Ungmennaþing í stað lokaðs ungmennaráðs

ungness logoFyrir fimm árum fórum við á Seltjarnarnesi af stað með eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið þátt í þegar við lögðum í það að stofna Ungmennaráð Seltjarnarness eða Ungness. Við nálguðumst verkefnið þannig að Ungness yrði skipað ungmennum sem væru 16 ára og eldri og var markmiðið sem við lögðum af stað með að ráðið yrði bænum til ráðgjafar á stjórnsýslustiginu ásamt því að halda viðburði og fræðslu fyrir ungmenni á menntaskólaaldri á Nesinu.

Við boðuðum nýútskrifuð ungmenni í félagsmiðstöðina og auglýstum kosningar í ráðið. Góð mæting var á þennan stofnfund en 19 ungmenni lögðu leið sína á fundinn og 12 gáfu kost á sér til setu í ráðinu. Haldnar voru framboðsræður og svo kosnir 7 fulltrúar ungmennana í Ungmennaráð Seltjarnarness. Veturinn fór vel af stað og héldum við úti opnun fyrir 16+ einu sinni í viku í félagsmiðstöðinni og var mætingin góð. Þegar líða fór á veturinn fór hópurinn þó að þynnast og hægt og rólega fóru ungmenni sem ekki voru í ráðinu að hætta að mæta.

Þetta fyrsta sumar tókum við þátt í ungmennaskiptum á vegum Evrópu unga fólksins með sænsku ungmennaráði frá Lundi. Þetta sænska ráð hafði verið starfandi frá aldamótum og voru með allt annan strúktúr á sínu ráði en við. Þar var ekki kosið í neitt ráð heldur var ráðið opið öllum sem vildu taka þátt og byggðist starfið upp á ungmennaþingum sem haldin eru fjórum sinnum á ári. Á þessi ungmennaþing eru öll ungmenni Lundar velkomin en í Lundi búa rúmlega 80.000 manns. Þingin eru alltaf með ákveðin þemu og eru fræðsla og umræður út frá þemanu. Á þinginu velja ungmennin sig svo í nefndir og vinna verkefni út frá sinni nefnd.

Eftir að hafa kynnst þessum sænska strúktúr og bera hann saman við okkar ákváð Ungmennaráð Seltjarnarness að breyta sínu fyrirkomulagi og heimfæra sænska stílinn á Seltjarnarnes þar sem búa rúmlega 4000 manns.

Ákveðið var að opna ungmennaráðið og í staðinn fyrir að hafa það lokað ráð með kjörnum fulltrúum, að gera það að opnu ráði þar sem öll ungmenni Seltjarnarness mættu taka þátt í verkefnunum og segja sína skoðun sem. Við tókum upp á því að halda fjögur Ungmennaþing á ári en á þau eru allir Seltirningar á aldrinum 16-25 ára boðaðir og þeir sem mæta á þingin eru með atkvæðis- og tillögurétt. Á þingunum er farið yfir verkefni síðastliðinna þriggja mánaða og næstu þrír skipulagðir. Stundum er skipulagt lengra fram í tímann en þetta er svona grunnstefið sem miðað er við.

Við það að opna ráðið og halda þessi fjögur þing sem virka eins og púlsinn í starfseminni jókst þátttaka til muna og verkefnin samhliða því. Á hverju þingi er ákveðið hvaða verkefni skal ráðast í og skipaðir eru verkefnastjórar eða nefndir fyrir hvert verkefni. Það má í raun segja að í staðinn fyrir að hafa eitt ráð sem hefur yfirumsjón með öllum verkefnum er Ungmennaráðið orðið vettvangur þar sem ungt fólk kemur saman til að framkvæma verkefni og myndaðar eru minni nefndir fyrir hvert verkefni af þeim sem vilja koma að því verkefni. Við hugsum þetta sem hugarkort eða bubblukerfi eins og við höfum kallað það.

 

Ungness
Hluti af verkefnum Ungness. Verkefni fæðast út frá ráðinu og allir jafnir.

Eftir að við tókum upp á þessu kerfi hefur ungmennaráðið vaxið og dafnað, endurnýjun hefur verið góð á sama tíma og stofnmeðlimir taka enn þátt í starfinu. Það góða við þetta kerfi er það að þú þarft ekki að vera með í öllum verkefnum og þarft ekki að bjóða þig fram til að vera einn af sjö heldur geturðu valið þér verkefni sem þú hefur áhuga á. Þetta minnkar pressuna á krakkana sem margir hverjir hafa nóg á sinni könnu og þurfa þau ekki að vera all inn alltaf heldur kemur maður í manns stað.

Guðmundur Ari Sigurjónsson
Tómstunda- og félagsmálafræðingur
Verkefnastjóri í Selinu og Skelinni

Hátíðarkveðja Frítímans

2014-New-year-fireworks-photoVið hjá Frítímanum viljum óska lesendum okkar ásamt landsmönnum öllum gleðilegrar hátíðar og þakka fyrir samfylgdina á árinu sem nú er að líða undir lok.

Þetta ár hefur verið viðburðurríkt fyrir okkur þar sem við létum langþráðan draum rætast um að opna veftímarit sem fjallar um tómstunda- og frítímatengt efni hér á landi. Við höfum lært mikið á þessu ári og teljum við okkur vera vel á veg kominn með að gera Frítímann sýnilegan og virkan miðil sem vettvangur frítímans nýtir sér til að sækja sér upplýsinga og miðla efni. Ritstjórn Frítímans hefur ávallt litið á Frítímann sem langtíma verkefni og að það muni taka um þrjú ár að koma tímaritinu almennilega á koppinn.

Það er alltaf gaman við tímamót að líta um öxl og rifja upp það helsta á árinu og höfum við útbúið smá samantekt af árinu sem nú er að líða.

Tölfræði fyrir árið 2013

Alls voru heimsóknir á Frítímann 59.905

Flestar voru heimsóknirnar 22. júní en voru þær 1.950 talsins

Mest lesnu greinarnar árið 2013

  1. „Mig langaði í raun að leggjast í dvala og sofna þangað til þetta væri allt búið“ með 3.648 lesningar
  2. Áhrif félagsmiðstöðvastarfsmanna á einstaklinga með 1.018 lesningar
  3. Starfskenning æskulýðsstarfsmanns með 867 lesningar

Mesta umræðan á grein árið 2013

  1. „Mig langaði í raun að leggjast í dvala og sofna þangað til þetta væri allt búið“ með 43 comment
  2. Áhrif félagsmiðstöðvastarfsmanna á einstaklinga með með 26 comment
  3. Pókermót í félagsmiðstöð – Hvað gerir þú? með 20 comment

Framtíðarsýn

Að lokum viljum við varpa upp framtíðarsýn fyrir árið 2014 og hvetjum við alla til að leggja sitt á mörkum svo hún verði að raunveruleika. Við sjáum fyrir okkur að árið 2014 verði Frítíminn virk gátt fyrir starfsfólk og fræðimenn á vettvangi frítímans þar sem yfirmenn málaflokksins sem og starfsmenn á gólfi sækja sér upplýsingar, taka þátt í umræðu og senda inn greinar um málefni sem brenna á þeim. Við sjáum einnig fyrir okkur að einstaklingar byrji að nýta sér viðburðadagatalið sem síðan býður uppá í auknum mæli. Bæði til að auglýsa sem og að finna áhugaverð námskeið og viðburði sem tengjast vettvangi frítímans. Einnig sjáum við fyrir okkur að við munum byrja að miðla efni á fjölbreyttari máta en með greinaskrifum og má því með sanni segja að árið 2014 líti vel út fyrir Frítímann – Veftímarit fagfólks í frítímaþjónstu!

Gleðilega hátíð og farsæld á komandi ári!
Ritstjórn Frítímans

Forvarnir í félagsmiðstöðvastarfi

magnus_gudmundsson_tomstundafraedingurLeiksviðið er Fellahverfið og árið er 1994. Ungur drengur er áhugasamur á fundi félagsmiðstöðvaráðs Fellahellis sem er að ræða stórdansleik sem á að halda síðar í mánuðinum. Hann hlustar á aðra meðlimi ráðsins ræða um hvaða hljómsveitir séu mest móðins á þessum tímapunkti og hlýðir í hálfgerðri lotningu á starfsmann félagsmiðstöð-varinnar ræða um aðgerðaáætlanir. Allt þetta umstang er honum framandi og hann finnur hvernig ábyrgðar-tilfinningin veitir honum gleði. Hann hefur æft íþróttir í áratug en varla tekið neinum framförum en þarna finnst honum hann metinn að verðleikum og hans styrkleikar fá að njóta sín. Tækjagrúsk, plötusnúðafikt, heimspeki-legar vangaveltur, graffiti og viðburða-stjórnun eru þættir sem hann stundar af alúð í Fellahelli og með hverju verkefninu þá þróar hann með sér nýja færni. Reynslunám er að eiga sér stað í gegnum óformlegar námsleiðir og það allt án þess að hann átti sig á nokkru. Þarna öðlast hann grunn að dýrmætri færni í gegnum handleiðslu fagmanna sem starfa í félagsmiðstöðinni – færni sem síðar kveikir hjá honum áhuga til að hefja nám í tómstundafræðum og gera þau að ævistarfinu. Eftir að þessi rótgróna og sögufræga félagsmiðstöð lokar á kvöldin og starfsmenn Fellahellis halda til síns heima þá mælir hann götur Fellahverfis næstu þrjú árin með tugum ef ekki hundruðum annarra ungmenna úr þessu hverfi sem hafði á sér ógæfustimpil. Leiksviðið er líflegt og þar gilda oft önnur lögmál en samfélagið samþykkir. Lögreglan er með aðsetur í hverfinu og dyrnar á lögreglustöðinni eru ávallt opnar fyrir forvitinn æskulýðinn. Neysla ungs fólks hefur verið vandamál og fjölmiðlar keppast við að mála Breiðholtið í vandræðalit og sögur af hinni alræmdu Landalöggu birtast á forsíðum dagblaða reglulega. Þegar þessi ævintýragjarni ungi maður, sem er ég, lítur til baka og ígrundar unglingsárin sín og hvað þátttaka í opnu félagsmiðstöðvastarfi gerði fyrir hann þá sækir á hann forvitni. Forvitnina ákveður hann að festa á blað og senda frá sér þessar vangaveltur.

Það sem mig fyrst langaði að vita var hversu alvarleg og algeng neysla ungmenna var á þeim tíma sem ég ólst upp og hvort sú mynd sem fjölmiðlar máluðu hafi verið réttmæt. Einnig langaði mig að rýna í hvernig staðan væri í dag. Frá því að ég var að ala manninn þá hefur verið unnið markvisst með forvarnastarf og skyldi það starf hafa borið árangur? Fjölmiðlar hafa stundum fjallað um alvarleika ýmissa brota sem unglingar fremja og margir sem ekki þekkja vel til halda án efa að á Íslandi sé stór partur ungmenna sem sé stórlega vafasamur.

Hvað skyldu rannsóknir sýna um unglingamenninguna á Íslandi? Eins og allir starfsmenn í æskulýðsstarfi vita þá hefur neysla ungmenna á tóbaki, áfengi og vímuefnum verið skoðuð reglulega síðan 1997. Bendi ég á rannsóknina „Vímuefnaneysla unglinga í efstu bekkjum grunnskóla“ sem allir geta kynnt sér á vef Rannsókna og greiningar (http://www.rannsoknir.is). Þar kemur fram að árið 1997 hafi 61% nemenda í 10.bekk prufað að reykja sígarettu en árið 2012 var það hlutfall komið niður í 21%. Daglegar reykingar sama árgangs hafa lækkað úr 21% í 3%. Rannsóknin sýnir vel þróun áfengisdrykkju unglinga. Svona lítur hún út: grein-afengi

(Rannsóknir og greining, 2012:19)

Þegar maður skoðar þróun kannabisneyslu ungmenna þá birtast manni þessar tölur:

grein-kannabis

(Rannsókn og greining, 2012:21)

Það er því ljóst að gríðarlegur árangur hefur náðst í forvarnastarfi á Íslandi. Það er oft sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Menntastofnanir og jafnvel kirkjan hefur í aldanna rás komið að uppeldi barna með beinum hætti í gegnum formlegar kennsluaðferðir. Um miðja síðustu öld kom Æskulýðsráð Reykjavíkur (ÆR) upp tómstundaheimili að Lindargötu (Árni Guðmundsson, 2007:62) og með því hófst blómleg saga félagsmiðstöðva í höfuðborg Íslendinga. Þessar félagsmiðstöðvar hafa vaxið og dafnað á þessarri rúmu hálfu öld og fagmennska starfsmanna einnig. Þær léku stórt hlutverk í forvarnastarfi fyrir unglinga þegar ég var unglingur og gera enn. Þær eru vettvangur óformlegrar menntunar sem þátttakendur starfsins öðlast í gegnum leik og starf. Allt þeirra starf er litað af beinum og óbeinum forvörnum um málefni líðandi stundar og fylgjast starfsmenn þeirra vel með tíðarandanum hverju sinni. Þegar ný vá steðjar að þá keppast þeir við að skapa umræður og hvetja notendur sína til að taka upplýsta ákvörðun í áttina að beinu brautinni. Starfsmenn félagsmiðstöðva starfa náið með öðru fagfólki sem kemur að uppeldi barna í gegnum þverfagleg teymi. Þessi þverfaglega vinna hefur borið árangur í forvarnarmálum á Íslandi. Kennarar, foreldrar, þjálfarar, lögreglan, starfsmenn þjónustumiðstöðva, aðrir fagmenn og starfsfólk í félagsmiðstöðvum geta klappað sér á bakið og verið stolt af árangrinum.

Starfsmenn Fellahellis, þau Linda Udengaard, Eygló Rúnarsdóttir, Agnar Arnþórsson, Hafsteinn Hrafn Grétarsson, Helgi Eiríksson og Arna Kristjánsdóttir, áttu öll markvisst inngrip í mitt líf á mínum róstusömu unglingsárum og voru mínar fyrirmyndir. Þau öll starfa enn í æskulýðsstarfi með ólíkum hætti og hafa snert við lífi margra. Þegar ég var forvitinn um andfélagslega hluti og þreifaði fyrir mér í rangar áttir þá átti ég heimahöfn í minni félagsmiðstöð. Þar gat ég sest niður og rætt við þessa starfsmenn og fengið ráðgjöf og hvatningu. Ég einsetti mér sem ungur maður að verða eins og þau þegar ég yrði stór og lifi enn í draumnum. Félagsmiðstöðvastarfsfólk á Íslandi – verum stolt af þætti okkar í forvarnarmálum og höldum áfram baráttunni.

Magnús Sigurjón Guðmundsson

Tómstundafræðingur

Áhrif félagsmiðstöðvastarfsmanna á einstaklinga

1082717_10151772202789860_1648688873_n

Unglingsárin eru það æviskeið þar sem einstaklingur tekst á við að móta sjálfsmynd sína. Það er margt sem hefur áhrif á sjálfsmynd fólks en fyrirmyndir geta átt mikinn þátt í að móta einstakling. Starfsfólk félagsmiðstöðva er oftar en ekki miklar fyrirmyndir þeirra unglinga sem sækja félagsmiðstöðvar reglulega og taka virkan þátt í starfinu. Viðhorf til félagsmiðstöðva hefur breyst mikið á undanförnum árum með tilkomu fagvitundar starfsmanna og jákvæðrar upplifunar einstaklinga af félagsmiðstöðinni.

Öll fæðumst við sem lítil krúttleg börn. Við vöxum og döfnum og verðum að áhugaverðum fullorðnum einstaklingum. Við lærum margt á þroskaferlinu sem við nýtum okkur í daglegu lífi t.d. lærum við að ganga, sýna væntumþykju, gera skattskýrslu, skilja kaldhæðni og bera virðingu fyrir öðrum. Þessi dæmi eru einungis brotabrot af því sem við tileinkum okkur á lífsleiðinni.

Unglingsárin eru það æviskeið sem mótar einstaklinginn hvað mest. Hann tekst á við miklar breytingar, bæði útlitslegar og andlegar. Vitsmunaþroski unglingsins eykst og fer hann að finna fyrir auknum kröfum frá samfélaginu. Eitt helsta verkefnið er að takast á við sjálfsmynd sína, skilgreina sig og aðgreina frá öðrum. Hann fer í raun að móta þær hugmyndir sem hann hefur um sjálfan sig. Þeir unglingar sem hafa sterka og örugga sjálfsmynd eru betur í stakk búnir til að takast á við lífið.

Félagsmiðstöðvar eru afar góður vettvangur fyrir unglinga til að efla félagsfærni, framkomu, samskiptafærni og að styrkja sjálfsmyndina. Hlutverk og tilgangur félagsmiðstöðva er í grófum dráttum að veita unglingum fjölbreytt frítímastarf samhliða því að vera vettvangur til að stunda heilbrigða tómstund með jafnöldrum sínum. Einstaklingum gefst færi á að styrkja sjálfsmynd sína, tilheyra jafningjahópi og geta þar af leiðandi borið hugmyndir sínar og gildi saman við aðra unglinga. Félagsmiðstöðvar eru svo miklu meira en bara að spila borðtennis eða billjard. Eitt helsta hlutverk félagsmiðstöðva er að efla og þroska unglinginn á jákvæðan og uppbyggilegan hátt og gera þá að hæfari einstaklingum til að geta tekist á við verkefni framtíðarinnar.

Viðhorf almennings til félagsmiðstöðva hefur breyst töluvert frá því að þær voru fyrst stofnaðar hér á landi. Það er ekki það langt síðan unglingar reyktu á opnunum félagsmiðstöðva og jafnvel starfsmennirnir með þeim. Styttra er síðan það var í lagi að mæta undir áhrifum áfengis á böll á vegum félagsmiðstöðvarinnar. Þetta er sem betur fer liðin tíð. Það var stuttu eftir árið 1990 sem vitundavakning varð í þjóðfélaginu gagnvar reykingum og farið var að vinna markvisst að forvarnarstarfi.  Nú til dags er forvarnarstarf ein af undirstöðum félagsmiðstöðvastarfs hér á landi. Viðhorf til starfsmanna félagsmiðstöðva tel ég að hafi líka breyst. Nú til dags er t.d. hægt að læra tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands. Maður fer ekki þangað til að læra að spila borðtennis heldur lærir maður að sinna faglegu starfi tómstundanna. Megin ástæðu viðhorfsbreytinga til félagsmiðstöðva tel ég vera að fleiri einstaklingar hafa verið virkir þáttakendur í  því faglega félagsmiðstöðvastarfi sem nú er unnið. Það hafa fleiri einstaklingar jákvæða upplifun af félagsmiðstöðvum og þekkingu á því faglega starfi sem þar fer fram. Það er ekki hægt að segja að félagsmiðstöð nýtist öllum á sama hátt. Hún getur verið mis mikilvæg einstaklingum. Hún getur hreinlega bjargað sumum en styrkt aðra.

Þegar ég var yngri var ég mjög virkur í félagsmiðstöðvastarfinu í mínu hverfi. Ég átti ekki auðvelt með að læra í skólanum. Mér gafst ekki færi á því að blómstra í skólanum, allavegana ekki í tímum. Í félagsmiðstöðinni gafst mér tækifæri á að læra og að blómstra. Þar gat ég lært á þann hátt sem ég á auðveldast með að læra. læra með því að gera hluti, og læra af mistökunum. Þó svo að ég gerði mér ekki grein fyrir því þá, þá lærði ég mikið í mannlegum samskiptum og ég fékk tækifæri til að njóta mín sem einstaklingur. Ég sat í stjórn nemendaráðsins og lærði mikið. Ég lærði að bera virðingu fyrir skoðunum annara, að hlusta og fyrst og fremst að koma skoðunum mínum á framfæri. Ég eignaðist vini og var partur af hópi sem vann að því að hafa félagslífið skemmtilegt í skólanum. En það dýrmætasta sem félagsmiðstöðin gaf mér, var sjálfstraust. Tel ég starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar hafa átt þátt í því. Þau hvöttu mann áfram til þátttöku í ýmsum uppákomum og byggðu upp sjálfstraust mitt, meðvitað og jafnvel ómeðvitað.Ég sótti mikið í starfsfólkið og að fá viðurkenningu á því sem ég gerði í þágu félagsmiðstöðvarinnar og það að vera metinn að verðleikum. Starfsmenn félagsmiðstöðvarinnar voru mér fyrirmyndir. Þau hlustuðu á mig, sögðu mér sögur, gáfu mér ráð og gáfu mér færi á að blómstra. Ég mætti ekki bara í félagsmiðstöðina til að spila bortennis eða spila pool enda eru sjaldnast veraldlegir hlutir sem fá unglinga til að mæta í félagsmiðstöðina heldur sækja þau í samveru stundir með jafnöldrum og starfsfólki. Það að vera innan um fullorðið starfsfólk sem talar við mann sem jafningja skiptir máli. Það að geta leitað til starfsmanns sem hlustar og skilur mann er dýrmætt á unglingárunum.

Hlutverk starfsmanna í félagsmiðstöðvum er mjög mikilvægur partur af félagsmiðstöðvastarfinu. Er það mun meira en bara að opna húsnæðið og spila borðtennis með ungingunum. Fjölbreyttur starfsmannahópur ætti að geta höfðað til breiðari hóps unglinga. Staðreyndin er sú að ákveðnir starfsmenn ná betur til einstakra skjólstæðinga. Unglingar líta upp til vissra starfsmanna og eru þeir oftar en ekki miklar fyrirmyndir fyrir viðkomandi einstaklinga. Þeir hafa þar af leiðandi meiri áhrif á hegðun þeirra einstaklinga en þeir gera sér grein fyrir. Starfsmenn félagsmiðstöðva vinna að því að þjálfa samskipta- og félagsfærni einstaklinga sem sækja félagsmiðstöðina ásamt því að hvetja þá á jákvæðan hátt við mótun sjálfsmyndarinnar og hafa þannig jákvæð áhrif á hegðun þeirra og sálfræðilega velferð.  Þrátt fyrir að starfið gangi útá það að vera skjólstæðingum sínum innan handar í félagsmiðstöðinni, leiðbeina þeim, örva og virkja, þá mega starfsmenn ekki gleyma því að þeir eru einnig fyrirmyndir sem unglingarnir líta upp til.

Rannsóknir sýna að þeir einstaklingar sem eru fyrirmyndir barna móta hegðun þeirra og því er mikilvægt að starfsmaður sé meðvitaður um hlutverk sitt sem fyrirmynd, bæði í vinnu sem og utan hennar. Unglingar sem sjá heilsteyptan einstakling sem vinnur í félagsmiðstöðinni, er félagi þeirra og talar við þá sem jafningja, er vís til að líta upp til hans. Starfsmaður verður að hugsa um að þrátt fyrir að starfsdeginum sé lokið og hann búinn að stimpla sig út, getur hann ekki tendrað sér í sígarettu og reykspólað úr bílastæðinu og skilið unglingana eftir í reykjamökknum. Hann er starfsmaður félagsmiðstöðvar og verður að vera meðvitaður um það.

Öll munum við eftir fyrirmyndum og einstaklingum sem við litum upp til á okkar yngri árum.  Í sumum tilfellum voru það systkini eða fjölskyldumeðlimur en í öðrum tilfellum kennari eða kannski starfsmaður félagsmiðstöðvarinnar. Starfsfólk félagsmiðstöðva getur því markað djúp spor í uppvaxtarár einstaklings og er því gott starfsfólk félagsmiðstöðva undirstaðan í góðu félagsmiðstöðvastarfi.

 

 

Bjarki Sigurjónsson

Tómstunda- og félagsmálafræðingur

„Mig langaði í raun að leggjast í dvala og sofna þangað til þetta væri allt búið“

ÞórunnÞórunn Þórsdóttir 22 ára nemi í félagsráðgjöf var lögð í einelti í rúmt ár á unglingsárunum sínum. Eineltið átti sér stað á netinu, í skólanum og á heimili gerandanna sem voru þáverandi þrjár bestu vinkonur hennar. Eineltið byrjaði þegar hún var 13 ára gömul. Þórunn var hlédræg og viðkvæm á þessum árum og þar af leiðandi auðvelt skotmark fyrir einelti eins og hún orðar það sjálf. ” Hún talar um að þetta sé eins og með rándýrin, þau velja auðveldustu bráðina til að ráðast á.” Vanlíðanina faldi hún í tæpt ár þar til móðir hennar áttaði sig á hvað væri í gangi. Skólinn brást ótrúlega vel við og félagsmiðstöðin bjargaði lífi hennar.

Hvenær byrjaði eineltið og hvernig lýsti það sér?

Eineltið byrjaði um fermingaaldurinn, ég var þrettán ára. Eineltið átti sér stað á netinu, í skólanum og heima hjá “vinkonum” mínum. Ég man sérstaklega eftir löngum texta sem mátti finna í nafnlausu kommenti á síðunni minni, þar stóð sem dæmi: þú ert ógeðsleg, hóra, aumingi, viðbjóðsleg manneskja. Enginn vill þig, enginn vill eiga þig sem vin, þú átt aldrei eftir að eignast kærasta. Ég væri ógeðsleg, ég ætti ekkert gott skilið, að ég væri spikfeit (þegar ég var alltof grönn), tussa, lessa og margt fleira.
Gerendurnir voru þáverandi þrjár bestu vinkonur mínar, það var ótrúlega sárt. Þetta var ekki bara einhver í skólanum, þetta voru þrjár bestu vinkonur mínar. Þær voru ótrúlega lúmskar og þar af leiðandi tók enginn eftir eineltinu. Þær létu mig trúa því að ég væri einskis verð.
Eineltið hafði mikil áhrif á mig, ég horaðist niður og oft missti ég matarlystina. Þegar ég fór heim úr skólanum sem kom oft fyrir, fór ég inn í herbergi og ég grét lengi. Ég laug alltaf til um að ég væri með mikinn hausverk. T.d. var ein virkilega leiðinleg við mig einn daginn, hún var búin að vera að atast í mér og stríða mér allann daginn í frímínútum og svo hélt hún áfram þegar við komum inn í tíma. Ég lét mig hafa það en svo gat ég ekki meir. Ég fór til kennarans og sagði að ég þyrfti að fara heim vegna þess að ég væri með svo mikinn hausverk, það var ekkert mál. Ég labbaði út og fór að skápnum mínum. Þá kom ein “vinkona” mín sem var búin að vera leiðinleg við mig allan daginn og sagði er ekki allt í lagi elsku Þórunn og knúsaði mig, hún var svo fölsk. Einu sinni hengdu þær upp mynd af mér hér og þar í skólanum þar sem ég var grátandi og á myndinni stóð “Þórunn grenjuskjóða”.
Þær létu mér líða það illa að ég sagði einu sinni við mömmu að mig langaði í raun að leggjast í dvala og sofna þangað til þetta væri allt búið, mér fannst allt svo vonlaust, eins og ekkert myndi lagast og verða betra. Ég hélt að líf mitt yrði alltaf ömurlegt og að mér myndi aldrei líða vel aftur.

Hvað viðgegst eineltið lengi?
Eineltið stóð yfir í 1 ár, eitthvað um það. Ég faldi eineltið fyrir öðrum allan þennan tíma. Þetta er stundum svona blörrað fyrir mér. Ég var rosa góð í að fela þetta og þær líka, gerendurnir. Svo kom sá dagur að móðir mín uppgötvaði eineltið og þá gat ég ekki falið það lengur.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að segja frá eineltinu?
Mamma hafði oft haft áhyggjur af því að ég yrði lögð í einelti af því ég var svo viðkvæm og átti svo erfitt með að svara fyrir mig. Ég var með mígreni á þessum tíma og ég notaði það mikið sem afsökun til að sleppa heim úr skólanum. Á tímabili fór ég allavegana þrisvar til fjóru sinnum heim úr skólanum á viku. Mamma spurði mig oft hvort að það væri ekki allt í lagi í skólanum og ég svaraði því alltaf játandi að það væri allt í lagi. Ég setti upp grímu, var alltaf hress í skólanum, hló og var brosandi þótt að ég gréti inn í mér. Mamma mín fór einn daginn á foreldrafund með litla bróður minn og fékk bækling um einelti. Hún las bæklinginn og áttaði sig þá á að það var eitthvað mikið að. Sama kvöld kom hún til mín áður en ég fór að sofa. Hún marg spurði mig hvort það væri ekki allt í lagi og hvort það væri einhver vondur við mig og að lokum brotnaði ég saman, missti mig og sagði mömmu allt. Ég marg bað hana um að segja ekki neinum frá þessu vegna þess að ég óttaðist að eineltið yrði þá enþá verra en hún tók það ekki í mál.

Hvernig var brugðist við?
Strax daginn eftir hringdi mamma í umsjónakennarann minn og sagði honum frá þessu. Þetta kom honum rosa mikið á óvart. Hann talaði við námsráðgjafann og ræddu þau hvernig best væri að taka á þessu máli. Þetta gerði mamma að mér óafvitandi. Mamma talaði einnig við skólastjórann og hann benti henni á að fara til lögreglunnar. Þetta var orðið það alvarlegt og ljótt, sérstaklega eineltið sem fram fór á netinu. Mér þótti vænt um hversu vel lögreglan tók í þetta. Þeir lögðu sig virkilega fram við að rekja IP tölurnar og komast að því hverjir stæðu á bakvið þessi nafnlausu skilaboð á heimasíðunni minni.

Í skólanum voru 10. bekkingar sem fylgdust með í frímínútum á vegum skólans. Skólastjórnendur töluðu við þá nemendur og gangaverðina og hvöttu þau til að fylgjast extra vel með mér og gerendunum í frímínútum. Það tók þau hálfan mánuð að sjá eineltið þrátt fyrir að það ætti sér stað á hverjum degi. Námsráðgjafinn hafði líka samband við þá sem sáu um unglingavinnuna og það var passsað uppá að ég lenti ekki með þessum “vinkonum” mínum í hóp og eins sá skólinn um að ég var ekki með þeim í bekk þegar ég byrjaði í 9. bekk.

Hvernig greip félagsmiðstöðin inn í?

Námsráðgjafinn talaði við félagsmiðstöðina og lét þau vita af mér og upplýsti þau um það einelti sem hafði átt sér stað.  Námsráðgjafinn talaði einnig við mömmu um að það væri tilvalið fyrir mig að sækjast eftir að fá að taka þátt í félagsmiðstöðvastarfinu í  9. bekk. Um haustið fór ég því að sækja félagsmiðstöðina ásamt einni vinkonu minni sem hafði ekki tekið þátt í eineltinu. Það var rosa mikil aðsókn í félagsmiðstöðina og ég varð ótrúlega ánægð og stolt þegar ég fékk að vera með í nefnd.
Ég kveið oft gífurlega fyrir því að fara í frímínútur og hádegishlé þegar ég var í 8. bekk en eftir að ég fór að taka virkan þátt í félagsmiðstöðinni fór ég alltaf þangað í frímínútum og oft í hádegishléunum og hitti krakkana þar. Mér fannst frábært að félagsmiðstöðin var alltaf opin og maður var alltaf velkominn, maður gat komið þangað hvenær sem var, það voru alltaf einhverjir þarna.
Ég var alltaf pínu smeyk við þessa konu sem var yfir félagsmiðstöðinni. Hún var alltaf svo ákveðin við mig og ég svo viðkvæm. Eftirá að hyggja var hún náttúrulega bara að stappa í mig stálinu og láta mig vera sterka og sjálfstæða. Í félagsmiðstöðinni var ég látin hringja og bóka skemmtikrafta, ég var kynnir á einni skemmtun. Ég var alltaf hvött áfram. Það hjálpaði mér alveg rosalega mikið. Í félagsmiðstöðinni fékk maður líka að heyra: þú ert frábær og stendur þig vel. Þarna fór ég líka að kynnast fleiri krökkum. Þar kynntist ég einni stelpu mjög vel og varð þar af leiðandi hluti að tíu manna vinkonuhópi og við erum allar góðar vinkonur í dag.

Ég vissi það ekki fyrr en eftir að ég útskrifaðist að ég hafði verið hvött til að fara í félagsmiðstöðina útaf eineltinu og að félagsmiðstöðin vissi af eineltinu.
Skólinn og félagsmiðstöðin tóku svo ótrúlega vel á þessu. Ég væri klárlega ekki sú mannsekja sem ég er í dag hefði ég ekki farið að sækja félagsmiðstöðina.  Þar lærði ég að vera opin og ákveðin. Ég get bara sagt það að félagsmiðstöðin bjargaði lífi mínu, það er bara þannig.

Hefur eineltið haft mikil áhrif á þig?
Ég hef rosa mikið blokkað út fá þessum tíma þegar eineltið átti sér stað.  Ég er enþá að vinna úr þessari lífsreynslu en með yndislegri fjölskyldu sem stóð við bak mitt eins og klettur og með mikilli hjálp komst ég í gegnum þetta. Einnig verð ég að nefna hvað ég er feginn að móðir mín lét vita af þessu því ef hún hefði ekki gert það veit ég ekki hvar ég væri í dag. Ég fæ stundum hnút í maga
nn og verð reið þegar ég hugsa um þetta og þá vonsku sem var til í þeim, þessum þremur sem voru bestu vinkonur mína. Fyrst tókst þeim að brjóta mig niður, en síðan ákvað ég að gera þeim það ekki til geðs. Ég komst í gegnum eineltið og það sýnir sig og hefur sannað að með því að hafa trú á sjálfan sig getur maður allt. Ég fékk mér tattoo seinasta sumar til þess að minna mig á að ég er sterk og komst í gegnum þessa lífreynslu. Ef ég verð leið eða mér líður illa horfi ég á tattoo-ið og minni sjálfa mig á að fyrst ég komst í gegnum þetta kemst ég í gegnum allt. Tattoo-ið er orðið Styrkur. Ég er ótrúlega opin í dag og á félagsmiðstöðin stóran þátt í því. Í dag er ég hamingjusöm, jákvæð, ákveðin og sterk og leyfi engum að komast upp með að gera lítið úr mér eða tala niður til mín. Ég á yndislegann kærasta, yndislega fjölskyldu og frábæra vini bæði í Garðabæ og HÍ. Aldrei í lífinu bjóst ég við að eiga þetta allt saman.

Skipulagt tómstundastarf gegn brottfalli úr framhaldsskólum

Ég rakst á þetta skemmtilega myndband um daginn og ég hvet ykkur í raun til að skoða myndbandið hér að neðan áður en þið lesið lengra.

Ég tengi sjálfur svo ótrúlega sterkt við þetta myndband og gæti það allt eins verið útbúið eftir minni leið í gegnum skólakerfið. Í grunnskóla var ég alltaf „til vandræða”, ég hafði engan áhuga á náminu og kennurum og starfsfólki skólans tókst engan veginn að kynda undir áhuga mínum á námsefninu. Þegar ég byrjaði í menntaskóla var ég nú lítið upp á kant við kennarana en ég píndi mig í gegnum tímana því innri áhuginn var enginn. Ég prófaði nokkra skóla, nokkrar námsbrautir en allt kom fyrir ekki og var ég farinn að halda að mér mundi aldrei takast að ljúka við nokkurt nám.

Það var svo fyrir tilviljun að ég byrjaði að starfa í félagsmiðstöðinni Selinu á Seltjarnarnesi í metnaðarfullu æskulýðsstarfi að ég fann eitthvað sem kveikti innri áhuga hjá mér. Mig langaði til að verða besti starfsmaður í félagsmiðstöð sem ég gæti orðið og fór ég að fylgjast með öllu sem reyndara starfsfólkið gerði. Ég fór að stúdera mannleg samskipti út í hið óendanlega og lesa bækur um æskulýðsstarf. Þetta varð til þess að ég sótti um í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands og lýk ég námi mínu þar núna 22. júní með fyrstu einkunn.

Ég veit ekki hversu oft ég hef sagt þessa sögu enda tengja svo margir við hana. Það er nefnilega alveg magnað hvað menningin hér á landi er sú að allir eiga að keyra í gegnum skólakerfið án þess að vita hvert þeir stefna. Klára bóklegt nám fyrst og finna svo útúr því hvað maður vill gera við líf sitt. Þrátt fyrir að kennarar og þeir sem standa að skólakerfinu viti að kerfið er að mörgu leiti úrelt þá virðist samt sem lítið breytist. Þessi vanhæfni skólanna til að mæta þörfum nemenda sinna hefur orðið til þess að aðeins 45% nemenda í framhaldsskóla ljúka stúdentsprófi á 4 árum (Hagstofa Íslands, 2011).

Munurinn á „lélegum” nemendum og „góðum” er oftar en ekki skortur á innri hvatningu.Hér kemur skipulagt tómstundastarf sterkt inn. Ég er ekki að halda því fram að allir sem hætta í framhaldsskóla eiga að byrja að vinna í félagsmiðstöðvum (þó það væri nú ekki svo vitlaust). Það sem við þurfum hins vegar að gera er að mæta aldurshópnum 16-20 ára með skipulögðu tómstundastarfi og með stað í samfélaginu þar sem þau eru velkomin, geta prófað sig áfram og fundið sinn innri hvata. Ungmennahús eru frábær dæmi um skipulagt tómstundastarf fyrir aldurshópinn 16 ára og eldri. Í vel starfandi ungmennahúsi hafa ungmenni samkomustað, tækifæri til að taka þátt í spennandi verkefnum og að læra nýja hluti. Þau geta sjálf haft frumkvæði af verkefnum og valið þau út frá eigin áhugasviði. Það er einmitt við slíkar aðstæður þar sem einstaklingurinn fær að sýna sjálfstæði, tilheyra hópi og auka hæfni sína að innri hvati kviknar (Reeve, 2009). Ungmennið sem sá um bókhaldið á styrktartónleikunum finnur tilganginn með stærðfræðinni á meðan tæknimaðurinn fer í rafvirkjann, ungmennið sem tók þátt í norræna ungmennaskiptaverkefninu velur sér aukaáfangann í dönsku því hann veit hvað erlend tungumál eru mikilvæg og ungmennið sem gerðist sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum sperrir eyrun í félagsfræðinni og sálfræðinni með þá von að geta einn daginn hjálpað bágt stöddum einstaklingum í framtíðinni.

 

Heimildir:

Hagstofa Íslands. (2011, 3. maí). Brautskráningarhlutfall og brottfall á framhaldsskólastigi. Sótt 9. júní 2013 af http://www.hagstofa.is/?PageID=95&NewsID=5981.

Reeve, J. (2009). Understanding motivation and emotion. Hoboken, NJ: John Wiley & Sons.