Ég greindist með taugasjúkdóm þegar ég var einungis 8 mánaða og þekki þar með lítið annað heldur en að vera hreyfihamlaður. Eftir að ég byrjaði að læra Tómstunda- og félagsmálafræði í Háskóla Íslands þá hef ég velt mikið fyrir mér hversu mikilvægur frítími fyrir fatlaða einstaklinga er. Ég er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum og ef ég á að vera hreinskilinn var voða lítið í boði fyrir mig í frítíma mínum sem barn og unglingur sem ég hafði áhuga á. Eins og svo margir fór ég í tónlistarskóla en náði aldrei að festa mig á einu hljóðfæri heldur var allaf að skipta og skipta. Flestir vinir mínir æfðu fótbolta og handbolta og ég reyndi eins og ég gat að vera með en að sjálfsögðu kom að því ég gat ekki stundað íþróttir út frá minni fötlun. Það eina sem stóð eftir fyrir mig var boccia og æfði ég það í nokkur ár með Íþróttafélaginu Ægi.
Ég hef mikið velt fyrir mér hversu mikilvægur frítími er fyrir fatlaða einstaklinga. Nú er ég alls ekki að alhæfa en það eru margir sem eru það mikið hamlaðir að úrval tómstunda minnkar gífurlega mikið fyrir þá einstaklinga. Þar sem það verður erfiðara fyrir ákveðna einstaklinga að taka þátt þá verðum við sem samfélag að vera tilbúinn til þess að hjálpa ákveðnum hópum, en þá er stóra spurningin hvað getum vð gert? Eftir að hafa setið áfangann Inngang að tómstundafræðum á mínu fyrsta ári í skólanum þá fékk ég mikinn áhuga á tómstundamenntun. Hvernig getum við kennt einstaklingum að nýta frítíma sinn á sem besta hátt?
Þegar við fengum það sem lokaverkefni í áfanganum að búa til tómstundamenntunarnámskeið þá fóru augu mín virkilega að opnast fyrir þessu. Við fengum það verkefni að búa til þetta tiltekna námskeið fyrir ákveðinn markhóp sem við vildum stuðla að. Það lá beinast við fyrir mig að gera það fyrir fatlaða þar sem ég var í nákvæmlega sömu sporum sjálfur. Ég hefði allavega haft gott af því sérstaklega á unglingsárunum að geta sótt slíkt námskeið. Ég vissi ekkert hvað var í boði og átti mjög auðvelt með að fara bara heim og vera í tölvunni á meðan vinir mínir voru úti að gera ýmislegt sem ég hafði ekki líkamlega heilsu í gera vegna fötlunar minnar. Þar með er mín skoðun að við þurfum að koma tómstundamenntunarkennslu inn sem allra fyrst, hvernig sem það verður gert. Ég er jafnvel á þeirri skoðun að það þyrfti að koma því inn í kennslu í grunnskólum. Þá er ég ekki að tala um sérstakt fag sem heitir Tómstundamenntun heldur að vera með það undir fagi eins og Lífsleikni. Við verðum að kunna að nýta frítíma okkar á sem bestan hátt því hann hefur verið að aukast gífurlega. Ef vitnað er í rannsókn Weiskopf frá 1982 þá miðar hann ævina svona út frá meðalævi sem var þá 70 ára:
- 27 ár í frítíma
- 24 árum í svefn
- 7,33 árum í vinnu
- 4,33 árum í formlega menntun
- 2,33 árum í borða
- 5 árum í annað
(Weiskopf, 1982)
Þetta sýnir nokkuð augljóslega að við verðum að nota frítíma okkar vel og kunna að nota hann í jákvæðar tómstundir. Miðað við að þetta sé meðalævi hjá venjulegri manneskju þá geri ég ráð fyrir því að frítími hjá fötluðum einstakling sé mun meiri þar sem það er oft erfiðara að fá vinnu og skapast þar með aukinn frítími heldur en hjá flestum.
—
Gunnar Karl Haraldsson, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði
Weiskopf, D. C. (1982). Recreation and leisure: Improving the quality of life (2. útgáfa). Boston: Allyn and Bacon.