Ég starfa í félagsmiðstöð. Oftar en ekki er ég spurð hvað þetta sé eiginlega, hvað ég sé að gera í vinnunni. Einnig hef ég fengið að heyra það sem fólk heldur að starfi mitt snúist um. Að ég sé einungis þarna til að hafa auga með unglingum, opna fyrir þeim húsið og loka þegar útivistartíma lýkur. Ég hef líka lent í að fólk sé undrandi yfir fjölda starfsmanna í félagsmiðstöðinni þegar í raun og veru er oft undirmannað á þessum vettvangi. Ég tek því ekki persónulega og geri mér fulla grein fyrir því að þetta er bara vanþekking.
Þess vegna langar mig til þess að fræða þig kæri lesandi um það starf sem fer fram í félagsmiðstöðvum. Það er ótrúlega skemmtilegt og gefandi en á sama tíma er þetta virkilega krefjandi og alls ekki fyrir alla. Unglingsárin er tímabilið þar sem börn standa frammi fyrir því hlutverki að hætta að vera börn og stíga þar að leiðandi inn í heim fullorðinna. Á unglingsárunum eiga mikið af breytingum sér stað, bæði líffræðilega, vitsmunalega og félagslega. Kröfur samfélagsins og jafningja breytast og unglingurinn stendur frammi fyrir þeirri mikilvægu áskorun að velja bestu leiðina til þess að takast á við þessar breytingar.
Það er mikilvægt að fagmenntað fólk sé að vinna á þessum vettvangi með þessum viðkvæma aldri, alls staðar þar sem unnið er með fólki finnst mér algjört skilyrði að þar séu einstaklingar með menntun á þessu sviði.
Í grunninn er félagsmiðstöðvarstarf forvarnarstarf þar sem unnið er með viðhorf og atferli unglinga í átt að heilbrigðum lífstíl og virkni í samfélaginu. Þangað geta unglingar leitað í öruggt umhverfi og eitt mikilvægasta verkefni starfsmanna er að sjá til þess að enginn verði fyrir aðkasti og/eða einelti. Eitt af meginmarkmiðum félagsmiðstöðvastarfs er að ná til sem flestra og bjóða upp á dagskrá sem hentar hverjum og einum. Ábyrgð starfsmanna í félagsmiðstöðvum er mikil, þar sem við erum mikilvægar fyrirmyndir og höfum oft meiri áhrif á unglingana en við gerum okkur grein fyrir. Þarna mætum við unglingnum á jafningjagrundvelli með virðingu fyrir honum og hans málum.
Starf í félagsmiðstöðvum er tvíþætt, það er að segja opið starf og hópastarf. Í opna starfinu gefst unglingum tækifæri á að hittast á hlutlausum og öruggum stað þar sem þeir geta mætt á eigin forsendum og fá að vera virk á þann hátt sem hentar hverjum og einum undir handleiðslu félagsmiðstöðvarleiðbeinanda. Í opna starfinu geta unglingarnir sinnt áhugamálum sínum og þjálfast í því að nýta frítíma sinn á innihaldsríkan og uppbyggjandi hátt. Færnin að nýta frítíma sinn á jákvæðan hátt er ekki meðfædd og oftast er það í frítíma unglinga sem þeir fara að sýna áhættuhegðun. En á meðan þeir mæta í félagsmiðstöðvarnar og fá þar stuðning og hvatningu til þess að gera hluti sem eykur lífsgæði þeirra dregur það úr líkum áhættuhegðunar. Starfsfólk félagsmiðstöðva vinna markvisst að því að hjálpa unglingum að mótast sem einstaklingar, nota gagnrýna hugsun og að átta sig á því hvernig einstaklingar þeir vilja vera í samfélaginu. Síðan er það hópastarf þar sem unnið er að sameiginlegum viðfangsefnum þar sem tækifæri gefst til þess að þjálfa félagsfærni, vináttufærni, styrkja sjálfsmynd, sýna umhyggju og þroska með sér hópavitund. Í hópastarfi er unnið með einstaklinginn einn og sér ásamt hópnum í heild. Ferli hópastarfs er stýrt af fagaðila sem leiðbeinir einstaklingunum innan hópsins til þess að ná sameiginlegum markmiðum hópsins. Oftast er þátttaka í hópastarfi valfrjáls og getur hver sem er tekið þátt. Síðan er það sértækt hópastarf, í því hópastarfi er valið í hópinn með aðstoða annarra fagaðila vegna ástands unglingsins sem getur til dæmis verið að hann er félagslega óvirkur eða sýnir áhættuhegðun. Leiðbeinandinn stendur frammi fyrir því verkefni að leiða hópinn áfram á lýðræðislegan hátt og vinnur markvisst að því að virkja alla aðila innan hópsins þar sem allir eiga möguleika á því að hafa áhrif.
Í grófum dráttum er þetta hluti af því sem starfsmenn félagsmiðstöðva takast á við. Eins og í leikskólum, frístundastarfi og starfi innan skóla er markmiðið að hjálpa unglingum að mótast sem einstaklingar og verða að góðum samfélagsþegnum.
—
Sara Linneth Lovísudóttir Castaneda