Nýverið ákvað fjölskyldu- og tómstundaráð Vestmannaeyjabæjar að breyta reksti félagsmiðstöðvarinnar þar í bæ. Þessar breytingar urðu til þess að starfshlutfall fostöðumanns til 24 ára lækkaði umtalsvert eða um 15%. Opnunartíminn breyttist við þessar breytingar en frá og með skólaári 2016-2017 verður nánast aðeins um kvöld-opnanir um að ræða. Þá verður opið fimm kvöld í viku 19:30 – 22:00- , öll kvöld nema fimmtudaga og sunnudaga. Að auki verður aðeins opið í tvær klukkustundir á dag, tvo daga í viku miðvikudaga og þriðjudaga frá 16:00-18:00. Félagsmiðstöðin verður því opin í 16,5 klukkustundir á viku sem er líkt því og þekkist annarstaðar að sögn formanns fjölskyldu- og tómstundaráðs Vestmannaeyjabæjar.
Skólaárið 2014-2015 var opið í 33,5 klukkustundir á viku sem segir okkur að umtalsverðan niðurskurð er að ræða. Það skólaár var opið 14:00 – 18:00 og 19:30 – 22:00 mánudaga til fimmtudaga og á föstudögum 14:00-18:00 og 19:30 -23:00. Skólaárið 2015-2016 er opnunartími félagsmiðstöðvarinnar orðinn 22,5 klukkustundir á viku.
Ráðið gerði þessar breytingar í samráði við ungmennaráð félagsmiðstöðvarinnar en þar lögðu unglingarnir meiri áherslu á kvöldopnanir sem þau töldu vera of litla. Að mínu mati þá felur ráðið sig bakvið þessa ákvörðun með því að segja að unglingarnir vildu þetta. Ég tel það líklegt að ungmennaráðið hafi ekki viljað að félagsmiðstöðin myndi loka nánast alfarið á daginn.
Breytingar sem þessar geta haft gríðarlega vondar afleiðingar í för með sér. Þessar afleiðingar eru þær að vinnutíminn er orðin mjög óaðlaðandi fyrir fjölskyldufólk þar sem vinnutíminn verður mest megnis að kvöldi til. Forstöðumaður missir jafnframt allan undirbúningtíma sem hann hafði áður til þess að undirbúa starfsemina en undirbúningurinn þarf núna að fara fram þegar opið er í félagsmiðstöðinni og því minni áhersla lögð á fagmennsku í starfinu.
Ég tel að þessar breytingar munu hafa í för með sé mikla starfsmannaveltu og að auki verði erfiðara að fá fagfólk til að starfa í félagsmiðstöðinni. Einnig tel ég að þessar breytingar geti haft í för með sér neikvæðar afleiðingar fyrir unglinga sem sækja í félagasmiðstöðina.
Tíminn eftir skóla er oft svo mikilvægur en þar hafa unglingarnir svo mikinn frítíma til ráðstöfunar. Skólinn í Vestmannaeyjum er yfirleitt búin mjög snemma eða í kringum klukkan 13:00-14:00 á daginn. Þetta gerir um 5,5 klukkutíma á dag sem unglingarnir hafa til ráðstöfunar áður en félagsmiðstöðin opnar. Þessi tími er oft illa nýttur þar sem frítíminn er oft notaður í neikvæðar tómstundir. Þarna er kjörið tækifæri fyrir Vestmannaeyjabæ til þess að bjóða uppá faglegt og uppbyggilegt starf fyrir unglinga þar sem jákvæðar tómstundir eru hafðar í forgrunni. Þessi dauði tími unglinga er oft svo illa nýttur að það er brýn þörf fyrir því að hafa félagsmiðstöð opna fyrir þau, þar sem þau geta komið og varið deginum saman í vernduðu umhverfi.
Eflaust er hægt að færa rök fyrir því að hafa ekki opið á þessum tíma þar sem aðrar skipulagðar tómstundir eru yfirleitt í gangi á þessum tímapunkti á hverjum degi eins og t.d. íþróttir, tónlistaskólinn, skátar o.s.frv . Það sem gleymist svoldið í umræðunni er það að ekki eru allir sem stunda skipulagðar tómstundir. Þessir unglingar hafa því engan stað þar sem þeir geta komið saman og varið deginum í vernduðu umhverfi.
Samkvæmt rannsókn Weiskopf sem gerð var árið 1982[1] þá höfum við um svo gríðarlega mikinn frítíma. Hann talar um að miðað við 70 ára meðalævi þá verji venjuleg manneskja tímanum sínum eftirfarandi
- 27 árum í frítíma
- 24 árum í svefn
- 7,33 árum í vinnu
- 4,33 árum í formlega vinnu
- 2,33 í að borða
- 5 árum í annað
Þetta segir okkur það að við höfum gríðarlega mikinn frítíma. Hvernig þesssum tíma er síðan varið getur haft afgerandi áhrif á lífsgæði hvers og eins.
Kostir þess að bjóða uppá faglegt tómstundastarf eru svo miklir að ég skil ekki þessar breytingar hjá Vestmannaeyjabæ. Tómstundastarf eflir félagfærni, hjálpar börnum að uppgöva hver þau raunverulega eru, starfið hefur jákvæð áhrif á sjálfsmynd, þróar færni, ýtir undir sjálfstæði og svo mætti lengi telja.
Sem unglingur þá var félagsmiðstöðin eins og mitt annað heimili en þar mætti ég á hverjum einasta degi, ég elskaði það. Ég dýrkaði félagskapinn, starfsfólkið og andrúmsloftið sem var þar. Félagsmiðstöðin hjálpaði mér í gegnum góða og slæma tíma, gerði mig að betri manni og var alltaf til staðar fyrir mig. Á þeim tíma var ég ekki mikið að pæla í þessum þáttum starfsins en í dag þá gæti ég ekki verið þakklátari að þessi starfsemi hafi verið í boði þau ár sem ég gat nýtt mér hana.
Því spyr ég mig hvort minn heimabær sé virkilega ekki að gera sér grein fyrir því hversu mikilvægt er að bjóða uppá almennilegt faglegt frístundastarf? Ætlum við virkilega að bjóða ungmennum í Vestmannaeyjum uppá svona vinnubrögð?
—
Anton Örn Björnsson, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði
[1] Heimild: Weiskopf, D. C. (1982). Recreation and leisure: Improving the quality of life (2. útgáfa). Boston: Allyn and Bacon.