Megum við vera með?

Að vera unglingur, hvað er það? Nú höfum við það öll sameiginlegt að hafa verið unglingur. Í raun erfiðasta þroskaskeiðið, allavega samkvæmt mér. Við þekkjum það örugglega flest að á þessum tíma á ævi okkar, að okkar eigin sjálfsmynd er alls ekki fullmótuð. Ennþá viðkvæm, en samt með þörf fyrir sjálfræði. Erum að uppgötva heilan helling, eins og á öllum æviskeiðum okkar. En þarna er mikilvægur tími þar sem við erum næstum því fullorðin en samt ekki. Það er samt komið fram við okkur eins og börn og okkur jafnvel ekki treyst fyrir ákvörðunum um eigið líf eða tilfinningar.

Hvar megum við vera? Hlýtur að vera spurning sem unglingar velta fyrir sér. Hvað þau mega, vera eða gera, virðist ekki vera í fyrirrúmi hjá þeim sem með ráðin fara. Ekki mega þau safnast saman einhverstaðar, hvort sem það er sjoppan, verslunarmiðstöðvar eða bara staður í hverfinu þeirra. Ég gleymi ekki þegar ég var nýflutt í úthverfi, í nýbyggingu. Tvö kvöld í röð urðum við vör við að hópur unglinga gengu fram hjá blokkinni. Ekkert vesen eða læti, gengu einmitt fram hjá gluggunum mínum verandi á neðstu hæð. Þriðja kvöldið var boðaður fundur í blokkinni til að ræða „unglingavandamálið“ í hverfinu. Hef orðið vör við það í samfélaginu að það er alltof oft talað um vandamál ef unglingar eru annars vegar.

Ég held samt að eina vandamálið sé viðhorf okkar, hinna fullorðnu gagnvart unglingunum. Svo virðist sem það eina sem er í boði fyrir þau sé að vera undir eftirliti fullorðins fólks. Einmitt þegar þau eru hvað mest að sækjast eftir því að fá að vera í friði og eftirlitslaus. Merkilegt hvað það gleymist fljótt sem foreldri að hafa verið unglingur áður. Ekkert nema boð og bönn.  Ekki ríða, drekka, reykja, veipa eða gera það sem foreldrar eða umönnunaraðilar virðast vera gera. Ekki gera eins og ég! Skrítin uppeldisaðferð, gerðu eins og ég segi en ekki eins og ég geri. Við vitum, held ég, flest að það virkar alls ekki í uppeldi. Það læra börn sem fyrir þeim er haft, algjör lykilsetning í uppeldi og ætti að eiga við um unglinga líka. Verum fyrirmyndir. Held samt að við ættum að gera meira af því að hlusta á unglingana okkar. Þau eru einu sérfræðingarnir um eigin málefni og líðan. Ef að ég væri unglingur í dag er ég ekki viss um að lífið mitt hefði verið eins og það var. Ég fékk sjálfræði sextán ára eins og lögin voru þá. En upplifði samt að það var ekkert hlustað á mig. Margt breytt síðan þá. Tökum mark á þeim, þau eru framtíðin.

Framtíðin er í höndum unglinganna. Verum góð við þau, hlustum, virðum og tökum tillit til þeirra. Gefum þeim pláss. Félagsmiðstöðvar koma þar sterkar inn, vinna með unglingana og hlusta á þá. En ekki allir unglingar nýta sér þá frábæru þjónustu. Við þurfum að ná til allra unglinga. Verum með jákvætt hugarfar og mætum öllum unglingum með opnum huga. Minnum okkur á að einu sinni vorum við líka unglingar. Forvarnir með samtölum en ekki tiltali.

Signý Björk Ólafsdóttir