Öll eigum við það sameiginlegt að ganga í gegnum unglingsárin og upplifir hver og einn einstaklingur það tímabil á sinn hátt. Þrátt fyrir mismunandi upplifanir hvers og eins þá viljum við fá svör við ákveðnum spurningum sem vakna upp á unglingsárunum. Unglingsárin eru mikilvægur og viðkvæmur tími, unglingar velta ýmsu fyrir sér en vita jafnvel ekki hvert skal leita svara. Kynfræðsla er því virkilega mikilvæg og tel ég vera þörf á því að breyta og bæta kynfræðslu fyrir unglinga í grunnskólum hér á landi.
Þegar ég lít til baka þegar ég sjálf var í grunnskóla þá fékk ég mjög litla sem enga kynfræðslu. Það eru sirka 10 ár síðan og hefur kynfræðslan voða lítið breyst frá því. Það getur ekki verið góð þróun á þessu kennslusviði. Í kennslunni sem ég hlaut var aðallega farið út í líkamlegar breytingar hjá strákum og stelpum, hvað gerist þegar við förum á kynþroskaskeiðið og rætt um tíðahringinn hjá stelpunum. Auðvitað er mikilvægt að ræða líkamlegu hlutina en það sem vantaði alveg var að fara út í andlegu málin og allt sem þeim tengist.
Mér finnst unglingar þurfa að geta rætt þessi mál opinskátt við kennarann og við hvort annað og skapa meiri umræður í kennslutímum. Að þau fái tækifæri á að spyrja spurninga og fái góð svör við þeim t.d. hvað telst vera heilbrigt samband, heilbrigt kynlíf og góð sjálfsmynd. Ég held að unga fólkið sé mun opnara með að ræða og leita svara um kynlíf og tilfinningar sem vakna upp á þessu tímabili við starfsmenn félagsmiðstöðva heldur en kannski kennara. Það gefur auga leið að þau eru ekki að fá nógu mikla fræðslu í skólanum og þora jafnvel ekki að ræða þessi mál við kennarann.
Kennarinn þarf líka að geta náð til unglinganna og halda athygli þeirra. Spurning er hvort að kennarar þyrftu ekki meiri stuðning og fræðslu sjálfir tengda kynfræðslunni og hvernig á að ná betur til unglinganna. Í nágrannalöndunum fá kennararnir stuðning tengda kennslu í kynfræðslu og þeir eru studdir/fræddir meira í sambandi við kennslu um kynlíf. Kennararnir eru þá betur búnir, öruggari og vita meira og þar af leiðandi ættu þeir að geta svarað frekari spurningum unglinganna. Það ætti þá að stuðla að því að unglingarnir sjái það og finni að þeir geta leitað meira til kennaranna sinna.
Í nágrannalöndunum er kynfræðsla mjög mikilvæg og reynt er að tengja hana við sem flestar greinar í námsefninu til þess að umræðan verði betri og opnari. Því þurfum við að vera samhliða nágrannalöndunum og byrja að bæta kynfræðsluna (Sigríður Dögg Arnardóttir, 2014).
Ég tel að kynfræðslan ætti að byrja mun fyrr en hún gerir því bæði er umræða um kynlíf í samfélaginu okkar í dag orðið mun opnari og ekki eins mikið feimnismál og áður var. Námsefnið þyrfti að breytast samhliða samfélaginu, auðvitað þarf að uppfæra námsefnið því samfélagið er opnara en áður og er síbreytilegt. Einnig finnst mér að það ættu að vera fleiri tímar tengdir kynfræðslu og hafa þá reglulega því ekki er hægt að kenna efni né meðtaka með þrem eða fjórum kennslutímum og jafnvel einni klukkustund í senn. Mér þykir það áhugavert hvernig norðurlöndin tengja kynfræðsluna inní annað námsefni og halda því þeirri umræðu gangandi í gegnum námið.
—
Katrín Gunnarsdóttir, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ.
Heimild:
Sigríður Dögg Arnardóttir. (2014). Kjaftað um kynlíf: Handbók fyrir fullorðna til að ræða um kynlíf við börn og unglinga. Reykjavík: Iðnú.