Unglingsárin eru árin sem margir bíða eftir og eru spenntir að fá að upplifa nýja hluti og fá að vera sjálfstæðari. Á þessum tíma eru þó margar breytingar sem eiga sér stað, bæði andlega og líkamlega. Sjálfmyndin er að mótast, sjálfstraustið fer upp og niður eftir dögum jafnvel klukkutímum og síðan eru það tilfinningasveiflurnar sem einkenna oft unglingsárin hjá mörgum unglingum enda er oft sagt að það sé sko ekkert létt að vera unglingur. Þegar sjálfsmyndin okkar er að mótast, erum við oft að leita af eiginleikum sem okkur langar til þess að hafa, hvernig manneskjur við viljum í raun vera.
Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að við sem vinnum í félagsmiðstöðum reynum okkar allra besta til þess að vera góðar fyrirmyndir bæði í orði og verki. Hvaða eiginleika viljum við sýna þegar þau spjalla við okkur? Viljum við vera starfsmaðurinn sem er alltaf í símanum? Viljum við vera starfsmaðurinn sem er alltaf skammandi í þeim yfir öllu? Viljum við vera starfsmaðurinn sem spjallar alltaf bara við sömu krakkana en spjalla aldrei við þá sem eru minna félagslega sterkir? Hvernig viljum við að aðrir sjái okkur? Ég væri að minnsta kosti til að unglingar myndu sjá mig sem skemmtilega, kurteisa, þolinmóða, góðhjartaða manneskju sem tæki vel á móti öllum sama hvaðan þeir koma eða hvernig þeir eru.
Heilsum öllum unglingum þegar þau koma inn í félagsmiðstöðina, ekki bara þeim sem við tölum mest við eða þá sem eru minnst feimnir. Gefum okkur tíma í þá unglinga sem mæta sjaldan, einnig þá sem mæta og tala lítið sem ekkert. Geymum símann í úlpunni okkar eða inn á skrifstofu, hver nennir að tala við manneskju sem er alltaf með augun á símanum sínum? Ekki ég að minnsta kosti.
Við sem starfsfólk getum haft svo miklu meiri áhrif á marga unglinga en við gerum okkur grein fyrir, við vitum oft lítið sem ekkert hvað var að gerast heima, eða hvað unglingurinn er að ganga í gegnum. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að við leyfum öllum að vera með, að við reynum okkar besta í að láta öðrum líða vel í kringum okkur og að þau finni að þau séu öll mikilvæg, hlustum á hvað þau hafa að segja eða jafnvel bara bjóða í spil eða borðtennis.
Ég sjálf hefði verið til í að hafa einhvern fullorðinn til þess að spjalla við sem var ekki náinn fjölskyldumeðlimur eða kennari. Því á þessum unglings árum er maður oft svolítið týndur, maður vil gera allt og er svolítið óstöðvandi, svo allt í einu vil maður ekkert gera og hefur ekki áhuga á neinu og finnst allt ómögulegt. Æ, þið skiljið vonandi hvað ég er að tala um. Að lokum vil ég ítreka það að af minni reynslu eru lang flestir starfsmenn félagsmiðstöðva alveg með þetta allt á kristaltæru. En það er alltaf gott að líta í eigin barm og athuga hvað maður getur gert betur í samskiptum við aðra.
—
Bára Kristín Þórisdóttir