Öll erum við ólík eins og við erum mörg. Val okkar á tómstundum er þar engin undantekning. Börn og ungmenni í dag hafa úr fjölbreyttu úrvali skiplagðra tómstunda, íþrótta og annarra áhugamála að velja. Íþrótta- og félagasamtök leitast við að virkja sem flesta til þátttöku og liður í að efla þátttöku barna og ungmenna er að brúa bilið milli skóla og tómstundastarfs. Til að ná því þá þurfa allt tómstundastarf að laga sig að breyttum aðstæðum í samfélaginu. En hafa skátarnir gert það?
Sjálf valdi ég skátahreyfinguna, eða með öðrum orðum félags- og tómstundastarf sem setti stóran ,,nörda” stimpil á ennið á mér. Tökum dæmi; Hvað er það fyrsta sem þú hugsar þegar orðið, „skáti“ er nefnt? Mjög líklega sástu fyrir þér hóp af krökkum í vel girtum búningum, að grilla sykurpúða yfir varðeldi, syngjandi hressa skátasöngva. Hversu nálægt var ég?
Þrátt fyrir þessa týpísku staðalímynd samfélagsins af skátastarfinu, þá sé ég ekki eftir vali mínu sem barn. Skátastarfið er svo margfalt meira en hnútagerð, varðeldur, skátasöngvar og skrúðgöngur, svo eitthvað sé nefnt. Starfið innan skátahreyfingarinnar gefur þér ótal tækifæri. Tækifæri á að sjá heiminn, mynda ný tengsl milli einstaklinga, til að njóta lífsins og vera frjáls. Skátar læra að bjarga sér og á sama tíma lærir skátinn um mikilvægi samvinnu og samheldni, um náungakærleika og að vera hluti af náttúrunni.
Þrátt fyrir frábært starf sem skátarnir hafa unnið í gegnum árin þá hafa orðið miklar breytingar á samfélaginu. Frá þeim tíma sem skátastarfið hófst hefur það byggt á ákveðnum gildum. Sum þessara gilda eru ekki endilega í takt við samfélag 21. aldar. Því spyr ég hvort starf skátahreyfingarinnar sé barn síns tíma? Er starfið dottið úr takt við samfélagið, jafnvel talið ,,gamaldags”. Er skátahreyfingin á leiðinni á safn?
Ástæðan fyrir þessum vangaveltum er vegna nokkra atriða og vil ég þar nefna þrjú atriði. Fyrst er að nefna, að margir líta á skátahreyfinguna sem afgangshóp, þ.e. tómstundastarf fyrir þá einstaklinga sem passa hvergi inn. Sem skátaforingi finnst mér sú sýn ófagleg og óréttlát, bæði fyrir einstaklinginn, sem vantar faglegan stuðning og leiðbeiningu og fyrir skátahreyfinguna sjálfa.
Annað er að skátafundir og viðburðir á vegum annarra félegasamtaka rekast oft á. Þetta er vandamál sem önnur félagasamtök þurfa líka að takast á við. Þegar leitað er eftir samvinnu við félögin, er því gjarnan borið við að ekki sé hægt að breyta tíma- og dagsetningu vegna viðburða. Fyrirkomulagið eins og það er, henti flestum félagasamtökum eins og það er uppsett. Staðreyndin er sú að skátarnir tilheyra minnihlutahópi og því væri ekki leiðinlegt ef stærri félagasamtök gætu leitast við að vinna með minni félagasamtökum eins og skátahreyfingunni, bera virðingu fyrir þeirra starfi.
Síðast en ekki síst, þá vil ég nefna þá gömlu hefð að tengja skátastarfið við trúarstarf. Í skátaheitinu er guð nefndur, en orðið er skrifað með litlum staf. Sem þýðir að skáti fær að ráða til hvaða guðs eða trúar hann vísar í heiti sínu. Árið 2015 var loks gerð bót á þessu atriði er samtökin samþykktu nýtt skátaheiti. Skátar geta nú valið á milli þess að segja guð og ættjörðina eða samvisku og samfélag. Annað sem mig langar að nefna er þátttaka skáta í skrúðgöngum á hátíðis- og tyllidögum. Skátar ganga fremst með íslenska fánann. Oftar en ekki enda þessar skrúðgöngur í messum, en aðeins skátar og gestir fara inn. Af hverju endar lúðrasveitin ekki þátttöku sína inn í messu líkt og skátarnir?
Ég tel vera kominn tími á breytingar, en er vilji fyrir því að gera breytingar? Skátastarfið hefur gefið mér mikið, því er það ósk mín að umfjöllunin muni vekja athygli á þessum málum. Með komandi framtíð og nýrri kynslóð verður mér kannski að ósk minni.
—
Hrönn Óskarsdóttir