Húsið sem hýsir þína hugmynd

inga_audbjorgAllir þurfa athvarf.  Athvarf þar sem manni líður vel, þar sem maður fær hvatningu til að leita lengra og þar sem mörk þess mögulega og ómögulega eru óskýr. Hitt Húsið hefur verið starfrækt síðan 1991 og hefur í gegnum tíðina verið athvarf þúsunda ungmenna á aldrinum 16-25 ára.  Þetta unga fólk hefur nýtt Hitt Húsið sem vettvang til sköpunar, sjálfsstyrkingar, til að hitta annað ungt fólk og eiga góðar stundir. Húsið hefur verið heimili listafólks, aktivista, dansara, leikara, tónlistarmanna, ungs fólks í námi, ungs fólks í vinnu, ungs fólks í atvinnuleit, kvenna, karla, transfólks, hinsegin fólks, íslenskra ungmenna, erlendra ungmenna og flestra þeirra sem upptalningin nær ekki yfir.

Eftir að hafa unnið í þessu dásamlega húsi í meira en ár hef ég uppgötvað að alls ekki allir vita hvað Hitt Húsið stendur fyrir.  Sumir kynnast húsinu aðeins í gegnum eina deild eða viðburð, -þekkja Músíktilraunir eða starf fyrir fötluð ungmenni en átta sig ekki á að Hitt Húsið er svo miklu meira.  Aðrir koma hins vegar í heimsókn daglega, fá sér kaffibolla, spjalla við starfsfólkið og nota svo rýmið til að skapa eða æfa; hvort sem það er til þess að fara á æfingu hjá Stúdentaleikhúsinu, námskeið hjá atvinnudeildinni, taka upp hlaðvarp, hengja upp myndlistarsýningu eða bara taka aðeins í fótboltaspilið.

Þrátt fyrir að skilningur almennings á starfi Hins Hússins sé stundum takmarkaður, þá ætla ég að slá því föstu að þetta hús sé bráðnauðsynlegt ungmennamenningu Reykjavíkurborgar.  Á sumrin fyllist borgin af upplífgandi gjörningum Götuleikhússins, á veturna verða til leikrit, sýningar, og hljómsveitir. Ungt fólk með sérþarfir fær þjónustu á eins óstofnanavæddan máta og kostur er og félagslega einangruð ungmenni fá samastað.  

Valdeflandi Vítamín

Eitt af stærri verkefnum Hins Hússins eru námskeið fyrir ungt fólk sem hefur verið á atvinnuleysisskrá um nokkurt skeið.  Námskeiðin eru tvenns konar; Vítamín, sem er valdeflandi sjálfstyrkingarnámskeið og Vinnustaðanám, sem miðar að því að undirbúa einstaklinginn fyrir þátttöku á vinnumarkaðnum. Samkvæmt nýlegri úthringikönnun til þeirra sem luku Vinnustaðanámi á árunum 2012-14 eru 73,5% í virkni,; það er starfi og/eða námi.  En Vítamín og Vinnustaðanám eru ekki bara árangursrík verkefni tölfræðilega séð.

,,Í upphafi leist mér ekkert á það að þurfa að fara á eitthvað námskeið. Ég get hins vegar sagt það í dag, með fullri alvöru, að Vítamín-námskeiðið er líklega einn af stóru vendipunktunum í mínu lífi.”  

Þetta eru orð ungs manns sem sótti Vítamín fyrir nokkru síðan.  Hann heldur áfram:

,,Eftir á að hyggja var Vítamín miklu meira en úrræði til að hjálpa mér að komast aftur á atvinnumarkað. Námskeiðið varð til þess að ég varð öruggari með sjálfan mig, lífsglaðari og einhvern veginn betur undir það búinn að takast á við það sem var framundan. Allt þetta hjálpaði mér að komast á þann stað sem ég er í dag og á Vítamín stóran part af því.”

Ungt fólk sem setur lífið í lit

fjor_i_HHÍ kjallara Hins Hússins, sem og í ný opnuðu húsnæði við Rafstöðvarveg, er athyglinni beint að ungmennum með sérþarfir. Þar eru um 40-50 ungmenni daglega, í starfi sem miðar að því að veita þeim aðstöðu og aðstoð í frístundum. Þar starfar með þeim hópur af ungu og alúðlegu fólki sem nýtur þeirra forréttinda að starfa með ungmennunum.  Ungmennin eru alls konar, með ólíkar fatlanir og gera Hitt Húsið svo sannarlega að líflegri stað.  

There’s an old voice in my head, that’s holding me back

Hitt Húsið þjónar ýmsum jaðarhópum; ungmennum með fötlun, ungmennum í atvinnuleit, félagslega einangruðu ungu fólki og ungu fólki með brotið bakland.  En Hitt Húsið er líka málsvari menningar ungs fólk í Reykjavík.  Á sumrin eru göturnar glæddar lífi með gjörningum listhópanna og Götuleikhússins. Rusltaktur endurvinnslubandsins Muscycle bergmálaði um Austurstrætið síðastliðið sumar, á meðan póetið Adolf spígsporaði og hvíslaði ljóðum að gangandi vegfarendum.  Unglistarhátíðin er svo nýafstaðin, með öllum sínum listaviðburðum; myndlistarmaraþoni, Leiktu betur, danssýningu, tónleikum og tískusýningu.  Flaggskip menningardeildarinnar er þó vafalaust Músíktilraunir sem allir landsmenn þekkja.  Þar fær ungt tónlistarfólk tækifæri til að prófa að standa á sviði og leika fyrir áhorfendur með fagaðstoð ljósamanna, hljóðmanna og fleiri.  Ennfremur fá þær hljómsveitir sem komast langt í keppninni mikinn stuðning við að koma sér á framfæri, bæði innan lands og utan.  Árið 2010 unnu Of Monsters and Men Músíktilraunir og það þarf enginn að efast um þeirra hróður á alþjóðagrund.

 

Fyrir utan ofantalin verkefni sér Hitt Húsið um alls kyns önnur verkefni af mismunandi stærðargráðum. Jafningjafræðslan fræðir jafnaldra sinna, ungir foreldrar hittast á miðvikudagsmorgnum, atvinnudeildin býður ungu fólki upp á atvinnuráðgjöf og yfirlestur ferilskrár, Áttavitinn.is svarar spurningum ungs fólks og margt, margt fleira.  Aðallega er Hitt Húsið þó athvarf.  Athvarf fyrir hugmyndir, hæfileika og hamingju ungs fólk. En sjón er sögu ríkari, kíkið í kaffi!