Þegar ég var unglingur skipti það mestu máli af öllu fyrir mann að passa í hópinn, vera hluti af heildinni, gera eins og hinir, hvort sem um var að ræða stórt eða smátt. Þannig var það og þannig er það sjálfsagt enn, líka þegar þarf að taka mikilvægar ákvarðanir sem geta haft áhrif á allt lífið, eins og til dæmis hvenær á að sofa hjá í fyrsta sinn. Stundum velti ég því fyrir mér hvort margir unglingar upplifi það að vilja klára fyrsta skiptið sitt af til þess að falla í hópinn.
Ég pældi ekki mikið í fyrsta skiptinu fyrr en nokkrar stelpur í mínum árgangi voru búnar að sofa hjá í fyrsta skipti. Þá vaknaði auðvitað forvitnin og umræður um hvernig þetta allt væri. Þó að klámvæðingin hafi ekki verið eins mikil þá og hún er nú þá mótaði hún að einhverju leyti hugmyndir um það hvernig þetta átti allt að ganga fyrir sig og hvernig báðar manneskjur áttu að haga sér.