Þegar fólk kemst á unglingsaldur er mikilvægt að hugsa vel um húðina. Þó er ekki sama hvernig er hugsað um húðina eða hvaða efni og snyrtivörur eru notaðar. Sífellt meira hefur borið á því á undanförnum árum að unglingar, og þá helst stelpur, séu að nota virkar húðvörur sem ætlaðar eru fullorðinni húð eða jafnvel húð eldra fólks og vinna gegn öldrun húðarinnar. Slíkar húðvörur eru ekki ætlaðar fyrir notkun á húð ungmenna og geta jafnvel valdið varanlegum skaða.
Útlitsáhyggjur
Í dag ná mun fleiri auglýsingar til barna og ungmenna en áður og oft er um duldar auglýsingar að ræða, t.d. þegar vinsælir áhrifavaldar mæla með ákveðnum húðvörum. Auglýsingar í dag virka að auki þannig að ef ungmenni smellir á tengil eða sýnir auglýsingu áhuga munu fleiri auglýsingar af svipuðu tagi herja á ungmennið. Margar snyrtivörur eru svo seldar í litríkum og vel hönnuðum umbúðum sem höfða til barna og unglinga.
Unglingar, og þá sérstaklega stelpur, hafa sífellt meiri áhyggjur af útliti sínu, þar á meðal húðinni en húðlæknar og snyrtifræðingar hafa á undanförnum árum orðið varir við auknar heimsóknir mjög ungra skjólstæðinga. Fyrirmyndir ungra stelpna verða sífellt lýtalausari og æ algengara er að þær noti fylliefni og gangist undir aðrar fegrunaraðgerðir. Þá notast samfélagsmiðlastjörnur oft við svokallaða filtera sem láta allar ójöfnur, lýti og litamismun hverfa á myndum og myndböndum.
Ung húð endurnýjar sig fljótt
Eðlilegar breytingar verða á húðinni með aldrinum og hún getur einnig breyst vegna loftslags og þá geta ólíkar húðgerðir tekið mismunandi breytingum. Almennt endurnýjar ung húð sig þó hraðar en eldri húð og er gjarnari á að vera olíuríkari og breytast vegna aukningar í hormónastarfsemi. Í virkum húðvörum sem ætlaðar eru fyrir eldri húð er algengt að meðal virkra innihaldsefna séu efnasýrur, önnur húðflagnandi efni og retínól. Þessar húðvörur eru ekki ætlaðar fyrir unga húð en efnin vinna á hrukkum og ýmsum húðvandamálum. Börn og unglingar ættu aldrei að nota húðvörur sem innihalda slík virk efni nema að höfðu samráði við lækni. Vörurnar geta skemmt varnarlag húðarinnar og valdið ýmsum óæskilegum viðbrögðum á borð við óþægindi, bólgur, öramyndun, bruna og útbrot.
Hvað er best að nota?
Þrátt fyrir að virkar húðvörur séu ekki æskilegar fyrir mjög unga húð þá er mikilvægt að hugsa vel um húðina og ýmislegt hægt að gera til þess. Jafnvel ung börn hafa gott af því að þvo sér í framan kvölds og morgna. Þegar fólk kemst á unglingsaldurinn og húðin fer að framleiða meira af húðfitu eða olíu er gott að þvo sér í framan kvölds og morgna með mildum húðhreinsi og ágætt er að nota einhverskonar andlitsvatn sem hentar ungri húð. Eftir andlitsþvott er gott að nota rakakrem sem er ætlað fyrir unga húð eða fyrir alla aldurshópa. Mikilvægt er að nota sólarvörn yfir daginn allt árið um kring hvar sem er í heiminum og í raun er sólarvörn besta vörnin gegn öldrun húðarinnar. Best er að nota húðvörur á unga húð sem hafa að geyma sem fæst innihalds- og aukaefni.
Að lokum
Húðin er stærsta líffæri líkamans sem gegnir stóru hlutverki sem ysta varnarlag líkamans og því er afar mikilvægt að hugsa vel um hana. Í því felst ekki aðeins að nota húðvörur heldur að nota réttar og viðeigandi húðvörur, allt eftir aldri og húðgerð svo ekki komi upp vandamál sem eru stærri og verri en þau sem voru fyrir. Til þess að tryggja að húðumhirðan sé að gera gagn og ekki að valda skaða getur verið gott að leita ráða hjá sérfræðingum, t.d. snyrtifræðingi eða húðlækni.
—
Rakel Ósk Jóelsdóttir, meistari í snyrtifræði og nemi á menntavísindasviði Háskóla Íslands