Það er kvíðavaldandi að vera unglingur í dag. Ég hugsa að það sé til fullt af eldra fólki sem hefur hreinlega blokkað út þann tíma í lífinu frá því þau voru unglingar. Þetta er kynslóð sem var alin upp við það að mega ekki tala þegar fullorðnir tala. Mér finnst það merkilegt að þó svo að þau væru sennilega ekki sammála því að vera þögguð niður þegar þau voru unglingar, grípa þau í að nota það sama á unglingana. Unglingar í dag eru hvattir til að tjá sig, þeim er kennt um lýðræði, þeim er sagt að þau eigi rödd þegar kemur að lýðræðislegri umræðu og þeim er kennt um réttindi sín samkvæmt barnasáttmálanum. En svo þegar þau segja sína skoðun eða benda á rétt sinn fá þau gagnrýni á það og sögð vera með hroka. Að fá svona misvísandi skilaboð við það eitt að tjá sig er kvíðavaldandi fyrir unglinga.
Það er eins og sumt eldra fólk hafi gleymt því hvernig það er að vera unglingur. Þeir halda því jafnan fram að unglingar séu að verða verri og erfiðari með tímanum og leyfa sér að skrifa um það á samfélagsmiðlum og kommentakerfum á netinu. Það jafnvel leyfir sér að segja það beint við unglingana. Að fá neikvæða strauma frá eldra fólki er ákveðin höfnun og það er kvíðavaldandi fyrir unglinga.
Unglingar í dag fá sennilega að upplifa meira af misvísandi skilaboðum en eldra fólk fékk áður fyrr. Því unga fólkið ber sig saman við alls konar staðalímyndir sem segja þeim hvernig þau eiga að líta út á samfélagsmiðlunum. Að fá svona misvísandi skilaboð á netinu er kvíðavaldandi fyrir unglinga.
En svo eru unglingar orðnir svo miklu klárari í dag út af internetinu. Þeir fá svo mikið af upplýsingum með bara einu ,,klikki”. Þeir hafa meiri tækifæri til að mynda sér skoðanir á hlutunum en unglingar gerðu áður fyrr. Það er í raun merkilegt að þau séu ekki farin að svara meira fyrir sig. Helsta muninn tel ég vera að rökhugsun þeirra er ekki búin að þroskast nógu mikið og þau bara trúa því sem stendur á netinu eins og heilögum sannleik. Að fá svona mikið af skilaboðum á internetinu ,,á núll einni” er kvíðavaldandi fyrir unglinga.
Ef það eru einhverjir sem ættu að skilja kvíða á unglingsárum og sýna unglingunum skilning, þá er það eldra fólk. Það hefur gengið í gegnum þetta áður, þó það hafi vissulega verið öðruvísi tími þá. Helsti munurinn á milli kynslóðanna tel ég vera að áður fyrr var verið að reyna að þagga niður í unglingum með líkamlegu ofbeldi eða hótun um ofbeldi. En núna er verið að gera það sama nema meira með niðurbroti og andlegu ofbeldi. Það er ofbeldi sem ekki er einu sinni hægt að flýja eða taka til baka, því það er mestmegnis á internetinu. En nú hefur auk þess bæst við að það er fullt af fólki úti í hinum stóra heimi sem er að skipta sér af unglingunum okkar, það reynir að hafa áhrif á þá, móta þá og er að brjóta á þeim, fólk sem þekkir þá ekki einu sinni. Ég tel það vera kvíðavaldandi að vera unglingur í dag.
—
Ingibjörg Jónsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði