Ég hef unnið í tómstunda- og frístundstarfi undanfarin 15 ár með hléum, hef starfað sem aðstoðarforstöðumaður í félagsmiðstöð, frístundaleiðbeinandi, aðstoðarverkefnastjóri í frístund og svo aftur aðstoðarverkefnastjóri í félagsmiðstöð.
Ég byrjaði óvart að vinna í félagsmiðstöð í Hafnarfirði þegar ég var 20 ára og vissi hreinlega ekkert út í hvað ég var að fara. Ég fann strax að þetta var eitthvað sem hentaði mér en ég var samt alltaf alveg að fara að hætta. Samfélagið, vinir og vandamenn áttu það til að spyrja mig: „Hvenær ertu svo að að fara að hætta að vinna í þessari félagsmiðstöð?“ Ég tel að margir viti ekki alveg út á hvað félagsmiðstöðvastarf gengur. Við erum ekki alltaf bara í borðtennis eða í playstation.
Tímarnir hafa breyst þessi ár sem ég hef unnið á vettvangi og er frítíminn því stundum svolítið þaulskipulagður og stjórnaður af okkur fullorðna fólkinu, bæði foreldrum og okkur sem störfum á vettvangi. Ég hef sjálf dottið í að vera að stjórna of mikið og við verðum að passa okkur að leyfa unga fólkinu að hafa frumkvæði, virkja hugmyndaflæðið þeirra og leyfa þeim að njóta unglingsáranna með því að njóta starfsins sem félagsmiðstöðvarnar hafa upp á að bjóða.
En hvaða fyrirbæri er félagsmiðstöð?
Helstu markmið félagsmiðstöðva almennt eru að auka félags- og lýðræðisþátttöku ungs fólks, sinna forvörnum og veita börnum og unglingum stuðning og tækifæri til að sinna áhugamálum sínum. Að félagmiðstöðvar notast við leiðir unglingalýðræðis eins vel og hægt er, bjóða upp á starf þannig að það sem flestir finni eitthvað við sitt hæfi og að starfsfólkið tengjist börnunum og unglingunum með samtölum og virkri hlustun og mæti þeim einnig á þeirra forsendum og þeim sé sýnd virðing í leik og starfi.
Þar er frábært starfsfólk á gólfinu sem tekur á móti börnunum og unglingum ykkar með bros á vor og alltaf tilbúið í spjall. Sumar félagsmiðstöðvar bjóða upp á starf fyrir 5.-10. bekk á meðan aðrar sjá kannski aðeins um unglingastig. Opnunartíminn er mismunandi eftir sveitafélögum en það er oftast lagt upp með að það sé að minnsta kosti opið þrisvar sinnum í viku.
Undanfarin ár hefur þekking starfsfólks á gólfinu í félagsmiðstöðvum verið efld þar sem Háskóli Íslands heldur úti námsbraut sem kallast tómstunda- og félagsmálafræði. Fagmanneskan í starfinu er því orðin mikil þar sem þeir starfsmenn sem eru tómstunda- og félagsmálafræðingar koma með aukna fagþekkingu inn í starfið.
Það fer fram svokallað óformlegt nám í félagsmiðstöðunum en þá er unnið að fyrirfram settum markmiðum og starfsfólk félagsmiðstöðvanna veitir þann stuðning sem þarf til að þau náist innan ákveðins tímaramma. Mannleg samskipti koma sterk inn og á tímum snjallforrita þá er frábært að það sé í boði fyrir barnið, unglinginn þinn að kíkja í félagsmiðstöðina í sínu skólahverfi og geta spurt og spjallað við starfsmann félagsmiðstöðvarinannar um allt milli himins og jarðar.
Unglingarnir og börnin okkar hafa svo margt í sér, við verðum að virkja þau og sköpunarkraft þeirra og þar kemur félagsmiðstöðin sterk inn og tekur á móti öllum hugmyndum. Starfsfólkið hjálpar þeim að útfæra hugmyndirnar, t.d. ef þau koma með hugmynd að klúbbastarfi, langi þau að halda bingó, íþróttamót, stofna jafnréttisráð o.s.frv.
Ef þú átt ungling eða barn í 5.-10.bekk athugaðu hvað er í boði í félagsmiðstöðinni í þínu hverfi. Taktu upp tólið og hringdu í félagsmiðstöðina, skoðaðu heimasíðuna, samfélagsmiðlana eða kíktu bara í heimsókn.
—
Þórunn Þórarinsdóttir
Höfundur er nemi á öðru ári í Tómstunda- og félagsmálafræði