ferðin?

Hröð tækniþróun kallar á breytta samskiptahætti en á síðustu tíu árum hefur reiknigeta í tölvum nærri því 500 faldast. Farsíminn sem eitt sinn var einfaldur og eiginlegt öryggistæki hefur stökkbreyst og þjónar nú hlutverki fjölda tækja sem stóðu sjálfstæð áður fyrr. Síminn er myndavél, leitarvél, gps-tæki og svo margt fleira. Án hans erum við hvort í senn nakin en um leið aftengd samfélaginu eða minnsta kosti því samfélagi sem við tengjum okkur hvað mest við, þ.e. samfélagshópurinn okkar á Facebook, Twitter, Instagram og fleiri samfélags-forritum. Eðli máls samkvæmt eyða unglingar meiri tíma í símanum en áður og hætt er við að þeir leggi meira upp úr því hvert þeirra sjálf er í sýndarheimi símans en raunheimi. Fegurðarsían verður staðalímynd unglingsins, sem fer þá á mis við fjölbreytileika mannlífsins.

Eitt helsta verkefni okkar sem vinnum með börnum og unglingum er að snúa við þessari þróun, þ.e. hjálpa unglingum að byggja upp sína eigin sjálfsmynd utan fegurðarsíu símans. Við eigum enga eina aðferð eða eina lausn á þessum vanda heldur verða margar ólíkar aðferðir að koma að. Það er ekki víst að við getum snúið þessari þróun alfarið við en með aðferðum á borð við útinám getum við hjálpað unglingum að takast á við nýjar áskoranir utan þeirra þægindaramma og um leið byggt upp sjálfsmynd þeirra og elft samskipti utan netheima. Mikilvægt er að benda á að útinám er víðtækara en eingöngu námskrártengt nám en með aðferðum útináms er leitast við að fá nemendur til að finna lausnir á vandamálum bæði með því að vinna sjálfstætt en jafnframt í samvinnu við aðra. Þannig getum við byggt upp sjálfstæðari og einbeittari einstaklinga, aukið félagsfærni þeirra, tjáningu og almenna færni nemandans. Allt eru þetta fögur fyrirheit en hvað veldur því að útinám kallar fram það besta í okkur sjálfum og nemendum okkar?

Til að svara þessari spurningu finnst mér gott að leita í eigin reynslu. Fjallgöngur og útivist hafa lengi verið hluti af mínu lífi og lífstíl. Ég kynntist manninum mínum í Flugbjörgunarsveitinni og við stundum útiveru og útivist með börnum okkar eins oft og færi gefst. Ekki bara til að njóta einstakrar náttúru landsins heldur einnig til að byggja okkur sjálf upp, styrkja bönd fjölskyldunnar og efla þroska og getu barnanna. Ég man enn mína fyrstu erfiðu fjallaferð, áskorun sem í fyrstu virtist ekki svo ýkja mikil og reyndist upphafið á ævintýri sem mig óraði ekki fyrir. Ætlunin var að ganga á Fimmvörðuháls en vegna veðurs töldu flokkstjórar hópsins æskilegra að ganga með okkur nýliðana um Tindfjallasvæðið. Í minningunni var veðrið ekki mikið betra á því svæði en því sem við ímynduðum okkur að væri á Fimmvörðuhálsinum. Ferðin var því áskorun fyrir þá sem voru óvanir að ferðast í slíkum aðstæðum og flokkstjórarnir létu reyna á þekkingu okkar og leituðu álits okkar. Allt í einu vorum við jafningar, eða í það minnsta fannst okkur við vera nær þeim í plani. Tilfinningin, upplifunin og reynslan að vera úti í náttúrunni í aðstæðum sem voru framandi var í fyrstu ónotaleg. Án tilsagnar eða yfirboða fór hópurinn, sem lítið þekktist fyrir, að vinna saman. Fólk leitaði ráða hjá hvert öðru, bað um og veitti aðstoð. Við vorum öll að upplifa svipaða hluti. Þeir sem virtust ómannblendnir og feimnir voru allt í einu farnir að taka frumkvæði, þorðu að spyrja og jafnvel bjóða aðstoð. Einhver órjúfanleg tengsl höfðu myndast milli okkar, við höfðum öll farið í gegnum sömu lífsreynsluna og komist heil til byggða. Við vorum aldrei í raunverulegri hættu, færustu fjallamenn landsins leiddu hópinn og þekktu hvert skref og hvern stein á svæðinu. Engu að síður upplifðum við sem fórum þarna um í fyrsta sinn, jafnvel í okkar fyrstu erfiðu göngu, tilfinninguna að hafa náð ákveðnum áfanga, sigrast á áskorun sem var utan okkar þægindaramma.

Ekki þarf að taka unglinga á öræfi til að skapa sömu tilfinningar og ná sama árangri. Í útinámi felast mörg tækifæri til að þjálfa samskiptafærni og hægt er að skapa aðstæður þar sem sýndarheimur símans þarf að víkja fyrir raunverulegri og mikilvægari verkefnum. Það er því og verður sífellt mikilvægara að taka unglinga út fyrir þægindaramma sinn og leyfa þeim að takast á við uppbyggilegar áskoranir. Á því grundvallast útinám og ætti því að vera stærri hluti af uppeldi bæði barna og unglinga.

Steinunn Anna Kjartansdóttir