Áhættuhegðun. Flest okkar hafa heyrt þetta orð og þá í tengslum við unglinga en hvað er áhættuhegðun? Áhættuhegðun er víðfemt hugtak og hafa margir rannsakendur leitast við að skilgreina hugtakið. Flestar skilgreiningarnar eiga það sameiginlegt að telja áhættuhegðun vísa til hegðunarmynsturs sem getur haft neikvæð áhrif á líf einstaklinga og ógnað heilbrigði þeirra. Slík hegðun getur aukið líkur á því að einstaklingar lendi í einhverskonar vanda en þess ber að geta að sá sem stundar áhættuhegðun leggur ekki bara sjálfan sig í hættu heldur einnig aðra einstaklinga sem að taka þátt í henni. Í mörgum tilfellum hefur áhættuhegðun unglinga áhrif á líf marga fjölskyldumeðlima og ættingja.
Hvenær er algengast að áhættuhegðun byrji og hvernig?
Áhættuhegðun getur bæði hafist á barns- og unglingsárum. Hjá börnum birtist þessi hegðun til að byrja með sem hegðunarvandamál sem getur síðar þróast út í annars konar vandamál. Hjá unglingum má t.d. sjá merki um áhættuhegðun hjá þeim sem að fylgja ekki reglum um útivistartíma, byrja snemma að neyta áfengis- og vímuefna, gefa skít í skólann, stela, beita sjálfan sig og/eða aðra ofbeldi, stundar vændi og hugleiðir eða reynir sjálfsvíg.
Umhverfið
Tengslamyndun við foreldra hefur mikið að segja um líðan barna og unglinga. Þetta hljómar ef til vill einföld formúla en börn sem að eiga í góðum og jákvæðum samskiptum við foreldra sína eru ólíklegri til þess að stunda áhættuhegðun. Sömuleiðis hefur eftirlit og eftirfylgni foreldra mikið að segja og gefur unglingnum færri tækifæri til þess að prófa sig áfram í áhættuhegðun. Á móti geta erfiðar heimilisaðstæður aukið líkur á því að unglingur sýni einhverja tegund áhættuhegðunar. Fjárhagsvandræði, samskiptavandamál og áfengis- og vímuefnaneysla foreldra geta stóraukið líkur á því að unglingur leiðist út í áhættuhegðun. Þetta kemur kannski ekki á óvart en margar rannsóknir sýna fram á að erfiðar heimilisaðstæður valda miklu álagi á allt heimilisfólk og getur dregið verulega úr jákvæðri tengslamyndun og upplifun milli fjölskyldumeðlima. Slíkar aðstæður draga mikið úr vellíðan einstaklingsins og hefur áhrif á gengi hans til að mynda tengsl og þroskast félagslega. Þeir unglingar sem að upplifa aðstæður sem þessar sækja oft hver í annan. Í jafningjahópnum þroskast einstaklingur mikið. Hugmyndir um viðmið og gildi verða til og einstaklingurinn mótast á verulegan hátt.
Hvað er til ráða?
Það er ýmislegt sem hægt er að gera til þess að draga úr áhættuhegðun unglinga. Eins og áður sagði hafa heimilisaðstæður mikið að segja. Jákvæð tengsl foreldra við börn skipta miklu máli og sterk sjálfsmynd sömuleiðis. Einstaklingur með sterka sjálfsmynd á auðveldara með að afþakka boð um áfengi eða vímuefni þegar að á hólminn er komið. Einstaklingi með sterka sjálfsmynd og sjálfstraust líður betur en einstaklingi með veika eða brotna sjálfsmynd. Því eru minni líkur á að sá fyrri leiti í vímuefni til þess að bæla niður vondar tilfinningar.
Með forvarnarfræðslu má draga úr áhættuhegðun meðal unglinga í nútíma samfélagi. Einnig hafa rannsóknir sýnt að þátttaka í skipulögðu félags- og tómstundastarfi minnkar líkur á að unglingar leiðist út í áhættuhegðun.
Þess ber að geta að ýmis tengsl hafa fundist á milli félagshæfni barna og ungmenna og árangurs þeirra á mörgum sviðum. Börn sem að eru sterk félagslega og eiga í jákvæðum vinasamböndum við jafnaldra eru líklegri til þess að ná árangri á hinum ýmsu sviðum og ólíklegri til þess að leiðast út í áhættuhegðun.
Lengi býr að fyrstu gerð, það þarf þorp til þess að ala upp barn og barnið lærir það sem fyrir þeim er haft. Klisjukenndar setningar sem eru samt svo réttar! Við berum öll ábyrgð hvert á öðru í samfélaginu. Við sem erum eldri verðum að vera þeim yngri fyrirmyndir því að börnin læra víst það sem fyrir þeim er haft.
—–
Sigrún Birna Arnardóttir, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði