Ásamt því að vera tómstunda- og félagsmálafræðinemi stunda ég nám í kynjafræði við Háskóla Íslands. Þessar tvær námsleiðir eru ólíkar en henta vel saman, kynjafræðin lyftir tómstunda- og félagsmálafræðinni á aðra hæð í takt við samfélag sem breytist ört og vex. Margir eru sammála um það að kynjafræði ætti að vera skyldufag í öllum námsleiðum háskólanna og víðar. Hvert sem maður fer tekur maður eftir feðraveldinu og á þetta vel við tómstundir. Allt frá því að kvenfólk í íþróttum fær minni verðlaunabikara og verri æfingatíma í hlutgervingu kvenna þegar kemur að klæðaburðareglum.
Styðjandi kvenleiki og kvenhlutverkin gefa til kynna það hlutverk sem konum er úthlutað fyrir það eitt að vera konur og styðjandi kvenleiki er það að sinna þessum hlutverkum án þess að setja spurningamerki við það. Styðjandi kvenleiki dreifir sér og hefur áhrif á tómstundir. Dæmi um þessi svonefndu hlutverk kvenna eru heimilishlutverkin, uppeldi og umönnun, passa inn í fegurðarstaðla samfélagsins og svo framvegis. Hegðun karla í samfélaginu hefur áhrif á kynjahlutverk því sambönd og samskipti fólks litar hvernig við högum okkur hvert við annað. Sem mótvægi við styðjandi kvenleika er mengandi kvenleiki. Það er það að menga og brjóta gegn þeim stöðlum sem settir eru fyrir konur. Menga þessa mynd sem samfélagið hefur af því hvað það er að vera kona. Staðalmyndir kvenna í tómstundum tengjast tækifærum sem öllum kynjum eru gefin, hindrunum og tímavörslu. Leiðbeinendur sem vinna í tómstundastörfum geta verið meðvitaðir um skaðsemi staðalmynda en á sama tíma ómeðvituð um eigin þátt í viðhaldi þeirra og hafa lítil úrræði til að spyrna gegn mótun þeirra og viðhaldi.
Í tómstundastarfi er mikilvægt að huga að því að horfa á skemmtiefni og hlusta á tónlist sem gera ekki lítið úr jaðarhópum og eru með sterkar kvenfyrirmyndir. Hinir vinsælu þættir Friends eru mjög umdeildir þegar kemur að þessu. Til að mynda koma þar oft fyrir kvenfyrirlítandi athugasemdir og aðeins er einn svartur karakter nafngreindur í öllum þáttunum. Það er mikilvægt að taka alltaf slaginn, að benda á það sem er rangt sagt eða gert. Það er auðvelt að sitja hjá þegar kemur að fordómum, mismunun eða bröndurum sem gera lítið úr einhverjum einstaklingi eða hópi fólks. Það er í okkar höndum að segja eitthvað og það hvetur aðra til að skilja og skapar þetta örugga rými.
Þegar unnið er með ungmennum þá eru leiðbeinendur fyrirmyndir og þurfa þar að setja gott fordæmi og bera virðingu fyrir öllum. Með því að skapa rými sem er sýnilega opið fyrir margbreytileika og stuðningi sköpum við umræðu og öryggi. Hægt er að hafa plaköt sem benda á hvert er hægt að leita ef brotið er á réttindum einhvers, eða um alla þá ráðgjöf sem er í boði, sem og önnur örugg rými fyrir jaðarhópa svo sem stuðningshópa. Einna mikilvægast er að vera óhrædd við það að brjóta reglur kynjakerfisins og ögra staðalmyndum. Það gerir þeim sem á eftir okkur koma enn auðveldara að brjóta þær. Það var ekki auðvelt fyrir Vigdísi Finnbogadóttur að mæta fyrst kvenkennara í buxum í kennslu, hún braut reglurnar og nú getum við allar mætt í buxum.
Allur vettvangur þar sem unnið er að tómstundum með unglingum þarf að rækta pólitískan áhuga unglinga og gefa feminískum ungmennum svigrúm til þess að taka þátt og vaxa. Það á að hvetja til mengandi kvenleika og passa að öll kyn hafi jafnt aðgengi að tómstundum.
—
Andrea Ósk Sigurbjörnsdóttir