Ég hef verið að velta fyrir mér fyrirbæri sem í daglegu tali er kallað sköpun (e. creativity). Er sköpun hæfileiki? Hvað felur sköpun í sér og er það yfir höfuð eitthvað mikilvægt fyrirbæri? Í forvitni minni ákvað ég að fræða mig um þetta og rakst m.a. á bók sem ber heitið Out of Our minds eftir Sir Ken Robinson. Hver er Ken Robinson? Robinson er mikill frumkvöðull í menntamálum í dag. Hann er m.a. þekktur fyrir vinsælasta myndbandið á TED Do schools kill creativity sem hefur verið skoðað yfir 46 milljón sinnum. Þá hefur hann verið sæmdur bresku riddaraorðunni. Það voru hugmyndir hans um menntakerfið og sköpun sem heilluðu mig og gerðu það að verkum að ég keypti bókina hans síðar. Í þessum pistli langaði mig til þess að varpa ljósi á þá punkta sem mér fannst áhugaverðastir í bókinni hans.
Robinson tókst að svara mörgum af þeim spurningum sem ég hafði velt fyrir mér. Samkvæmt Robinson geta allir vera skapandi, það að vera skapandi er því meðfætt í eiginlegri merkingu og þá færni er hægt að þjálfa. Um bókina skrifar Robinson að þrjú meginþemu séu til staðar og eru þau eftirfarandi: Að við lifum á byltingarkenndum tímum, að við þurfum að hugsa öðruvísi um færni okkar og hæfileika og að við þurfum að reka skóla, fyrirtæki og samfélög öðruvísi.
Ef við getum hugsað um menntun sem gjaldmiðil fyrir störf að þá hefur virði hennar lækkað verulega. Að hugsa svona um menntun er ekki mjög rökrétt en samt sem áður er hún að miklu leyti hugsuð á þennan hátt í dag. Í kringum 1860 þegar almenn menntun var hönnuð var hún hönnuð með það í huga að þjálfa fólk í allskonar iðnaðartengdum störfum. Samfélagið hefur breyst mikið síðan þá en hlutverk menntunar hefur aftur á móti lítið breyst. Eftir því sem fleiri stúdentar útskrifast þeim mun færri fá vinnu. Þá hafa einnig verið áberandi kvartanir fyrirtækja sem snúast að því að fólk með háskólagráðu uppfylli ekki starfsskilyrðin. Þessu þarf að breyta.
Ken Robinson telur að menntun hafi þrjú megin hlutverk, að þjálfa færni sem er nauðsynleg til að geta staðið vel fjárhagslega (e. economic role), að hafa skilning á veröldinni í kringum okkur (e. cultural role) og síðast en ekki síst að þróa með sér einstaklings færni og tilfinninganæmi (e. personal role). Að skilja hvernig þessi atriði vinna saman sé lykillinn að breyttu menntakerfi með sköpun og nýbreytni sem þungamiðju. Einhverjum gæti fundist erfitt að ímynda sér fljúgandi bíla, matarprentara, vélmenni með gáfur á við 6 ára barn eða stórborgir með yfir 50 milljónum íbúa í framtíðinni. Raunin er sú að enginn veit hvað framtíðin felur í sér. Það sem við getum aftur á móti gert er að rýna í söguna. Ef að einhver hefði sagt við þig fyrir 20 árum síðan að þú gætir legið á ströndinni og talað við ættingja þína í öðru landi, pantað þér bók á netinu, fylgst með fjármálunum, skipulagt sumarfríið og hlustað á tónlist með einu apparati sem kæmist í buxnavasann þá hefðirðu sennilega hlegið af viðkomandi og beðið hann um að leita sér hjálpar. Hvernig væri að vera með menntakerfi sem myndi þjálfa ungmenni í atriðum eins og einstaklingfærni, tilfinninganæmi og sköpunargáfu í stað þess að vera búa þau undir störf sem enn þá á eftir að finna upp, störf á borð við matarprentara eða háloftalöggæslukonu/mann/hán? Er það svo galin hugmynd?
Mannkynið stendur frammi fyrir alvarlegum vandamálum á borð við offjölgun, þynningu ósonlagsins og geðsjúkdómum. Þetta eru vandamál sem geta orðið svo mikilfengleg að við eigum eftir að þurrka eigin tegund út. Þetta eru vandamál sem unga fólkið á eftir að þurfa að takast á við. Fyrir mér endurspeglar þetta mikilvægi sköpunar í menntakerfinu.
—
Sigvaldi Helgi,