Undanfarin 15 ár hafa orðið gríðarlegar framfarir í þeirri þjónustu sem veitt er 6-10 ára börnum að skólatíma loknum í Reykjavík. Það má segja að fyrsta skrefið hafi verið tekið þegar íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkur (ÍTR) hóf rekstur frístundaheimila í stað skóladagvistar eða „gæslu“ sem tíðkaðist áður. Þar var fyrsta skrefið tekið í myndun þeirrar fagstéttar sem nú sinnir frístundastarfi fyrir börn að skóladegi loknum hér á landi.
Einn mikilvægasti þátturinn í því að þessi fagstétt hafi náð eins skjótum og góðum árangri og raun ber vitni er að hafa skilgreint sig frá skólunum og að vinna eftir hugmyndafræði um barnalýðræði og mikilvægi hins frjálsa leiks. Fyrir mörgum kann hinn frjálsi leikur að hljóma eins og eitthvað sem gerist af sjálfu sér, en starfsfólk frístundaheimila eru sérfræðingar í að skapa þær aðstæður sem þarf til þess að hinn frjálsi leikur þrífist ásamt því að tileinka sér þá starfshætti sem til þarf til að leiðbeina án þess að stjórna í þessum leik.
Í umræðum um starfsemi félagsmiðstöðva er mikilvægi þess að stuðla að sterkri sjálfsmynd óumdeilt. En sjálfsmyndin byrjar að myndast löngu áður en börn fara að sækja félagsmiðstöðvar og er frístundaheimilið einmitt staður þar sem börn máta sig í hlutverk í alls kyns leikjum. Það er því mikilvægt að starfsmennirnir séu meðvitaðir um hvað er að gerast undir yfirborðinu.
Hverjir eru þiggjendur þjónustunnar?
Það má hins vegar velta því fyrir sér hverja frístundaheimilin þjónusta í raun og veru og hvort að börnin sem sækja frístundaheimilin séu í raun og veru þar í sínum frítíma. Flestir tala um að börnin séu að þiggja þjónustuna, þó að foreldrar greiði fyrir. Því miður er staðreyndin sú að sum börn vilja hreinlega ekki vera á frístundaheimilinu. Eru þau þá raunverulega að þiggja þjónustuna eða eru þau að afplána hana meðan foreldrarnir þiggja hana?
Önnur gagnrýni sem heyrst hefur um frístundaheimilin er að börnin eru ekki að koma þangað af fúsum og frjálsum vilja þá sé starfsemi frístundaheimilanna í eðli sínu ekki frístundastarf. Þetta má deila um, einkum þar sem frístundaheimilin eru með starfsemi sem börnin óska langflest eftir að komast í sjálf en hvort sem starfsemin er í kjarnann frístundastarf eða ekki þá fer þar fram mikið og merkilegt fagstarf sem vert er að hrósa.
Þorvaldur Guðjónsson er tómstunda- og félagsmálafræðingur og starfar sem verkefnisstjóri félagsauðs og frístunda í þjónustumiðstöðinni Miðgarði í Reykjavík.