Sumarið 2016 þegar ég var 17 að verða 18 ára fékk ég það frábæra tækifæri til þess að vinna með hópi fólks á mínum aldri sem jafningjafræðari Hins Hússins. Það starf fól í sér að fræða ungmenni í 8 – 10. bekk í vinnuskólum landsins um nánast allt milli himins og jarðar. Við eyddum heilu dögunum þetta sumarið með unglingum og ræddum ýmislegt, allt frá landadrykkju yfir í endaþarmsmök.
Það sem stóð helst upp úr það sumar var hversu ótrúlega gefandi og skemmtilegt þetta var. Ég trúði ekki að ég væri að fá borgað fyrir þetta. Þótt ég hefði einungis verið nokkrum árum eldri en unglingarnir sem við fræddum á þessum tíma þá áttum við svo margt sameiginlegt. Ég tók samt eftir því að „unglingamenning“ þeirra var að vissu leyti nokkuð ólík minni sem ég upplifði á sínum tíma. Ég sá mig sjálfa endurspeglast í mörgum af unglingunum, bæði stelpunum og strákunum og hugsaði eiginlega daglega með mér: „Vá þessi getur gert svo miklu betur en á bara eftir að fatta það…vonandi.”
Þegar ég nefni að þau geti gert betur þá á ég við að vera þau sjálf. Með sínar sjálfstæðu skoðanir á hlutunum, sín eigin áhugamál sem þau sinna og hafa áhuga á, þekkja sig vel, sína kosti og ókosti og kunna að vinna með það í lífi sínu.
En hvernig eiga þau að fatta það?
Er þeim kennt það?
Er það á ábyrgð foreldranna að efla þetta hjá þeim?
Hvað með þá foreldra sem hafa í rauninni ekki fattað þetta almennilega hjá sér sjálfum?
Sem unglingur var ég í rauninni þessi týpíska „venjulega“ unglingsstelpa, óörugg, frekar feimin, þorði ekki að vera ég sjálf og frekar óviss með margt í lífinu almennt. Síðan þegar ég vann markvisst í sjálfri mér breyttist allt. Ef ég lít til baka sé ég hversu heppin ég var að velja menntaskóla þar sem ríkti almennt góður andi, fjölbreytt fólk með nokkuð heilbrigt hugarfar og skoðanir sem mótuðu hvort annað. Nokkrir skólafélagar mínir höfðu unnið í Jafningjafræðslu Hins Hússins og ég frétti af starfinu frá þeim. Ég varð gjörsamlega heilluð. Að fá borgað fyrir það að styrkja mig, fræðast um ýmislegt mjög áhugavert sem maður hafði velt fyrir sér í gegnum kynþroskann, fá að ræða þetta við önnur ungmenni og það úti í góða veðrinu!
Jafningjafræðsluferlið opnaði algjörlega augu mín. Það breyttist í rauninni allt þegar ég vann við það að fræða unglinga. Ég hætti að svara fólki „Æ, ég ég veit það ekki” sem var eitt vinsælasta svarið hjá unglingunum þegar við spurðum þau að ýmsu sem viðkom þeirra persónulegu skoðun. Hverjir þeirra helstu kostir og ókostir væru, hvað þeim fyndist um áfengisneyslu, hvaða aldur þeim þætti ákjósanlegur til að byrja að stunda kynlíf á o.s.frv.
Ég fékk svipuð svör þegar ég kynnti háskólanámið mitt um daginn fyrir unglingum.
„Eru þið búin að hugsa hvert þið viljið stefna?”
„Kom eitthvað í kynningunni ykkur á óvart?”
„Veit það ekki“ var algengasta svarið, eða hreinlega jafnvel ekkert svar.
Unglingar eru jafn mismunandi og þeir eru margir en útfrá þessari reynslu minni tel ég mikla þörf vera á styrkingu ungmenna. Styrkja sjálfstraustið, gagnrýna hugsun og hjálpa þeim að kveikja eldmóðinn sem býr innra með þeim. Það er svo stórkostlegt að sjá fólk blómstra í því sem það kýs að sinna. Reynum að forðast þessa setningu „æ ég veit það ekki“ og hvetjum fólk í að hafa sína skoðun og standa með henni. Ef enginn hefur neinar sérstakar skoðanir á neinu hvernig veit viðkomandi þá hvað býr innra með sér?
Veist þú hvað býr innra með þér?
—
Ingveldur Gröndal