Mikilvægi íþróttastarfsins

Eins og flestir vita þá hefur íþróttaþátttaka ótrúlega jákvæð áhrif á líðan ungmenna, bæði andlega, líkamlega og félagslega. Margar rannsóknir og gögn benda til þess að íþróttaiðkun íslenskra ungmenna hafi aukist gríðarlega á undanförnum áratugum og má rekja það til þeirra jákvæðu hugmynda sem flestir hafa um íþróttastarfið. Framboð margskonar íþróttagreina hefur aukist til muna svo að flest ungmenni ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Foreldrar hafa í vaxandi mæli kosið að senda börn sín í skipulagt íþróttastarf í þeim tilgangi að bæta líkamlega heilsu, andlega líðan, örva félagsleg samskipti, eiga áhugamál og til að tilheyra samfélaginu.

Þegar ég nefni skipulagt íþróttastarf á ég við íþróttastarf í íþróttafélögum undir leiðsögn fullorðinna þjálfara. Sýnt hefur verið fram á að með skipulögðu íþróttastarfi aukast líkurnar á að börn þroski með sér félagshæfni og meiri líkur eru á að þau sýni jákvæða hegðun í daglegu lífi. Þegar ég hugsa til baka frá því að ég var unglingur þá hafði skipulagt íþróttastarf mjög jákvæð áhrif á mitt líf. Ég æfði fótbolta frá því ég var 6 ára og það að bera ábyrgð á sínum æfingatíma, mæta á æfingar og skipuleggja tímann vel hafði ótrúlega þroskandi áhrif á mig. Ég tel því vera mikilvægt að ungmenni reyni að finna íþróttastarf við sitt hæfi og að foreldrar aðstoði og veiti þeim stuðning þegar þess þarf. Stuðningur foreldra finnst mér vera númer eitt, tvö og þrjú þegar kemur að því að fá barnið sitt til að stunda íþróttir. Börn og ungmenni horfa upp til foreldra sinna og ef ég tala út frá minni reynslu þá er stuðningur foreldra það allra mikilvægasta þegar viðkemur varanlegri íþróttaiðkun.

Við erum flest meðvituð um að íþróttastarf ungmenna dregur úr líkum á að þau leiðast út í áhættuhegðun, svo sem vímuefnanotkun og áfengisneyslu. Hinsvegar hafa rannsóknir sýnt að þau ungmenni sem stunda íþróttir utan skipulagðs íþróttastarfs eru í meiri áhættuhóp að lenda í áhættuhegðun og því má segja að það eru ekki einungis íþróttirnar sem sporna gegn því að lenda í áhættuhegðun heldur er það hvernig íþróttastarfinu er háttað og öll sú umgjörð sem er í kringum það. Það má því segja að skipulagt íþróttastarf beri með sér ákveðin uppeldisgildi sem eru gríðarlega mikilvæg fyrir ungmennin. Börnin og ungmennin læra að fara eftir settum reglum og að auki læra að tileinka sér hollar lífsvenjur. Þau læra að hlusta á fyrirmæli sem veitir þeim aga. Þau læra að borða hollt, sofa vel og hlusta á líkamann sinn sem og efla sjálfstraust sitt og öryggi.

Í þessari grein er ég að mestu leyti að skoða þau jákvæðu áhrif sem skipulagt íþróttastarf hefur á líf ungmenna en ég verð þó einnig að koma inná það að öll íþróttaiðkun í sjálfu sér er góð, sama hvort hún sé skipulögð eða óskipulögð. Að fara í ræktina, að fá sér göngutúr, að fara í sund, að fara út að hjóla eru dæmi um óskipulagt íþróttastarf en það getur haft gríðarlega góð áhrif á ungmennin. Sama hversu lítil hreyfingin er þá gleymist oft að skilgreina hana sem „hreyfingu“. Margir hverjir sjá sér ekki fært eða fúnkera ekki innan skipulagðs íþróttastarfs. Mikilvægt er að ungmenni fái að njóta sín í þeirri íþróttaiðkun sem þau kjósa og þeim sé leyft að efla sig á eigin forsendum en samt sem áður að fá aðstoð eða leiðbeiningu frá foreldrum eða aðstandendum.

Agnes Helgadóttir