Fræðimaðurinn Erik Eriksson skilgreindi þroskaferli mannsins frá vöggu til grafar þar sem hann lýsti átta stigum þroska. Eitt að þessum stigum eru unglingsárin. Á unglingsárunum byrjum við að skapa okkar eigin sjálfsmynd, reynum að finna út úr því hver við erum og hver við viljum vera. Þetta þroskaferli á sér stað á aldrinum 12 til 20 ára. Frá aldrinum 12 til 20 ára eru ungmenni að stíga sín fyrstu skref inn á unglingsárin og síðan yfir á fullorðins árin eftir að þau hafa náð yfir 20 ára aldurinn. Á þessu skeiði eru ungmennin að byrja mynda sjálfsmynd sína og má því segja að þetta skeið sé eitt af mikilvægustu skeiðum á lífsleið okkar. Við förum öll á þetta skeið. Við lendum öll í því að finnast við vera týnd, vita ekki hvert við viljum stefna eða hvað við viljum gera við framtíðina sem blasir við okkur (Berger, 2015).
En hvað er sjálfsmynd? Sjálfsmynd er stórt hugtak. Það segir ekki aðeins til um hvernig við lítum á okkur sjálf út frá fegurð og frama. Mikilvægt er að vera með jákvæða hugsun um sjálfan sig, sína öryggi í samskiptum og bera virðingu fyrir sjálfum sér. Að vera með heilbrigða sjálfsmynd felur í sér að þekkja inn á sjálfan sig, þekkja sín takmörk og gildi og meta sjálfan sig á raunsæjan hátt. Það er að geta verið sáttur við að vera sá sem maður er, þekkja styrkleika sína jafnt sem veikleika óháð kostum og göllum. Einstaklingar með lágt sjálfsálit eru gjarnir á að gefa skoðunum og hugmyndum sínum lítið vægi og líta svo á að það sem hann stendur fyrir sé ekki nóg. Þó svo að við mótum sjálfsmynd okkar hvað mest á aldrinum 12 til 20 ára þá erum við í raun og veru sífellt að velta þessu fyrir okkur og að reyna byggja sjálfsmynd okkar upp á heilbrigðan hátt (Embætti Landlæknis, e.d.).
Eftir að hafa setið einn góðan fyrirlestur hjá kennara mínum í háskólanum hef ég hugsað hvort að það sé hollt að byggja sjálfsmynd barna og unglinga út frá hæfni og getu? Ef ég tek íþróttir sem dæmi. Verðum við ekki að passa upp á það að ungmenni byggi ekki sjálfsmynd sína aðeins á getu í íþróttum eða almennt einhverju einu sem getur auðveldlega runnið úr greipum okkar?
Þegar ég horfi til baka á mín bernskuár þá velti ég fyrir mér hvort ég hafi byggt sjálfsmynd mína of mikið út frá hæfni minni í fótbolta. Á mínum yngri árum taldi ég sjálfa mig ekki vera nógu góðan námsmann og í raun og veru taldi ég mig ekki vera góða í neinu öðru en fótbolta. Það var það eina sem ég taldi mig virkilega vera góð í. Það sem ég er að reyna segja með þessu er að ég byggði sjálfsmynd mína að mestu út frá getu minni í fótbolta. Þegar ég var 23 ára þá má segja að ég hafi glatað sjálfsmynd minni að hluta til. Meiðslin sigruðu mig og ég hætti í fótbolta. Nú sit ég hér og skrifa þennan pistil að verða 27 ára og er enn að finna út úr því hver ég er, hver mín markmið og gildi eru og hverju ég vilji stefna að. Ég er að reyna byggja sjálfsmynd mína upp á nýtt. Hljómar rosalega dramatískt en þetta gengur ágætlega, upp og niður, alveg eins og allt annað.
Við byrjum ansi ung að vera afreksmenn í íþróttum. Það er skyldumæting og fer frítíminn meira og minna í íþróttina. Eigum við sem fullorðnir ekki að gæta þess að börn og unglingar þurfi ekki að vera með valkvíða yfir því hvort þau vilji mæta á æfingar eða eyða frítíma sínum í aðra iðju eins og viðburði eftir skóla, svo sem skólaleikrit, mæta í félagsmiðstöðvar, fara í ferðalög með fjölskyldunni og fleira sem ég get endalaust talið. Ég sjálf styð iðkun íþrótta en verðum við ekki að huga að öllum börnum og unglingum og ekki taka frá þeim upplifun bernskunnar vegna annasemi íþróttanna?
Ungur drengur sem hefur ávallt stundað íþróttir að miklu kappi og gerir enn nefndi við mig um daginn að hans besta upplifun á grunnskólaárum sínum sem unglingur hafi verið að taka þátt í skólaleikritinu. Þó það hafi kostað hann nokkrar æfingar sem hann mætti of seint á eða þurfti að sleppa. Hann sagði að þetta hafi verið stórt skref út fyrir þægindarrammann en sagði að það hafi gefið honum svo mikið og hafi verið dýrmæt reynsla. Það að hafa komið fram á sviði fyrir framan fullt af fólki bætti samskiptahæfni hans og veitti honum meira öryggi með sjálfan sig. Það er hollt að líta af og til út fyrir þægindarrammann. Það gefur okkur tækifæri til að auka viðhorf okkar og víkka sjóndeildarhringinn.
Upplifunin getur breytt því hvernig við sjáum okkar nánasta umhverfi og okkur sjálf sem einstaklinga. Við megum ekki sem fullorðnir einstaklingar vera of stíf við ungmennin, við verðum að leyfa þeim að upplifa fjölbreytni og finna sjálfan sig. Þetta á ekki síst við um þá sem skara framúr á einhverju sviði hvort heldur það sé tónlist, íþróttir eða skóli og svo framvegis. Fjölbreytni getur skapað víðsýni og sterkari þroska til framtíðar.
—
Elínborg Ingvarsdóttir, nemandi í tómstunda – og félagsmálafræði við HÍ
Heimild
Embætti Landlæknis, e.d.. Heilbrigð sjálfsmynd. Sótt af http://www.heilsuhegdun.is/lidan/frodleikur/sjalfsmynd/heilbrigd-sjalfsmynd/
Berger, K. S. (2014). The Developing Person Trough The Life Span. NewYork:Worth.