Íþróttir eru mjög vinsæll vettvangur á Íslandi. Flestir kannast við að hafa æft eða prófað einhverja íþrótt á sínum yngri árum. Sumir verða atvinnumenn, á meðan aðrir stunda þær til gamans. Þær veita félagsskap, hreyfingu og tækifæri til atvinnumennsku. Ég sjálf kannast við að æfa íþróttir á mínum yngri árum fram á unglingsárin. Ég æfði fótbolta og körfubolta samfleytt í 12-13 ár, ásamt öðrum íþróttum inn á milli. Í körfunnni og fótboltanum var ég farin að æfa upp fyrir mig með einum til tveimur flokkum. Það var frábært og mikil reynsla, en álagið sem fylgdi varð einum of mikið og það endaði með því að ég hætti í báðum greinunum. Bæði vegna meiðsla og andlegs álags.
Því fylgir mikið álag og stress að æfa svona mikið, bæði andlega og líkamlega. Pressan kemur einna helst frá þjálfurum því að þeir búast við miklu af iðkendum sínum en hún getur líka komið frá einstaklingum sjálfum, foreldrum og liðsfélögum. Svona mikil pressa, stress og álag getur haft gríðarleg áhrif á mann, ekki misskilja mig en ég geri mér grein fyrir því að einstaklingar eru mismunandi. Það sem þjálfarar verða að gera sér grein fyrir er að ekki allir einstaklingar þola svona mikla pressu og álag. Þeir geta ekki ætlast til þess að iðkandi sem æfir með tveimur eða fleiri flokkum eða er í annarri íþróttagrein geti mætt á allt og verið með í öllu. Iðkendur á unglingsaldri eru ekki að fara að segja nei við því að fá að æfa með eldri flokkum vegna þess að þetta segir þeim að þau séu góð og geti náð langt. Þjálfarar vita það innst inni að þeir séu ekki að fara að fá nei frá þessum einstaklingum. Það getur verið erfitt fyrir foreldra að stökkva inn í og stoppa unglinginn sinn af í svona aðstæðum því þeir vilja oft ekki eyðileggja svona tækifæri fyrir börnunum sínum. Aftur á móti getur fylgt svona álagi og pressu mikill kvíði og endalaus meiðsli sem getur haft þær afleiðingar að iðkandinn fái leið á íþróttinni og hætti. Þó svo að honum hafi fundist íþróttin eitt það skemmtilegasta sem hann gerði.
Það sem að vantar í svona tilvikum eru meiri samskipti hjá þjálfurum. Með því er ég að meina að þjálfarar verða að tala saman um þá iðkendur sem æfa hjá þeim báðum en þeir verða líka að ræða við foreldra iðkendanna og iðkendurna sjálfa. Þeir verða að ræða um það sem þeir telja best fyrir iðkandann og bera það svo undir iðkandann og ná samkomulagi um hvernig hann muni æfa og keppa með flokkunum. Það er líka mjög mikilvægt að ef iðkandi er að æfa tvær íþróttagreinar á sama tíma, líkt og fótbolta og körfubolta, að þjálfarar þar á milli ræði saman um hag og heilsu iðkandans. Hvernig best sé að haga stundatöflunum saman á milli íþrótta. Báðar þessar íþróttir eru orðnar allan ársins hring, ásamt öðrum greinum, með æfingar og keppnir og er því mjög erfitt og mikið álag að æfa þær samtímis. Iðkendum finnst oft erfitt að velja á milli íþrótta og þjálfarar verða að virða það og finna því einhverja lausn sem er með hag iðkandans í huga en ekki þeirra eigin. En með því að ræða þessa hluti sín á milli og ná samkomulagi að þá er hægt að minnka álagið hjá iðkandanum og hann getur farið að njóta íþróttarinnar miklu meira. Það getur líka komið í veg fyrir frekari meiðsli og andleg líðan verður betri eftir því sem pressan minnkar.
Mikilvægustu leiðbeinendurnir þegar að kemur að íþróttum eru þjálfararnir sjálfir og þjálfarahlutverkið skiptir miklu máli. Þeir ættu og eiga að vita hversu mikið iðkendur sínir æfa og hvort að þeir séu að æfa með fleiri en einum flokki. Það er alltaf gott að hafa einhvern til þess að kúpla mann niður þegar álagið og annað verður of mikið. Það sem ég tel mikilvægast að þurfi að laga eru samskipti þjálfara, þau geta skipt sköpum.
—
Hulda Sif Steingrímsdóttir, nemandi í Tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands