Eru allir jafnir þegar kemur að tómstundastarfi ungmenna?

Hugsaðu um unglingsárin; hvað gerðir þú eftir skóla? Sjálf hefði ég ekki viljað vera í frístund á hverjum degi eftir skóla þegar ég byrjaði í framhaldsskóla en stór hluti fatlaðra ungmenna hefur hvorki val um hvað þau gera eftir skóla né hvert þau fara. Tóku börn með fatlanir þátt í þeim íþróttum sem þú æfðir? Hvers vegna ætli það sé ekki þannig að öll börn, fötluð og ófötluð, hafi val um að æfa íþróttir saman? Hvers vegna eru ungmenni með fatlanir ólíklegri til þess að taka þátt í skipulögðu tómstundastarfi og hvað er í boði fyrir þau?

Sýnt hefur verið fram á að ungmenni með fötlun eru ólíklegri til þess að taka þátt í skipulögðu tómstundastarfi og eru líklegri til að einangra sig og hafa slaka félagslega getu (Unnur Ýr Kristinsdóttir, 2014). Sjálf veit ég að ekki er nægt framboð á fjölbreyttu og eflandi tómstundastarfi fyrir ungmenni með fatlanir. Eins sorglega og það hljómar þá er flest allt það skipulagða tómstundastarf fyrir þann hóp ungmenna frístund. Í mörgum tilfellum er sannleikurinn sá að oft eru frístundaheimilin einhvers konar geymslustöð sem nýtt er frá þeim tíma sem ungmennið er búið í skólanum og þar til það kemst heim til sín. Ef við setjum þetta í samhengi við ófötluð ungmenni, þá myndi sá hópur líklega ekki hafa áhuga á að vera settur í frístund án þess að hafa val um það.

Mín skoðun er ekki sú að leggja eigi frístund niður fyrir ungmenni með ýmsar fatlanir. Hinsvegar vil ég að fólk sé meðvitað um kosti og galla þessa úrræðis og velti fyrir sér hvað sé hægt að gera til að betrumbæta frístundina. Dæmi um það getur verið að þátttakendur komi að skipulagningu starfsins á sinn hátt og þeirra getu til þess. Mikilvægt er að starfsfólk frístundaheimila fái þjálfun og kennslu í að sinna skjólstæðingum sínum.

Fjörður sem er íþróttafélag í Hafnarfirði býður upp á sund og boccia fyrir fólk með fatlanir. Mér finnst þetta ekki vera nægt framboð á skipulögðu tómstundastarfi fyrir þennan hóp fólks. Ég er þeirrar skoðunar að börn og unglingar með fatlanir eigi að hafa val um að æfa með öðrum börnum og unglingum hvort sem þau eru með fötlun eða ekki. Ef þetta val er í boði er mikilvægt að þroski og líkamleg geta hvers og eins sé tekin inn í myndina og þeir sem þurfa á persónulegri aðstoð að halda fái hana. Ég er meðvituð um það að fólk með fatlanir er minnihlutahópur innan þess samfélags sem við búum í, en mikilvægt er að hafa í huga að með því að hafa þessa tvo hópa aðskilda í skipulögðu tómstundastarfi þá getur það gerst að við ölum ófötluð börn upp með þann hugsunarhátt að  börn með fatlanir séu öðruvísi á vissan hátt óháð fötlun sinni og verði fyrir vikið jaðarsett innan samfélagsins.

Hér skal hafa hugfast að draga skal úr mismunun milli hópa og veita þeim hópi sem er jaðarsettur vegna fötlunar tækifæri á jafnri þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi. Mín niðurstaða er sú að þrátt fyrir að ungmenni sé með einhverskonar fötlun þá á það rétt á því að vera ráðandi þátttakandi í sínu tómstundastarfi eftir sinni getu og aðstæðum. Mikilvægt er að við sem samfélag breytum okkar hugsunarhætti og hugarfari gagnvart ungmennum með fötlun.

Melkorka Assa Arnardóttir

 

 

Heimild:

Unnur Ýr Kristinsdóttir. (2014). Mikilvægi tómstunda fyrir börn og ungmenni með fatlanir. Víkurfréttir (19. maí, 2014). Sótt af: https://www.vf.is/adsent/mikilvaegi-tomstunda-fyrir-born-og-ungmenni-med-fatlanir