Tómstundir eru skilgreindar á margvíslegan hátt en ekki eru allir fræðimenn sammála um hvernig best sé að skilgreina þær, þó ættu flestir að vera kunnugir orðinu tómstundir og geta gert grein fyrir því í stuttu máli hvað það gengur út á. Aftur á móti eru flestir sammála um mikilvægi tómstunda bæði fyrir börn og unglinga. Tómstundir eru mikilvægar fyrir bæði börn og ungmenni því þær draga til að mynda úr kvíða, vanlíðan og þunglyndi. Það kemur oft upp í huga minn hvort ungmenni viti hvað tómstundir ganga út á og af hverju þau kjósi að stunda tómstundir. Hvað er það sem helst skiptir máli þegar kemur að tómstundum?
Ég hef stundum gripið það tækifæri að spyrja ungt fólk hvers vegna það tekur þátt í tómstundum og hvað það gefur þeim. Í flestum tilvikum er fátt um svör sem kemur í sjálfu sér ekki á óvart, því oftast nær vita þau ekki hverju þau ættu að svara.
Það er löngu kominn tími til að innleiða tómstundamenntun inn í skólakerfi landsins vegna þess að það væri áhugavert og spennandi að kenna börnum og unglingum hverjir kostirnir við tómstundamenntun eru og stuðla með því að auknu sjálfstæði þeirra, frumkvæði og ánægju. Tómstundamenntun snýst um að gera fólk meðvitað um hversu mikilvægar tómstundir og frítíminn eru. Ég tel mig hafa nýtt frítíma minn sem unglingur á jákvæðan hátt með þeim hætti að ég mætti t.d. alltaf í skipulagt tómstundastarf í félagsmiðstöðinni í grunnskólanum mínum þegar hún var opin og fór þar á allskonar viðburði sem höfðuðu til mín.
Það hefði verið áhugavert og spennandi að vita af tómstundamenntun þegar ég var að alast upp til að fá að vita hvað tómstundir ganga út á. Þegar ég var að alast upp sem barn og unglingur þá hafði ég í raun enga hugmynd um að bæði félagsmiðstöð og íþróttastarf væri skilgreint sem sérstakt fyrirbæri og væri í rauninni tómstundir. Ég hélt í raun og veru að allir krakkar stunduðu einhverja íþrótt því það var eðlilegt á sínum tíma. Þrátt fyrir að ég hafi ekki fengið neina tómstundamenntun, þá tel ég mig samt sem áður hafa nýtt frítímann minn á jákvæðan hátt.
Á uppvaxtarárum mínum tók ég aldrei þátt í neinu skipulögðu íþróttastarfi, eins og t.d. fimleikum, fótbolta, körfubolta, dansi, o.s.frv. Þó það hafi verið margt skipulagt íþróttastarf í boði, þá fann ég einhvern veginn ekki neitt sem höfðaði til mín. Tómstundastarfið sem ég tók þátt í sem unglingur er líklega ástæðan fyrir því að ég valdi að læra Tómstunda- og félagsmálafræði til þess að kynnast betur tómstundum barna og læra þannig að verða faglegri í mínu starfi eða þeirri vinnu sem ég mun koma til með að starfa við í framtíðinni.
Ég tel afar mikilvægt að efla útivist og ferðalög með skipulögðu tómstundastarfi unglinga í samráði við ferðafélögin, eins og t.d. Ferðafélagi Íslands og Útivist, ásamt fræðslu tengdri útivist. Ég var sjálf svo heppin að alast upp við mikla útivist og ferðalög innanlands, en ég hef oft farið í ferðir upp á hálendi Íslands á staði eins og Öskjuvatn, Herðubreiðalindir, o.s.frv. Ein af skemmtilegustu ferðum sem ég hef farið í var þegar ég fór keyrandi með fjölskyldunni minni, ásamt ferðafélaginu Útivist upp á Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökul. Einnig hef ég farið á marga fallega staði í náttúrunni og ekki skemmir fyrir að hafa náð að sinna áhugamálinu mínu, sem er ljósmyndun, hvort sem notaður er sími eða myndavél.
Mikilvægt er að ungmenni fái tækifæri til að fara í ferðalög og vera úti í náttúrunni vegna þess að það er alltaf gott að geta tengst náttúrunni, en það hefur að minnsta kosti gert mér gott. Ef ungmennin hafa ekki fengið tækifæri til þess að fara í svona ferðir og vera úti í náttúrunni, þá tel ég að sem flestir ættu að fá tækifæri til þess að öðlast þannig reynslu.
—
Bryndís Viðarsdóttir, nemandi í Tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.