Ég flokka mig sem fagmann í frítímaþjónustu. Reynsla mín hefur kennt mér að staðan getur verið gríðarlega erfið og krefjandi. Unglingarnir leita til okkar sem trúnaðarmanna og jafnvel sem vina til að hjálpa þeim að vísa veginn fyrir framtíðina. Þessi vettvangur skapar tækifæri fyrir einstaklinga, þar sem á að vera fullt aðgengi fyrir alla. Þegar litið er á starfsemi félagsmiðstöðva er mikilvægi starfsmannsins gríðarleg. Starfsmaður starfar sem fyrirmynd, sinnir mismunandi hlutverkum í lífi barna og unglinga. Hann er félagi, ráðgjafi og fræðari. Starfsmaður þarf að þekkja hlutverk sitt, virða trúnað og hafi ástríðu fyrir starfinu sínu. Starfsmaður þarf að vera góður leiðbeinandi og nýta og ígrunda sína reynslu, þekkja sín mörk og hafa góða samskiptatækni.
Eins og við erum alltaf að komast meira og meira að, er frítíminn hjá unglingum og börnum í dag er mikill, sérstaklega fyrir þá sem stunda ekki skipulagt íþróttastarf. Þær athafnir sem eiga sér stað í frítíma einstaklings má flokka sem tómstundir. En mikilvægt er að athöfnin feli í sér vellíðan og aukin lífsgæði. Með auknum frítíma barna og unglinga koma nýjar kröfur til félagsmiðstöðva sem ýtir undir það að fagfólk á vettvangi þurfi að leggja meiri áherslu á faglegu hliðar starfsins.
Samt sem áður er lítil sem enginn lagalegur rammi fyrir starf félagsmiðstöðva. Frá sjötta áratugnum þá hafa kröfur um fagmennsku aukist að einhverju leyti. Hérlendis hljóðar það svo að lögbundið frístundastarf nær til níu ára aldurs. Lagalegur rammi félagsmiðstöðva er því enginn en það myndi auka gæði starfsins til muna. Núverandi reglugerðir skilgreina ekki félagsmiðstöðvar sem lögbundna grunnþjónustu. Þetta setur okkur sem starfsstétt í óörugga stöðu þar sem fáar eða engar starfslýsingar eru til staðar fyrir starfsfólk og stjórnendur félagsmiðstöðva. Lagalegur rammi tryggir einnig sveitafélögum fagleg viðmið og mögulega hindrar þetta misræmi á milli sveitafélaga.
Ef að sveitarfélög neyðast til þess að setja upp sínar reglur, markmið og áætlanargerðir í kringum félagsmiðstöðvar, mun stéttarskipting innan þessa viðkvæma kerfis myndast sem er nú þekkt að einhverju leiti í dag. Þetta er eitthvað sem við ættum að forðast því eins og áður kom fram ætti þetta að vera grunnþjónusta og það sama í boði fyrir alla landsmenn. Félagsmiðstöðvastarf hjálpar unglingum að mótast sem einstaklingar og verða að góðum samfélagsþegnum, eflir lýðræðishugsun og borgaravitund. Hvers vegna meta stjórnvöld þetta þá nánast einskis?
Siðareglur Félags fagfólks í frítímaþjónustu og tilmæli Samfés eru frábær leiðarbók fyrir starfsmenn en engu að síður vantar lagalegan ramma um starfið. Við verðum að halda betur utan um unga fólkið okkar, og tel ég félagsmiðstöðvar og ungmennahús vera mjög góðan vettvang til þess. Í Finnlandi nær lögbundin grunnþjónusta frístunda upp í 29 ára aldurs. Ættu ekki svipuð lög að gilda hérlendis? Ég held ég að það séu ekki óraunhæft markmið enda lítum við til Finna sem fyrirmynda með allt sem viðkemur menntamálum almennt.
–
Vilborg Harðardóttir