Tómstundir eru mjög mikilvægar fyrir börn og unglinga, hvort sem það eru íþróttir eða eitthvað annað. Það er áhugavert að skoða félagsmiðstöðvar og starfsemi þeirra, en hvað er gert í félagsmiðstöð? Er það bara staður til þess að eyða tímanum eða er einhver dagskrá þar sem hægt er að taka þátt í og er hún fjölbreytt svo hún höfði til sem flestra?
Ég fór mikið í félagsmiðstöðina í Reykjanesbæ þegar ég var unglingur og þar var fullt af viðburðum sem hentuðu mismunandi hópum af krökkum. Við gerðum útvarpsþátt sem við tókum upp í félagsmiðstöðinni þar sem við vorum með opna síma þannig að hægt væri að hringja í þáttinn og fleira. Þetta var ótrúlega spennandi og skemmtilegt verkefni, einnig fórum við og heimsóttum aðrar félagsmiðstöðvar og gistum stundum þar eða fengum aðrar félagsmiðstöðvar til okkar. Það voru allskonar böll, söngvakeppnir, tískusýningar, hljómsveitarkvöld og fleira. Mér fannst vera mjög fjölbreytt starf þar og við fengum að taka þátt í að velja hvað yrði á dagskrá. Það komu allir með hugmyndir sem var síðan kosið um.
Eins og rætt var í fyrirlestri hjá Eygló Rúnarsdóttur í tíma í námskeiðinu Tómstundir og unglingar í HÍ þá kom fram í rannsókn sem að hún framkvæmdi að unglingar sem rætt var við í rannsókninni um félagsmiðstöðvar minntust öll á starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar. Það er akkúrat stór hluti þeirrar ástæðu að ég eyddi svo miklum tíma í félagsmiðstöðinni, allt starfsfólkið með tölu var svo yndislegt og gott að tala við og enn þann dag í dag hitti ég þau og spjalla við þau. Þegar ég stundaði félagsmiðstöðina sem mest þá kom ég strax eftir skóla og starfsmaður í félagsmiðstöðinni aðstoðaði við heimalærdóm svo var ég þar meira og minna allan daginn fram að lokun. Þá fór ég heim að borða og kom aftur um kvöldið. Mér leið mjög vel þarna og allir sem mættu þangað töluðu um það sama.
En í dag er opið í tvo tíma á kvöldin tvo daga í viku og svo annan hvern föstudag, þetta finnst mér ótrúlega sorgleg þróun. Hversvegna er svona stuttur opnunartími? Ætli það sé vegna þess að eftirspurnin sé svona lítil, vilja unglingar ekki vera lengur í félagsmiðstöðinni? Er dagskráin nógu fjölbreytt til þess að hún höfði til sem flestra? Ég skoðaði gömlu félagsmiðstöðina mína og viðburði sem eru haldnir ásamt forvörnum og markmiðum og miðað við það standa þau sig mjög vel. Það eru fræðslukvöld og þau hafa fengið Pál Óskar í eineltisumræðu ásamt því að fá fjármálakvöld. Þetta finnst mér mjög flott þróun í félagsmiðstöðinni.
Eins og ég segi hér í byrjun að þá er mjög mikilvægt fyrir börn og unglinga að stunda einhverjar tómstundir og finnst mér félagsmiðstöðvar flottur vettvangur. Mér finnst þróunin vera að fara í rétta átt, ekki er einungis verið að bjóða uppá skemmtun á borð við böll heldur einnig fræðslu eins og þessa sem Páll Óskar var með og fjármálakvöldið. Ég væri til í að sjá lengri opnunartíma, finnst þetta skammarlega lítill opnunartími. En kannski er eftirspurnin ekki meiri eða fjármagnið ekki nægilega mikið til þess að hafa lengri opnun.
En mér finnst eins og það ætti að vera opið alla föstudaga og hafa eitthvað spennandi á dagskrá þar, ekki einungis til þess að skemmta heldur einnig sem forvörn við unglingadrykkju. Hún á sér oftast stað á föstudags- og laugardagskvöldum þegar engin skóli er næsta dag. Ég vona að bærinn skoði þetta og finni lausn á þessu.
—
Jórunn Jörundardóttir