Hvað verður til þess að unglingar missa tökin á tilverunni og fara að stunda áhættuhegðun ? Hvað er það sem ýtir undir það að unglingar vilji prófa fíkniefni, eru það fjölskylduaðstæður, hópþrýstingur, neikvæð líðan, lélegar forvarnir? Ég hef oft velt þessu fyrir mér vegna þess að ég hef þekkt til margra sem hafa ánetjast fíkniefnum og tekið ranga beygju í lífinu.
Það er einhver hluti unglinga sem eru á jaðrinum, eiga oft erfitt með að tengjast fólki og eignast vini, tjá sig ekki í skólanum og taka ekki þátt í félagslífi. Þessum unglingum líður oft illa og vita ekki hvernig á að vinna úr tilfinningum, þá leita þau oft í eitthvað til þess að flýja raunveruleikann til dæmis í tölvuleiki eða fíkniefni. Þeir þurfa aðstoð til að komast á rétt ról, hvort sem það er frá námsráðgjafa, skólasálfræðingi eða leiðbeinanda í félagsmiðstöð. Ef að skólasálfræðingar væru aðgengilegri væri kannski hægt að minnka vanlíðan unglinga. Hlutverk leiðbeinanda í félagsmiðstöð væri að virkja þá inn í félagsmiðstöðina eða aðstoða þá við að finna áhugamál eða tómstund við hæfi vegna þess að tómstundir eiga oft þátt í að bjarga unglingum frá neyslu áfengis og vímuefna.
Forvarnir gegn fíkniefnum byrja í 8. bekk í grunnskóla, en mér finnst að forvarnir mættu byrja fyrr, það hefur oft heyrst af krökkum sem hafa byrjað að fikta við það að drekka áfengi og reykja í 6. og 7. bekk. Eina fræðslan sem er mér eftirminnileg er Marita fræðslan sem við fengum í 9. eða 10. bekk og er hún mér eftirminnileg vegna þess að hún var sögð út frá sjónarhorni manns sem er óvirkur fíkill, en ég get ekki sagt að hún hafi verið mikil forvörn.
Glærusýning sem segir, “Reykingar drepa þig, áfengi gerir þig að alhólista og dóp skemmir í þér heilann”, þau orð eru ekki mikil forvörn fyrir unglinga og gera ekki mikið gagn heldur. Hitt húsið er með jafningjafræðslu og mér finnst það mjög góð leið til þess að ná til unglinga, allavega þegar ég var unglingur hefði ég miklu frekar hlustað á hóp af fólki á mínum aldri heldur en einhvern fullorðinn. Forvarnarefnið gætu verið reynslusögur fyrrverandi fíkla, leikræn tjáning og ýmis verkefni. Einnig finnst mér þörf á því að fá fleiri kynningar á tómstundum inn í skólana, ekki bara þessar hefðbundnu eins og fótbolta. Ég held að það gæti verið góð forvörn.
Margar rannsóknir hafa sýnt að neysla fíkniefna leiðir oft út í eða ýtir undir hina ýmsu geðsjúkdóma. Með komu internetsins hefur kvíði og þunglyndi meðal unglinga aukist og þess vegna finnst mér afar mikilvægt að fræða unglinga um geðsjúkdóma og að fíkniefni geti ýtt undir þá. Þótt geðsjúkdómar greinist ekki strax á unglingsárum þá geta þeir komið í ljós seinna á lífsleiðinni, sem er mjög algengt hjá fólki sem hafa reykt kannabis lengi.
Oft eru það heimilisaðstæður sem spila inn í að unglingar leiðast út í neyslu til dæmis ef það eru engar reglur á heimilinu og unglingurinn ræður sér mikið sjálfur. Það eru skiptar skoðanir um það hvort að börn fíkla forðist fíkniefni heldur en að prufa þau, vegna þess að oft er sagt að það sé í genunum að verða háður þeim. En það er auðvitað mismunandi eftir einstaklingum. Sumir unglingar hafa gott bakland sem grípur unglinginn þegar hann er að fara út af sporinu en aðrir hafa ekkert bakland til dæmis foreldra sem vinna mikið og eru aldrei heima eða foreldra sem eru sjálfir í neyslu eða glíma við andleg veikindi. Einnig stunda sumir unglingar tómstundir eða mæta reglulega í félagsmiðstöðina og þar fá þeir það bakland sem þeir hafa ekki heima við.
Oft hefur verið talað um að hópþrýstingur valdi því að unglingur byrjar að drekka og reykja. Unglingar eiga það oft til að hafa lítið sjálfstraust og vera feimnir og þá finnst þeim oft góð leið að drekka til þess að þora að koma út úr skelinni. Einnig finnst sumum unglingum mjög töff að byrja að reykja kannabis og verða síðan háðir og leiðast út í harðari efni.
Mín skoðun er að fræðslan þurfi að vera fjölbreyttari, til dæmis jafningjafræðsla eða fleiri kynningar á tómstundum inn í skólana. Þótt ein fræðsla virki fyrir ákveðin hóp unglinga þá þýðir það ekki að nákvæmlega sama fræðsla henti fyrir annan hóp. Öll augu þurfa að vera opin og stundum er hægt að grípa inn í með sálfræðiaðstoð eða aðstoð ráðgjafa í skóla áður en unglingurinn verður langt leiddur, en allir þurfa að vera meðvitaðir um hvern og einn einstakling.
—
Auður Björg Jónheiðardóttir, nemandi í tómstunda-og félagsmálafræði við Háskóla Íslands