Hvers vegna hrakar andlegri heilsu unglinga?

Á undanförnum árum hefur verið greint frá því að andlegri heilsu unglinga hafi hrakað mjög. Unglingar eru frekar að glíma við kvíða og þunglyndi og önnur andleg veikindi nú á dögum. Margar ástæður geta verið fyrir því að unglingar á Íslandi í dag eigi erfiðara andlega. Samfélagið sem unglingar alast upp í er samfélag hraða og mikilla breytinga. Einn af fylgifiskum þess er að Ísland gæti flokkast undir svo kallað neyslusamfélag. Þörfin er svo mikil að eignast allt það nýjasta og flottasta. Oft á tíðum held ég að unglingar lendi í þessa gildru, bæði út af áhrifum frá samfélaginu, hópþrýstingi og þeirri náttúrulegu tilfinningu að vilja tilheyra.

Unglingsárin eru mörgum einstaklingum erfið, þeir eru að reyna að fóta sig sem sjálfstæðir einstaklingar og þessu tímabili fylgja oft miklar breytingar. Þeir eru að reyna að móta heilsteypta sjálfsmynd, á sama tíma og þeir eru að auka sjálfstæði sitt gagnvart foreldrum og fjölskyldu. Gæti verið að samfélagið sem við búum í hafi áhrif á hversu erfitt sé fyrir íslensk ungmenni að móta sig og sínar skoðanir?

Ég sem alin er upp úti á landi og hef velt fyrir mér hvort ég eða við höfum haft minni tækifæri á öllum þeim fríðindum og tilboðum sem nútímasamfélag bíður upp á og séum því nægjusamari á það sem við höfum. Við höfum ekki jafn mikla þörf fyrir það að eiga allt það nýjasta eins og þeir sem eiga auðveldara með að nálgast það. Hins vegar velti ég því fyrir mér hvort það sé líka að breytast þar sem tæknin er orðin auðveldari og hægt að nálgast það sem manni langar að eignast í gegnum Internetið og fá það sent heim innan þriggja daga. Getur þetta verið ein af ástæðunum fyrir því að andlegri heilsu unglinga sé að hraka?

Hvað er það sem samfélagið getur gert til þess að aðstoða ungt fólk og bæta líðan þess, hvort sem þetta eru ástæðurnar eða einhverjar allt aðrar? Ég held að oft á þessum aldri fara unglingar að fjarlægjast fjölskyldur sínar og foreldrar gefi oft of mikið eftir. Vinir fara að skipta meira máli og tíminn sem unglingar eyða með fjölskyldu sinni minnkar. Þetta er eðlilegt á þessu tímabili þegar unglingar eru að skapa sjálfsmynd sína og auka frelsi sitt. Ég tel mikilvægt fyrir foreldra að halda samt í tengslin við unglingana sína, það geti auðveldað þeim að eiga í heilbrigðum samskiptum við börnin sín og meiri líkur á að unglingar leiti til þeirra ef eitthvað bjátar á. Ef unglingar fjarlægjast of mikið er erfiðara fyrir þau að leita eftir hjálp þar sem þau hafa ekki tengslin sem til þess þarf.

Fyrst og fremst held ég að foreldrar þurfi að taka þetta samfélag sem við búum í föstum tökum, setja unglingum sínum mörk, bæði varðandi tækni sem er öllum aðgengileg í dag og einnig passa upp á samverustundir í faðmi fjölskyldunnar.

Mig langar að koma að tækninni enn og aftur, hún hefur gríðarleg áhrif á ungt fólk, bæði þær staðalímyndir sem eru við lýði í samfélaginu sem og allar þær glansmyndir sem sjást á helstu netmiðlum. Þessir þættir geta haft áhrif á andlega heilsu unglinga. Að falla inn í þennan heim og í kjölfar þess setja þau gjarnan upp grímu til þess að fela sig og halda sínum tilfinningum fyrir sig, með því eykst vanlíðan og erfiðara verður að leita eftir hjálp. Kvíði, þunglyndi og vanlíðan er ekki skömm en samfélagið þarf að ræða þetta opinskátt og gefa unglingunum möguleika á því að ræða tilfinningar sínar.

Lilja Tekla Jóhannsdóttir