Að koma félagi á framfæri

guðrún dísHér í Reykjanesbæ er lítill hópur um það bil sjö ungmenna sem er í félagi sem heitir Núll prósent. Núll prósent er hópur ungra einstaklinga á aldrinum 14-30 ára sem vilja koma saman og skemmta sér án nokkurra vímuefna.   Núll prósent hefur gert marga skemmtilega og áhugaverða hluti saman, þar á meðal haft spilakvöld, bíó, skautaferðir og fleira. Svo fara þau líka til útlanda eins og til Rúmeníu í sumarbúðir og á þing samtakanna, til Svíþjóðar og Noregs til að fara á námskeið sem eru bæði af skemmtilegum toga og fræðilegum. Þetta gera þau allt með styrkjum frá IOGT og regnhlífarsamtökum til að gera námskeið og með eigin fjáröflunum á ýmsum verkefnum en einnig eiga einkafyrirtæki það til að styrkja starfið líka.

Hópurinn býður alla á þessu aldursbili velkomna  að ganga í félagið þar sem allir eru vinir og halda þétt saman í því samfélagi þar sem mörgum blöskrar svo neysla á hverju horni.  Félagið hefur það að reglu að það eru engir fordómar og allir eru tilbúnir að hjálpa fólki sem vil hætta að drekka og byrja að mæta í félagið. Núna nýlega hefur hópurinn gert forvarnarmyndband um vímuefni og helstu ástæður þess að enginn ætti  að byrja að nota vímuefni.  Myndbandið sýnir um hvað klúbburinn snýst og hversu skemmtilegur hann er í raun. Nú vill þessi litli hópur stækka við sig og ákvað að nýta sér þetta frábæra myndband til þess. Það var ákveðið að senda tölvupóst á alla skólana á Suðurnesjum til þess að fá leyfi til að auglýsa félagið. Það voru engin viðbrögð, ekki einn einasti skóli svaraði.  Eru stjórnendur grunnskóla í dag svona uppteknir?  Þarna er félag sem fer með gott málefni sem gæti haft áhrif á félagsleg gildi meðal unglinga og er öllum opið.

Hvað þarf  svona lítill hópur að gera til þess að fá samfélagið til þess að taka eftir sér? Eru allir svona uppteknir við  að gagnrýna hlutina sem fara úrskeiðiðs og horfa á eftir börnum sem hafa farið út í neyslu? Það gleymist að líta á jákvæðu litlu hlutina sem eru greinilega að virka fyrir ungt fólk í dag.  Meðal annars þetta félag. Næsta skref hjá Núll prósent er að hafa samband við tómstunda- og félagmálafræðinginn Hafþór Birgisson til þess að leita eftir aðstoð  hans og þekkingu til þess að fá fólk til að taka eftir þessum litla félagi.

Hvað er það sem fær ungmenni að til þess að kynna sér hvað er í boði fyrir hvern og einn?  Ég vill trúa því að öflug kynning á starfsemi þeirra myndi koma þeim fljótt á framfæri en þá þarf félagið líka að fá tækifæri á því að komast að. Ekki veit ég til þess að í forvarnarstarfi grunnskólanna sé bent á hvað sé í boði fyrir þá unglinga sem ákveða að neyta ekki vímuefna eða þá að það er mjög lítil kynning á því sem fáir velja sér að sinna í tómstundum.

Ég vil hvetja grunnskólana til þess að kynna Núll prósent starfsemina eða bjóða félaginu að koma og kynna sig.  Á sama tíma vill ég einnig hvetja félagsmiðstöðvar til þess að fá Núll prósent til þess að koma og kynna sig, því Félagið Núll prósent er jú ávallt tilbúið að koma og hjálpa við að starta félaginu á fleiri stöðum.

Sýnum nú ungmennum áhuga og hjálpum þeim að kynna sig.

Guðrún Dís Hafsteinsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ og áhugamaður um Núll prósent