Geta samfélagsmiðlar og góð samskipti verið vinir?

Það er alltaf hægt að stoppa og hugsa, hvernig væri heimurinn ef þetta og hitt væri öðruvísi. Maður spyr sig hvort lífið væri betra, verra eða bara aðeins öðruvísi ef ýmislegt hefði aldrei gerst eða ef það myndi breytast.

Spurning sem leitar oft á okkur sem vinnum með ungu fólki er hvort líf unglinga væri öðruvísi ef samskiptamiðlar (facebook, instagram, snapchat ofl.) væru ekki partur af lífi þeirra. Hægt er að hugsa þetta fram og til baka án þess virkilega að maður átti sig á því hvernig líf þeirra væri öðruvísi. Ég tel þó ekki vitlaust að velta þessu fyrir sér. Hafa til að mynda samskipti unglinga breyst fyrir tilstilli samfélagsmiðla? Það má með vissu telja að samskipti lang flestra unglinga hafi breyst með auknu aðgengi að interneti en ekki eru allir sammála um að breytingin sé endilega slæm.

Með tilkomu forrita eins og facebook og snapchat er auðveldara fyrir unglinga að vera í samskiptum við jafnaldra sína þó vissulega sé hætta á að samskiptin verði ópersónulegri. Í þessum forritum er hægt að vera í samskiptum við alla þá sem maður þekkir, eða þekkir ekki, með engri fyrirhöfn og ræða allt milli himins og jarðar. Hættan er þó sú að samskiptin verði ópersónulegri enda er fólk orðið meðvitaðra um að allt það sem það setur á internetið verður þar alltaf. Vegna þessa getur fólk orðið hrætt við það að opna sig um viðkvæm málefni á spjallsíðum eða öðrum samfélagsmiðlum. Erfitt getur verið að skynja kaldhæðni og skilja hvað er sagt í gríni og hvað í alvöru í gegnum internetið og er því hætta á að fólk sé misskilið eða dæmt út frá því sem það segir t.d. í dulbúnu gríni.

Ef litið er á dæmin hér á undan má telja að samskipti unglinga væru persónulegri ef samskiptamiðlar væru ekki hluti af lífi þeirra. Samskipti þeirra á milli væru þá oftar augliti til auglitis og tjáning myndi síður vera misskilin. Einnig hefði þetta í för með sér að einstaklingar væru meira á staðnum þegar þeir væru saman – í dag er venjan orðin sú að þegar fólk eyðir tíma saman er eðlilegt að sitja í þögn í sitt hvorum símanum.

Ekki er öll umræða um tilkomu samfélagsmiðla og samskipti ungmenna þó neikvæð. Margir telja að samskiptasíður hjálpi unglinum að halda tengslum við vini sína og kunningja ef það kemur til að einstaklingar þurfi að flytja á milli landa, skipta um skóla eða annað því um líkt. Einnig geta samfélagsmiðlar gert það að verkum að unglingar verða meðvitaðri um það hvað gengur á í samfélaginu. Þetta á ekki við um alla unglinga frekar en annað sem skrifað er í þessari grein, en þeir unglingar sem eru virkir á samfélagsmiðlum eru oft meðvitaðir um hvaða umræður eiga sér stað í samfélaginu og taka þátt í þeim. Sem dæmi má nefna að í mörgum félagsmiðstöðvum hafa verið stofnuð feministafélög og má ætla að umræðan um feminisma innan félagsmiðstöðvanna hafi byrjað fyrir tilstilli samfélagsumræðna á samskiptamiðlum sem unglingarnir hafa tekið þátt í eða lesið.

Það er því ekki hægt að segja að samskiptamiðlar séu að eyðileggja ungdóminn þó, eins og allt annað, hafi þeir bæði góðar og slæmar hliðar. Fræðsla er aldrei slæm og er því mikilvægt að kenna unglingum, jafnt sem öðrum aldurshópum, hvernig best er að nýta þá.


Brynja Helgadóttir, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði