Lífið sem unglingur á Höfn gat oft á tíðum verið leiðinlegt og leið mér eins og ekkert væri í boði í litla bænum sem ég bjó í, að ég hélt. Á þeim tíma upplifði ég Reykjavík sem stað valmöguleikanna, þá sérstaklega fyrir unglinga. Í Reykjavík var hægt að fara í Kringluna, Smáralindina, í keilu og bíó! Í dag bý ég í Reykjavík vegna náms og þó allir þessir valmöguleikar séu til staðar eru þeir kannski ekki endilega fyrir mig.
Ég horfi til baka og hugsa hvað ég átti þægilegt líf í rauninni, ég gat hjólað og labbað hvert sem var, hvenær sem var án þess að foreldrar mínir hefðu áhyggjur. Lífið í litlum bæ er rólegt og notalegt, þegar ég er heima finnst mér ég vera meira frjáls bæði núna og sem unglingur. Í dag upplifi ég Reykjavík stað þar sem er of mikið áreiti, þegar ég er heima finnst mér ég vera með fleiri klukkutíma í sólarhringnum. Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig það hefði verið að alast upp í bænum, hefði ég verið meira háð foreldrum mínum upp á að fá far til dæmis á æfingar, eða hefði ég æft eitthvað? Ég æfði fótbolta á unglingsárunum mínum, hefði ég gert það ef ég hefði alist upp í Reykjavík? Þegar ég lít til baka þá man ég ekki eftir að hafa leiðst mikið, við fundum okkur alltaf eitthvað til þess að gera.
Sem félagslynd manneskja var ég virk í mörgu. Ásamt því að æfa fótbolta mætti ég í félagsmiðstöðina eins mikið og ég hafði tök á. Félagsmiðstöðin var opin þrisvar í viku og eyddi ég miklum tíma þar með vinkonum mínum. Eitt árið var ég í ráði innan félagsmiðstöðvarinnar, þar sem krakkar eru fengnir til þess að mæta á fundi, hjálpa við að skipuleggja viðburði hvers mánaðar og hjálpa við undirbúning. Þessi litla reynsla sem ég fékk þarna er líklega ástæðan fyrir því að ég hef verið í nemendaráði bæði í framhaldsskóla og háskóla. Þessi reynsla opnaði fleiri valmöguleika og þar fann ég styrkleika mína.
Félagsmiðstöðvar bjóða upp á svo margt, þær eru vettvangur fyrir börn og unglinga að læra það sem virkilega skiptir þau máli. Krakkarnir geta mætt þangað með frjálsum vilja og fá tækifæri til þess að efla samskipta- og félagsfærni þeirra auk þess að styrkja sjálfsmyndina þeirra og sjálfstæði. Einnig brýtur starfsemi félagsmiðstöðva upp hversdagsleikann hjá börnum og unglingum þar sem þau geta komið og spilað borðtennis, þythokkí og biljarð til að nefna nokkur dæmi.
Ég tel félagsmiðstöðina vera eina af mikilvægustu stöðum sveitarfélagsins, þar geta hópar hist undir jákvæðum formerkjum. Þegar ég var unglingur höfðum við aðgang að félagsmiðstöðinni og hitti ég vini mína þar frekar en að rápa um göturnar eða hanga á Olís eftirlitslaus. Það gleður mig mikið að sjá að starfsemin í gömlu félagsmiðstöðinni minni er stöðugt að aukast og verður aðeins betri með tímanum. Að mínu mati skipta félagsmiðstöðvar gríðarlega miklu máli, þá sérstaklega í minni sveitarfélögum. Það er ávinningur af þeim, bæði fyrir ungmennin og samfélagið.
—
Adisa Mesetovic