Er ég samkynhneigð/ur?

vigdis liljaSamkynhneigð hefur í gegnum tíðina verið litin hornauga – þöggun og þögn hafa verið einkennandi fyrir samkynhneigt fólk og hefur það þurft að berjast fyrir réttindum sínum. Það er ekki fyrr en á síðustu áratugum sem samkynhneigð hefur verið viðurkennd víðsvegar. Það er mjög misjafnt á hvaða aldri einstaklingar eru þegar þeir átta sig á að þeir séu eitthvað „öðruvísi“ og geta viðbrögðin verið mjög misjöfn. Hjá sumum geta komið upp neikvæðar tilfinningar eins og afneitun, reiði, sorg og sjálfsásökun.

Erfitt getur verið fyrir einstaklinga á unglingsaldri að uppgötva sig því að það er sá tími þar sem sjálfsmyndin er að mótast og þeir eru að bera sig saman við aðra unglinga. Það getur reynst einstaklingi auðveldara að koma út úr skápnum ef hann er kominn langt á leið með að mynda sér trausta og heilbrigða sjálfsmynd og þar af leiðandi sætta sig við samkynhneigð sína og helst að kynna sér heim samkynhneigðra. Nú til dags eru alltof margir sem ekki eru tilbúnir í þetta ferli og hreinlega koma aldrei útúr skápnum. Aðal spurningin er þá, hvar geta unglingar leitað sér aðstoðar eða stuðnings?

Mest áberandi hér á landi eru samtökin ’78 og ungliðahreyfing þeirra sem aðstoðar unglinga við ferlið. Í lögum samtakanna ’78, 1.2. grein segir: „Markmið félagsins er að lesbíur, hommar, tvíkynhneigðir, asexual, pankynhneigðir, intersex fólk og trans fólk, hér eftir nefnd hinsegin fólk, verði sýnilegt og viðurkennt og njóti fyllstu réttinda í íslensku samfélagi“. Ungliðahreyfing samtakanna er ætluð 14-20 ára fólki og tilgangur hópsins er að gefa ungum krökkum tækifæri á að hittast og kynnast jafningjum í sömu sporum og þeir sjálfir og í leiðinni fá stuðning frá þeim. Starfið í ungliðahreyfingunni er svipað og í venjulegum félagsmiðstöðvum. Þau fara í útilegur, halda árshátíðir, hafa videokvöld og stundum bjóða þau foreldrum í heimsókn. Á þessum fundum er 100% trúnaður um hver mætir og enginn má segja frá því hvað talað er um eða hver mætir á fundi. Unglingur þarf ekki að vera kominn út úr skápnum né vera viss um að hann sé samkynhneigður til þess að mega mæta. Það eru allir velkomnir. Einnig eru til fleiri hagsmunasamtök og þar má meðal annars nefna KMK –Konur með konum, Q – Félag hinsegin stúdenta, FAS – Samtök foreldra og aðstandenda samkynhneigðra.

Talið er að erfiðasta verkefnið þegar einstaklingur kemur út úr skápnum sé að segja foreldrum sínum fréttirnar. Mér finnst hrikalega sorglegt hvað það eru margir sem ekki geta hugsað sér að koma út úr skápnum einungis vegna þess að þau telja sig vita að þeirra nánustu munu ekki bregðast vel við fréttunum. Sem betur fer er það ríkjandi í dag að það sé bara eldri kynslóðin sem er með fordóma og tel ég það bara vera vegna fáfræði. Þess vegna er svo mikilvægt að allir foreldrar og ekki síður barnlaust fólk afli sér upplýsinga um samkynhneigð.

Samtökin ’78 bjóða nú uppá fræðslufundi fyrir vinnustaði, skóla, heilbrigðisstéttir, almenna fyrirlestra og fleira. Tilgangur þessara funda er að fræða almenning um það hvað felst í því að vera samkynhneigður og gefa þeim innsýn í líf þeirra.  Í þessum fyrirlestrum bjóða þau einnig uppá nafnlausar spurningar sem hafa nýst vel. Ég hvet alla til að standa fyrir fræðslufundum og nýta sér þetta góða tilboð samtakanna.

— 

Vigdís Lilja Ásgeirsdóttir, nemi í uppeldis- og menntunarfræði við HÍ.