Ég var hætt í öllum skipulögðum íþróttum þegar ég byrjaði á unglingastigi í grunnskóla. Ég var þó í ungmennaráði í einhvern tíma og mætti oft í félagsmiðstöðina. Ég tók virkan þátt í félagslífinu, bæði í grunnskólanum og í félagsmiðstöðinni og fannst það mjög skemmtilegt. Það er kannski mikilvægt að ég taki það fram að ég ólst upp út á landi og tala út frá minni reynslu.
Það er vitað að tómstundaþátttaka efli meðal annars þroska, vellíðan og sjálfsmynd einstaklinga og ýti undir sjálfstæði. Tómstundir geta einnig opnað á ný tækifæri og veitt fólki aukinn tilgang í lífinu (Leitner og Leitner, 2012) en svo er það stóra spurningin: Hvað eru tómstundir? Fræðimenn hafa ekki enn komið sér saman um eina skilgreiningu á orðinu en samkvæmt grein Vöndu Sigurgeirsdóttur (2010) eru tómstundir ,,athöfn, hegðun eða starfsemi sem á sér stað í frítímanum og flokkast sem tómstundir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þau skilyrði eru að einstaklingurinn líti sjálfur á að um tómstundir sé að ræða. Að athöfnin, hegðunin eða starfsemin sé frjálst val og hafi í för með sér ánægju og jákvæð áhrif. Kjarni tómstunda má segja að felist í vellíðan og aukningu á lífsgæðum.’’
Rannsóknir hafa sýnt að tíminn sem nýttur er til tómstunda minnki eftir útskrift úr grunnskóla og byrjar ekki að aukast aftur fyrr en um 50 ára aldurinn og lækkar svo aftur um sextugt. Það sýnir að einstaklingar nýti tímann sinn til tómstunda ekki að fullu mikinn hluta ævinnar (Becchetti, Giachin Ricca og Pelloni, 2012).
Ég man vel eftir sumrinu eftir að ég útskrifaðist úr grunnskóla vegna þess að þá fyrst fann ég fyrir því að við værum of gömul til þess að mæta á það sem væri í boði í félagsmiðstöðinni og of ung til þess að mæta á viðburði fyrir 18 ára og eldri.
Eftir sumarið byrjaði ég svo í framhaldsskóla, þar voru einhverjir viðburðir á vegum nemendafélagsins og edrúfélagsins en það vantaði samt alltaf einhvern annan stað til þess að fara á til þess að hitta jafnaldra sína. Það er ekki alltaf hægt að bjóða vinum í heimsókn eða fara í heimsóknir og svo langaði okkur stundum að vera annars staðar en heima hjá einhverjum. Við stóðum oft úti í frostinu að spjalla frekar en að vera heima hjá einhverjum og um leið og fyrsta vinkonan í hópnum fékk bílpróf fóru margir klukkutímar í það að rúnta um bæinn og varð það aðal staðurinn til þess að hittast á.
Í framhaldsskóla kynnist maður líka nýju fólki og oftast líka einhverjum eldri nemendum. Mér fannst félagslífið í framhaldsskóla ganga mikið út á það að drekka áfengi, fara í partý og fara á böll en ég ákvað frekar snemma að ég hafði ekki mikinn áhuga á því. Þess vegna tel ég það vera mjög mikilvægt að hafa aðgang að einhvers konar áframhaldandi félagsstarfi eftir grunnskólagönguna, bæði fyrir þá sem ákveða að fara ekki í framhaldsskóla og hafa þá ekki aðgang að viðburðunum sem eru þar en ekkert síður fyrir þá sem eru í framhaldsskóla og taka þátt í félagslífinu þar.
Ef það hefði til dæmis verið ungmennahús í bænum eða jafnvel í einhverjum af bæjunum hérna nálægt þá hefðum við haft aðgang að opnu vímuefnalausu tómstundastarfi. Fyrir þá sem ekki vita eru ungmennahús aðstaða fyrir 16 ára og eldri til þess að stunda jákvæðar og uppbyggilegar tómstundir á eigin forsendum. Ungmennahús hafa gott forvarnargildi og er eitt af markmiðum ungmennahúsa að gera ungmenni að virkum þátttakendum í samfélaginu, í ungmennahúsum geta ungmenni fengið möguleika til þess að tjá sínar skoðanir og þar er starfsfólk sem hlustar á þau.
Ég sé enga ástæðu fyrir því að hafa ekki ungmennahús í hverju sveitarfélagi. Ef ástæðan er sú að það séu ekki nægir peningar til þess, þá held ég að það sé ekki verið að forgangsraða hlutunum rétt. Eins og fram kom hafa ungmennahús meðal annars gott forvarnargildi og geta því komið í veg fyrir ýmis konar vandamál sem gætu kostað sitt.
—
Berglind Björk Arnfinnsdóttir
Heimildir
Becchetti, L., Giachin Ricca, E., og Pelloni, A. (2012). The Relationship Between Social Leisure
and Life Satisfaction: Causality and Policy Implications. Social Indicators Research,
108(3), 453-490.
Leitner, M. J. og Leitner, S. F. (2012). Leisure enhancement (4. útgáfa). Urbana: Sagamore
Pub.
Vanda Sigurgeirsdóttir. (2010). Skilgreining á hugtakinu tómstundir. Ráðstefnurit Netlu
Menntakvika 2010. Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Sótt
http://netla.khi.is/menntakvika2010/025.pdf