Tómstundir auka lífsgæði fólks og hafa því jákvæð áhrif á einstakling ef hann sinnir frítíma sínum á uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Þegar kemur að tómstundum er mikilvægt að huga að öllum hópum. Tómstundir eru eitthvað sem maður á að sinna út alla ævi en ekki hætta við ungan aldur ef tómstundin er ánægjuleg.
Þegar maður er unglingur er maður að ganga í gegnum mikið þroskaferli á frekar stuttum tíma sem getur falið í sér margar vangaveltur um hvað maður vilji eyða tíma sínum í. Margir unglingar hætta að sinna tómstundastarfi þegar þau fara í menntaskóla eða eru á síðustu árum á unglingastigi í grunnskóla. Tómstundastarf er sérstaklega mikilvægt fyrir þennan aldurshóp og að halda í það sem maður er vanur að gera og jafnvel prófa nýja hluti. Rútína er sérstaklega mikilvæg á þessum aldri. Við það að hætta að stunda íþróttir verða oft miklar breytingar á lífsmynstri ungs fólks.
Eitthvað annað þarf að koma í staðinn fyrir þann tíma sem tómstundir tóku. Sumir unglingar eru þá í sérstökum áhættuhópi og gætu mögulega dottið í einhverskonar áhættuhegðun sem gæti haft mikil áhrif á þau ef þau hætta að sinna því sem þau hafa áhuga á. Þá er aukatími kominn inn og ekki þær skyldur sem fylgja tómstundinni að standa í vegi. Að stunda t.d íþróttir skapar vellíðan og því spurning hvaðan vellíðunartilfinningin kemur ef unglingur hættir að hreyfa sig eins mikið. Hjá sumum verður mikið rótleysi og það er ekki af hinu góða. Það er mikilvægt fyrir unglinga að sinna áfram því tómstundastarfi sem þau brenna fyrir og jafnvel þó að fólk minnki tímann í tómstundum er mikilvægt að hætta ekki. Að hreyfa sig hefur góð áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Það getur einnig fylgt því mikil ánægja að mæta og hitta vini sína sem maður er búinn að mynda góð tengsl við í gegnum tómstundina.
Ástæða fyrir því að unglingur hætta í tómstundum geta verið ýmsar og mismunandi eftir einstaklingum. Íþróttin getur verið orðin of mikið álag og keppnistengd og það getur fylgt því mikil pressa sem einstaklingar eru kannski ekki tilbúnir að takast á við ef þau vilja kannski halda áfram bara til að hafa gaman. Það geta ekki allir orðið afreksíþróttafólk og því er mikilvægt að ungu fólki gefist kostur á því að halda áfram að sinna iðkun þó að það sé ekki gert með keppni að endatakmarki. Því er mikilvægt að íþróttafélög séu með lið í boði sem eru fyrir áhugamenn en ekki bara fyrir atvinnufólk. Brottfall úr íþróttum hjá ungu fólki er mikið og ætti því að leggja meiri áherslu á að viðhalda hæfileikum, gleði og starfi alls fólks í íþróttum.
Mikilvægt er að fræða ungmenni um mikilvægi tómstunda og ánægjuna sem það veitir einstaklingnum. Tómstunda- og félagsmálafræðingar þurfa því að vera með opin augu til að geta hjálpað unglingum að hvetja þau til að halda áfram í því tómstundastarfi sem þau sinna og líka að finna mögulega staði þar sem þau geta iðkað sína íþrótt áfram, þó að það sé kannski ekki á keppnisstigi. Með því er hægt að fá hreyfingu, ánægju, vellíðan og viðhalda andlegri og líkamlegu hreysti.
—
Magdalena M. Höskuldsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði