Unglingsárin geta verið erfið, það eru margar nýjar upplifanir, reynsla og hormónaflæðið er alveg á fullu. Það getur verið erfitt að finna jafnvægið í lífinu og unglingar eru viðkvæmir fyrir vissum hlutum. Tiktok auglýsir sig sem skemmtilegan miðil þar sem þú getur sett inn skemmtileg stutt myndbönd og horft á myndbönd hjá öðrum, en eru öll myndböndin góð fyrir unglinga og hvaða áhrif geta þau haft á andlegu heilsu þeirra?
Frá því að Tiktok kom á markað árið 2016 hefur það orðið einn af vinsælustu samfélagsmiðlum í heiminum. Miðillinn felst í því að finna hver þinn algorithmi er, þ.e. Tiktok sýnir notendum sínum ítrekað efni byggt á því sem þau hafa líkað við, sem getur verið skemmtilegt efni en einnig er auðvelt að fara yfir á hinn dimma heim Tiktok, þar sem efni er tengt rasisma, kvenhatri, hatursorðræðu, megrunarmenningu og fleira.
Unglingar nú til dags lifa fyrir samfélagsmiðla, flest öll samskipti þeirra fara fram í gegnum netið á samfélagsmiðlum eins og Instagram, Snapchat, Facebook og Tiktok. Það mætti segja að félagsleg samskipti unglinga í raunheiminum séu í verulegri hættu, sérstaklega núna á tímum covid þegar margir hafa verið fastir heima í langan tíma og leita þá ennþá meira í netið. Unglingar og börn læra og móta sjálf sig í gegnum samskipti við aðra og í leik og er það mikið áhættuefni ef það fer minnkandi vegna minnkandi samskipta.
Tiktok hefur þurft að borga háar upphæðir í Bandaríkjunum þegar upp komst um að miðillinn var að safna upplýsingum frá notendum þeirra. Þetta sýnir að unglingar þurfa að vera mjög meðvitaðir um hvaða hættur geta tengst því að vera með Tiktok í símanum sínum og hvaða upplýsingar þau eru að gefa frá sér.
Myndbönd eins og heyrnartólasnúran, borða þvottaefni, setja gleraugun um mittið og fleira hefur orðið gífurlega vinsælt og því meira sem unglingar sjá af þessum myndböndum, því meira er verið að auka sýnileika einhvers sem er skaðavaldandi og verið að ýta undir hjá unglingunum að þetta sé eðlileg hegðun. Heyrnartólasnúran og gleraugun um mittið sýna hvað megrunarmenningin er hættuleg en bæði þessi myndbönd ganga út á það að ná að setja ákveðna hluti utan um mittið á þér og ef þú getur það ekki, þá er verið að ýta undir að þú sért í yfirþyngd og að það sé slæmt. Svo á það að vera fyndið að borða þvottaefni en það er ekkert annað en stórhættulegt.
Einelti er einnig mjög mikið á Tiktok en þar eru mörg ljót orð látin falla undir myndböndum hjá unglingum. Einnig er hætta á að kynferðisofbeldi sé orðið meira tengt notkun miðilsins, þar sem gerendur hafa fundið mismunandi leiðir til þess að komast í samband við unglinga undir lögaldri í gegnum Tiktok.
Það er auðvitað ekki allt neikvætt og slæmt á samfélagsmiðlinum Tiktok en það er greinilegt að það er margt sem getur haft neikvæð áhrif á andlega heilsu unglinga, neikvæða hugsun tengda líkamsímynd, neteinelti, lífshættulegar áskornanir, fordómar og möguleikinn á að missa félagslegu tengslin við aðra. Það vantar meiri umræðu í samfélaginu um hætturnar sem tengjast Tiktok og hvernig hægt er að fræða unglinga og foreldra þeirra betur um þennan sívinsæla samfélagsmiðil.
—
Auður Eir Sigurðardóttir