Gullfiska athygli ungmenna

Hvað ert þú búin að vera lengi í símanum í dag? Gerum við okkur raunverulega grein fyrir því hvað þetta litla tæki tekur mikinn tíma af okkar degi og mikinn hluta af okkar athygli. Þetta málefni kann að vera viðkvæmt sökum þess og mögulega viljum við ekki viðurkenna hver svörin eru við þessum spurningum. Ef horft er í staðreyndir og rýnt er í eðli skjánotkunar og möguleg áhrif hennar að þá vaknar spurningin – erum við að stýra símanum eða er síminn að stýra okkur? Auk áhrifa skjánotkunar á einbeitingu og athygli er hér að neðan fjallað um hagnýt viðmið og ráð sem notast má við í að takast á við skjánotkun í daglegu lífi.

Samkvæmt nýlegri rannsókn (McSpadden, 2015) þá er meðaleinstaklingurin í snertingu við sinn snjallsíma 2617 sinnum á dag. Hver og einn notandi var í símanum í tvo og hálfa klukkustund að meðaltali á dag skipt niður í 67 skipti. Þetta gefur til kynna að snjallsímanotkunin sé viðvarandi yfir allan daginn og að athyglin sé að hluta til alltaf á einhverju sem símanum tengist. Á undanförnum árum hefur athyglisgeta fólks á heimsvísu farið lækkandi og má spyrja sig um áhrif tæknibyltingarinnar sem dæmi útgáfu Iphone símans árið 2007. Um aldamótin 2000 mældist athyglisgeta fólks að meðaltali um 12 sekúndur en hefur í nýlegri rannsókn (McSpadden, 2015) mælst niður í átta sekúndur. Til samanburðar má til gamans geta að athyglisgeta gullfisks er um það bil níu sekúndur (Comer, 2019).

Rétt eins og notkun snjalltækja hefur aukist á undanförnum árum þá hefur kvíði ungmenna einnig aukist. Því er vert að spyrja hvort um orsakasamhengi er að ræða. Sem dæmi hefur kvíði unglingsstúlkna aukist talsvert á undanförnum árum eins og Sigrún Þórisdóttir sálfræðingur bendir á (Sigrún Þórisdóttir, 2018).

Forsvarsmenn samtakanna SAFT (Samfélag, fjölskyldu og tækni) hafa sett fram skjáviðmið fyrir ungmenni. Nefna þau í því sambandi áhrif skjánotkunar á heilsu ungmenna, bæði líkamlega og andlega, og setja fram umræðupunkta til umhugsunar um meðvitaða skjánotkun. Gott er að hafa í huga að börn og ungmenni taka upp þá hegðun sem þau sjá hjá foreldrum sínum og því er mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um eigin skjánotkun. Einnig setja þau fram nokkur heilræði til ungmenna og eitt þeirra er að hafa hljóðlausar stillingar á símum til að minnka áreiti (Saft, 2019).

Ljóst er að tækni og skjánotkun er stór hluti af lífi okkar flestra í nútímanum og skýrt hafa komið fram bæði jákvæð og neikvæð áhrif á líf einstaklinga sem hún kann að hafa. Í stað þess að banna notkun skjátækja er mikilvægt að fræða börn og ungmenni um allar hliðar hennar svo að einstaklingurinn geti tekið meðvitaða ákvörðun og sé upplýstur um þennan stóra þátt í lífi hans. Tíðni símanotkunar sem að var fjallað um hér að ofan kann að vekja athygli og áhugavert væri að framkvæma samskonar rannsókn á íslenskum ungmennum í nútímasamfélagi. Þó að þessi umfjöllun hljómi eins og hún sé einungis ætluð foreldrum að þá er efni hennar eitthvað sem við öll getum tekið til okkar og ígrundað meðvitað þessa hegðun sem er svo oft ómeðvituð.

Úlfar Darri Lúthersson

 

Heimildir

Keven McSpadden. (2015). You Now Have a Shorter Attention Span Than a Goldfish. Time (14. maí 2015). Sótt af: http://time.com/3858309/attention-spans-goldfish.

John Mark Comer. (2019). The Ruthless Elimination of Hurry. Unated States: Waterbrook.

Sigrún Þórsdóttir. (2018). Hvað fæ ég mörg læk á dag? Fréttablaðið (24. Febrúar 2018). Sótt af: https://www.frettabladid.is/skodun/hva-fae-eg-moerg-like-i-dag/

SAFT. (2019, 11. apríl). Skjáviðmið fyrir ungmenni 13 – 18 ára. Sótt af: https://saft.is/skjavidmid/?fbclid=IwAR0hSZ2okWe_5JaTsr7O3SlT-TiB6Jw-K3cDwuPfzo3uqV6mUqYYm9m8hjo