Kynfræðsla er eitthvað sem flestir kynnast fyrst þegar þeir eru í grunnskóla en það er margt sem getur verið á bak við hugtakið. Það sem fellur undir kynfræðslu er til dæmis: kynheilbrigði, blæðingar, sáðlát, getnaðarvarnir, kynsjúkdómar, kynlíf, klám, kynþroski, kynhneigð, kynvitund og fleira. En allt er þetta viðfangsefni sem mörgum finnst óþægilegt að tala um, samt sem áður er það mjög mikilvægt.
Þegar ég hugsa um kynfræðslu þá hugsa ég um hvernig mín reynsla var af henni. Þegar ég var í grunnskóla þá var kynfræðslan kennd þannig að stelpurnar voru sér og strákarnir sér. Það helsta sem ég man eftir að hafa lært um voru blæðingar og allt í kringum það, kynsjúkdóma og hættuna sem fylgir þeim og hvað smokkurinn er mikilvægur. Einnig man ég eftir því að við lærðum hvernig á að setja smokk á banana. Eftir að hafa talið þetta upp finnst mér kynfræðslan sem ég fékk frekar þurr miðað við hvað það er stórt viðfangsefni. Það var ekki fyrr en í framhaldsskóla að ég fékk góða kynfræðslu að mínu mati. En það var áfangi sem ég tók sem val og var ekki skylda á neinn hátt.
Mér finnst það vera ákveðin staðalímynd um hvernig kynfræðsla er kennd og tel ég mig hafa upplifað hana. Þá á ég við að þessi staðalímyndin er að oftast er kynfræðsla kennd þar sem kynjunum er skipt niður, strákarnir sér og stelpurnar sér. Ég skil hugmyndina á bak við það að skipta kynjunum upp og ræða svona hluti við þau í sitt hvoru lagi en þarf ekki að fara breyta því? Nú þar sem ég er stelpa og var bara viðstödd við kynfræðslu fyrir stelpur þá velti ég stundum fyrir mér hvað strákunum er kennt. Hvort þeim sé kennt eitthvað öðruvísi sem tengist þeim eða hvort þeim sé kennt nákvæmlega það sama og okkur stelpunum. Mér persónulega finnst að kynjunum ætti að vera kennt það sama. Sem dæmi að strákar læri um blæðingar og stelpur læri um sáðlát. Í grunninn þá erum við öll manneskjur og snertir kynfræðsla okkur öll á einn eða annan hátt.
Kynfræðsla er það stórt viðfangsefni að það ætti að vera skyldufag í öllum grunnskólum og ef ekki í öllum framhaldsskólum líka. Mér finnst ekki nóg að það séu kannski einungis einum eða tveim tímum eytt í svona mikilvæga fræðslu. Kynfræðsla ætti að vera viðurkennt skyldufag eins og stærðfræði og íslenska. Þar sem allir eru saman í kennslustofu að læra um það sama. En eins og staðan er í dag þá er kynfræðsla og það sem við kemur henni ennþá frekar viðkvæmt umræðuefni. En ég tel það samt sem áður hafa batnað í gegnum árin. Það er klárlega hægt að þakka aðilum eins og Sólborgu Guðbrandsdóttur, stofnanda samfélagsmiðlaaðgangsins Fávitar, og Sigríði Dögg Arnardóttur kynfræðingi, fyrir að tala opinskátt um þætti eins og kynlíf og það sem tengist því. Þetta er skref í rétta átt og vona ég að kynfræðsla sé betri nú í skólum en þegar ég var í grunnskóla.
Við manneskjurnar eru miklar kynverur og tel ég það mikilvægt að fræðsla á öllu sem tengist okkur sé sett fram og vel háttað. Því skora ég á menntamálaráðherra að gera kynfræðslu sem skyldufagi í skólum og hafa hluta af námskrá.
—
Bergdís Fanney Einarsdóttir